Aðgengi að Internetinu haustið 2000
Nú á haustmánuðum lét Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið sem starfar á vegum forsætisráðuneytis framkvæma könnun meðal landsmanna þar sem mældir voru ýmsir þættir er snúa að Internetnotkun. Slíkar kannanir hefur Verkefnisstjórn látið gera með reglubundnum hætti undanfarin misseri.
PricewaterhouseCoopers annaðist framkvæmd könnunarinnar að þessu sinni.
Úrtak var 1178 manns á aldrinum 16-75, sem dreifðist jafnt á milli kjördæma, en svarhlutfallið var 67,8% sem telst vel viðunandi.
Helstu niðurstöður könnunarinnar eru að 77,8% landsmanna hafa aðgang að tölvu með Internettengingu, þ.e. 77,9% kvenna og 77,7% karla. Þessar niðurstöður eru í samræmi við fyrri mælingar hvað aðgengi að Interneti varðar, en síðustu 12 mánuði hefur aðgengið aukist um tæpa tíu af hundraði. Þá kemur fram í könnuninni að 64,7% landsmanna á aldrinum 16-75 hafa aðgang að Interneti á heimilum.
Fram kemur marktækur munur milli hópa ef skoðað er aðgengi almennings eftir aldri, tekjum, starfsgrein og starfi ásamt búsetu. Eftir því sem tekjur aukast og menntunarstig verður hærra er líklegra að viðkomandi hafi aðgang að Interneti. Þá eru augljós tengsl milli starfs og starfsgreinar annars vegar og aðgangs að Interneti hins vegar.
Athygli vekur að 82,5% þeirra sem hafa Internettengingu hafa tölvupóstfang.
Rúmlega helmingur þeirra sem hafa aðgang að Interneti, eða 51,7%, eru að nota það nær daglega en aðeins um 15,4% af þeim sem hafa aðgang að Interneti nota það sjaldnar en vikulega eða aldrei.
Karlar virðast nota Internetið talsvert meira en konur. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar nota 61,1% karla, sem hafa aðgang að tölvu með Internettengingu, Internetið daglega eða nær daglega en samsvarandi tala er 42,2% fyrir konur. Þá eru karlar talsvert lengur á Netinu en konur því karlar eru að jafnaði 5:21 klst. á viku á Netinu en konur eru um klukkustund skemur eða 4:06 klst.
Af þeim, sem hafa aðgang að Interneti, kemur fram að 19,0% hafa keypt vöru eða þjónustu í gegnum Internetið á s.l. 3. mánuðum. Karlar eru mun líklegri til að versla vöru eða þjónustu í gegnum Internetið en konur. Af þeim sem hafa aðgang að Interneti telja rúm 30% mestu máli skipta öryggi greiðslna, meðan 12,3% nefna verð og 10,4% nefna vöruúrval. Ef aðeins eru skoðaðir þeir sem tóku afstöðu til spurningarinnar "hvaða tvö atriði finnst þér skipta mestu máli þegar þú kaupir vörur gegnum Netið" nefna 56,5% þeirra sem hafa Internetaðgang "öryggi greiðslna".
Þegar kemur að því að meta útbreiðslu ýmissa samskiptatækja kemur í ljós að 79,1% landsmanna á aldrinum 16-75 ára nota GSM síma, rúmur helmingur svarenda nota SMS (52,8%) en önnur samskiptatæki t.d. Vit (8,5%) eða Wap (3,4%) eru færri að nýta sér. Athygli vekur að 8,5% nota ferðatölvur en sá hópur sem mælist hæst í notkun hennar eru karlar, íbúar höfuðborgarsvæðisins, hátekjufólk og þeir sem lokið hafa háskólanámi. Notkun SMS er langmest meðal ungs fólks, eða 88,5% meðal þeirra sem eru á aldrinum 16-24 ára. Samsvarandi tala er 16,4% meðal 55-69 ára.
Ábendingar um vefsíður frá vinum og vandamönnum er það sem helst hvetur þá, sem hafa aðgang að Interneti, til heimsókna á vefsíður sem þeir hafa ekki skoðað áður, eða 47,6%. Ábendingar leitarvéla og auglýsingar í dagblöðum og í sjónvarpi nema um tuttugu af hundraði hvað þessa spurningu varðar.