Hoppa yfir valmynd
18. maí 2001 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samstarfsyfirlýsing

Samstarfsyfirlýsing
umhverfisráðuneytisins og
frjálsra félagasamtaka



Markmið samstarfsaðila er að efla lýðræðislega umræðu um umhverfis- og náttúruvernd. Virkni og þátttaka almennings er forsenda árangurs í umhverfismálum. Hlutverk frjálsra félagasamtaka felst ekki síst í að koma upplýsingum til almennings. Því vill umhverfisráðuneytið auka samráð við frjáls félagasamtök um stefnumörkun og framkvæmd umhverfisverndar í samræmi við ákvæði Árósasamningsins frá 1998.

Skilgreiningar

  • Í samstarfsyfirlýsingu þessari er með frjálsum félagasamtökum átt við öll þau samtök sem láta umhverfisvernd til sín taka óháð því hvort umhverfisvernd sé megin viðfangsefni samtakanna.
  • Umhverfissamtök eru þau frjálsu félagasamtök sem hafa umhverfisvernd sem megin viðfangsefni og starfa á landsvísu eða eru svæðisbundin.

Forsendur
  • Aðilar að þessari samstarfsyfirlýsingu eru sammála um það að frjáls félagasamtök gegni mikilvægu lýðræðislegu hlutverki í umræðu um umhverfismál. Framlag þeirra við að upplýsa almenning, stjórnvöld og fjölmiðla er mikilvægur þáttur í sjálfbærri þróun íslensks samfélags.
  • Í yfirlýsingu sem umhverfisráðherrar aðildarríkja Efnahagsnefndar Sþ fyrir Evrópu (UN/ECE) samþykktu í Árósum í júní 1988 undirstrika þeir mikilvægi frjálsra félagasamtaka og hvetja stjórnvöld til að styðja við bakið á slíkum samtökum og til að virkja þau við ákvarðanatöku um umhverfismál.
  • Leitað verður heimildar Alþingis á árinu 2001 til staðfestingar á Árósasamningnum um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum.
  • Löggjöf í umhverfismálum kallar á umtalsvert samráð við almenning.


Form samráðs umhverfisráðuneytisins og frjálsra félagasamtaka
  • Umhverfisráðuneytið mun standa fyrir reglulegum samráðsfundum með umhverfissamtökum. Auk þess verður boðað til víðtækari samráðsfunda eftir því sem tilefni er til. Á þessum fundum mun ráðuneytið gera grein fyrir helstu málum sem unnið er að hverju sinni og umhverfissamtökin kynna sínar áherslur og verkefni.
  • Umhverfisráðuneytið mun annað hvert ár boða til Umhverfisþings þar sem fjallað verður um stefnumörkun og framkvæmd á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar.
  • Umhverfissamtök sem aðild eiga að samstarfsyfirlýsingu þessari geta óskað eftir samráðsfundum með umhverfisráðuneytinu þegar þau telja þörf á.
  • Umhverfisráðuneytið mun leitast við að bjóða fulltrúum frjálsra félagasamtaka þátttöku í fjölskipuðum nefndum á vegum ráðuneytisins og að hafa samráð við þau við undirbúning lagafrumvarpa og reglugerða.

Stuðningur við umhverfissamtök
  • Umhverfisráðuneytið mun veita árlega styrki í samræmi við heimildir fjárlaga hverju sinni til almennrar starfsemi umhverfissamtaka. Fjárframlög verða einungis veitt þeim félögum sem eru opin fyrir almennri aðild, starfa ekki í hagnaðarskyni, hafa opið og endurskoðað reikningshald og taka saman árskýrslur. Slíkir styrkir komi til viðbótar við eigin fjáröflun sem standa skal undir megin hluta starfseminnar.
  • Umhverfisráðuneytið mun auk þess veita fjármagni til faglegrar uppbyggingar umhverfissamtaka, og frjálsra félagasamtaka sem láta umhverfismál til sín taka, með því að styrkja tiltekin verkefni í samræmi við heimildir fjárlaga hverju sinni.
  • Umhverfisráðuneytið mun veita umhverfissamtökum fjárhagslegan stuðning til þátttöku í stefnumarkandi alþjóðlegum fundum um umhverfismál samkvæmt nánara samkomulagi.
  • Umhverfisráðuneytið mun setja nánari reglur um þennan stuðning í samráði við aðila að samstarfsyfirlýsingunni.

Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi
  • Umhverfissamtök eru hvött til þess að afla sér heimildar til þátttöku á fundum á vegum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra umhverfissamninga.

Aðild að samstarfsyfirlýsingunni
  • Umhverfisráðuneytið mun halda skrá yfir umhverfissamtök og önnur frjáls félagasamtök sem falla undir samstarfsyfirlýsingu þessa.
  • Öllum þeim samtökum sem falla undir samstarfsyfirlýsinguna er heimilt að óska eftir aðild að henni.

Endurskoðun

Þessi samstarfsyfirlýsing verður endurskoðuð í ljósi fenginnar reynslu að tveimur árum liðnum frá undirritun hennar af aðilum hennar sameiginlega.


Reykjavík, 20. mars 2001

Félag um verndun hálendis
Fuglaverndarfélag Íslands Austurlands
Hið íslenska náttúrufræðifélag
Landvernd
Náttúruverndarfélag Suðuvesturlands
Náttúruverndarsamtök Austurlands - NAUST
Náttúruverndarsamtök Íslands
Náttúruverndarsamtök Vesturlands
Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi - SUNN
Sól í Hvalfirði
Umhverfisverndarsamtök Íslands
og
Umhverfisráðherra

síðan hafa bæst við
Samtök útivistarfélaga - SAMÚT
Skóræktarfélag Íslands


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta