Ástand og þróun umhverfismála á Íslandi á árinu 1999
Skýrsla um ástand og þróun umhverfismála
á Íslandi á árinu 1999
Gefin út skv. 9. gr. laga nr. 21/1993
Efnisyfirlit
1. Stjórnarskipti og stefnumótun
1.1. Verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar
1.2. Verkefnaskrá umhverfisráðherra 1999-2003
2. Ný lög og reglugerðir um umhverfismál 1999
1.1. Ný lög um náttúruvernd
3. Breytingar á stofnunum og málaflokkum ráðuneytisins
2.1. PAME-skrifstofa opnuð á Akureyri
4. Af starfi ráðuneytisins
4.1. Svæðisskipulag miðhálendisins staðfest
4.2. Dagur umhverfisins 25. apríl
4.3. Endurskoðun áætlunar um sjálfbæra þróun
4.4. Niðurstöður vöktunarmælinga á mengun á Íslandi og í hafinu
4.5. Rannsókn á útbreiðslu Campylobacter
4.6. Rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu
4.7. Díoxín í innfluttum matvælum
4.8. Umhverfisvefurinn opnaður
4.9. Upplýsingagjöf um eyðslu nýrra fólksbíla
5. Alþjóðasamstarf
5.1. Aðildarríki OSPAR hraða aðgerðum gegn geislamengun
5.2. Áætlun um vernd náttúru og menningarminja á norðurslóðum
5.3. Fundur umhverfisráðherra og nýs umhverfisstjóra ESB
5.4. Sjöundi fundur Nefndar S.þ. um sjálfbæra þróun
1. Stjórnarskipti og stefnumótun
Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við af fyrri ríkisstjórn sömu flokka að afloknum Alþingiskosningum á árinu 1999. Guðmundur Bjarnason lét af starfi sem umhverfisráðherra 11. maí og gegndi Halldór Ásgrímsson starfinu til 28. maí, þegar Siv Friðleifsdóttir tók við embætti umhverfisráðherra.
1.1. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna
Hinn 28. maí 1999 kynntu ríkisstjórnarflokkarnir stefnuyfirlýsingu sína fyrir kjörtímabilið. Þar stendur m.a. um stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum:
"Að efla náttúruvernd, stuðla að öflugum mengunarvörnum og vernd lífríkisins. Nauðsynlegt er að skapa sátt milli skynsamlegrar nýtingar auðlinda og náttúruverndarsjónarmiða á grundvelli sjálfbærrar þróunar með hliðsjón af hagsmunum komandi kynslóða. Ljúka þarf gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðhita sem tekur tillit til verndargildis einstakra landsvæða. Hvetja þarf einstaklinga til aukinnar ábyrgðar gagnvart umhverfi sínu. Fyrirtæki marki sér umhverfisstefnu þróunar til að draga úr sóun og auka verðmætasköpun. Hrint verði af stað umhverfisátaki þar sem einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög verði hvött til að endurnýta efni og flokka úrgang. Ísland gerist aðili að Kyoto-bókuninni þegar fyrir liggur ásættanleg niðurstaða í sérmálum þess. "
1.2. Verkefnaskrá umhverfisráðuneytisins
Í framhaldi af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar lét Siv Friðleifsdóttir vinna verkefnaskrá fyrir umhverfisráðuneytið fyrir tímabilið 1999-2003. Verkefnaskráin var gefin út á prenti og dreift víða, auk þess sem hún er aðgengileg á heimasíðu umhverfisráðuneytisins. Verkefnaskráin er unnin á grunni stefnuyfirlýsingarinnar, þar sem ítarlega er farið ofan í hvað umhverfisráðherra hyggst gera til að hrinda þeim markmiðum sem þar eru tilgreind í framkvæmd. Í formála sínum að verkefnaskránni sagði umhverfisráðherra m.a.:
"Sjálfbær nýting náttúruauðlinda og sjálfbær efnahagsþróun eru grundvöllur að treysta lífsskilyrði komandi kynslóða. Íslendingum ber skylda til að nýta auðlindir sínar af fyrirhyggju og sjá til þess um leið að landið og afurðir þess hafi ímynd hreinleika og hollustu.
Heimsráðstefnan í Ríó árið 1992 markaði tímamót í viðhorfum til umhverfismála. Framkvæmdaáætlun sú sem þar var samþykkt er sá grunnur sem við Íslendingar byggjum á í þeirri viðleitni okkar að koma á sjálfbærri þróun.
Sjálfbær þróun er hugmyndafræði skynsamlegrar langtímanýtingar mannsins á gæðum náttúrunnar. Hún er jafnframt raunsæisstefna í umhverfismálum, sem tekur tillit til efnahags- og félagslegra þátta, ekki síður en til verndunar og friðunar náttúrufars. Í allri stefnu og starfi umhverfisráðuneytisins á næstu fjórum verður sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi."
1. Ný lög og reglugerðir um umhverfismál 1999
1.1. Ný lög um náttúruvernd
Umhverfisráðherra lagði á vorþingi 1999 fram frumvarp til nýrra laga um náttúruvernd, sem Alþingi samþykkti sem lög nr. 44/1999. Lögin tóku gildi 1. júlí. Um er að ræða heildarlöggjöf, sem leystu af hólmi eldri lög, sem að grunni til voru frá árinu 1971.
Árið 1996 samþykkti Alþingi lög sem fólu í sér grundvallarbreytingar á stjórn náttúruverndarmála og stofnun Náttúruverndar ríkisins sem tók að mestu við daglegum rekstri og verkefnum Náttúruverndarráðs. Í október 1996 skipaði ráðherra nefnd undir formennsku Guðjóns Ólafs Jónssonar, aðstoðarmanns umhverfisráðherra, til að vinna að endurskoðun á efnisþáttum náttúruverndarlaga. Nefndin lauk störfum í desember 1998 og skilaði ráðherra tillögu að frumvarpi, sem lagt var fram á Alþingi með nokkrum breytingum.
Nokkur helstu nýmæli og breytingar frá eldri lögum í náttúruverndarlögunum voru þessar:
1. Réttur manna til umferðar um landið og dvalar, svokallaður almannaréttur, var rýmkaður mjög. Í lögunum er að finna sérstök ákvæði um umferð gangandi, hjólandi og ríðandi manna, svo og um heimild manna til að slá upp tjöldum og um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa og jurta.
2. Skýrar reglur eru í lögunum um bann við akstri utan vega.
3. Sérstakur kafli laganna fjallar um landslagsvernd og fleira henni tengt. Þar eru m.a. tilgreindar landslagsgerðir sem njóta skulu sérstakrar verndar. Ennfremur er þar að finna ákvæði um vernd steinda og fjallað um innflutning, ræktun og dreifingu framandi lífvera.
4. Mælt er fyrir um að umhverfisráðherra skuli leggja sérstaka náttúruverndaráætlun fyrir Alþingi fimmta hvert ár og skal hún vera hluti af náttúruminjaskrá.
5. Nýjar og hertar reglur voru settar um nám jarðefna, þar sem m.a. eru ákvæði um heimildir til efnistöku, áætlun framkvæmdaraðila, frágang efnistökusvæða og tryggingu fyrir honum. Náttúruvernd ríkisins mun gera tillögur um frágang efnistökusvæða sem hætt er að nota og hafa umsjón með frágangi og skal því verki lokið eigi síðar en árið 2003.
6. Ákvæði um friðlýsingar voru einfölduð og endurbætt. Sérstaklega er kveðið á um friðlýsingu náttúrumyndana í hafi.
7. Ábyrgð heimamanna á framkvæmd náttúruverndarlaga var aukin, svo og vægi og hlutverk náttúruverndarnefnda sveitarfélaga.
8. Kveðið var á um aðkomu náttúruverndaryfirvalda að gerð skipulagsáætlana og breytinga á þeim, svo og við úrskurði um mat á umhverfisáhrifum.
9. Stjórn Náttúruverndar ríkisins var lögð niður.
2. Breytingar á stofnunum og málaflokkum ráðuneytisins
2.1. PAME-skrifstofa opnuð á Akureyri
Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra opnaði 30. apríl 1999 skrifstofu Norðurskautsráðsins um vernd gegn mengun hafsins á norðurslóðum (PAME) á Akureyri, við athöfn af því tilefni. Soffía Guðmundsdóttir umhverfisverkfræðingur var ráðin framkvæmdastjóri skrifstofunnar.
Norðurskautsráðið var stofnað í september 1996 af Norðurlöndunum, Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi. Á vegum ráðsins starfa fjórir vinnuhópar:
- AMAP-hópurinn, sem sér um að samræma vöktun á norðurhjara,
- EPPR-hópurinn um sameiginlegar aðgerðir gegn mengunaróhöppum,
- hópur um verndun gróður og lífvera á norðurslóðum, en skrifstofa þess verkefnis, svokölluð CAFF-skrifstofa, var opnuð á Akureyri árið 1996,
- og PAME (Protection of Arctic Marine Environment).
Á vegum PAME hefur verið unnið að gerð svæðisbundinnar framkvæmdaáætlunar gegn mengun hafsins og tóku fulltrúar íslenskra stjórnvalda virkan þátt í gerð hennar. Áætlunin var lögð fram og samþykkt á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Iqaluit í Kanada 1998. Forgangsverkefni skv. áætluninni eru: stuðningur við gerð framkvæmdaáætlunar fyrir heimskautahluta Rússlands, stuðningur við áframhaldandi aðgerðir til að draga úr losun þungmálma og þrávirkra lífrænna efna og undirbúningur að gerð samræmdra áætlana um strandsvæði. Á fundinum í Iqaluit var samþykkt tilboð Íslands um að hýsa PAME-skrifstofuna næstu tvö árin. Umhverfisráðherra ákvað síðan að PAME-skrifstofan skyldi staðsett á Akureyri. Þar starfa því tvær alþjóðlegar umhverfisskrifstofur á Akureyri, PAME og CAFF, auk Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, sem sinnir málefnum norðurheimskautsins.
4. Af starfi ráðuneytisins
4.1. Svæðisskipulag miðhálendisins staðfest
Umhverfisráðherra staðfesti Svæðisskipulag miðhálendis Íslands til 2015 hinn 10. maí 1999. Með því var mikilvægum áfanga náð í skipulagsmálum miðhálendisins.
Með bráðabirgðaákvæði laga nr. 73/1993 við eldri skipulagslög var sett á laggirnar svæðisskipulagsnefnd miðhálendis Íslands, þar sem sæti áttu einn fulltrúi tilnefndur af héraðsnefndum þeim er lágu að miðhálendinu. Tillaga nefndarinnar var auglýst árið 1997 og bárust athugasemdir frá tæplega 100 aðilum, einstaklingum, félagasamtökum, sveitarfélögum, stofnunum og ráðuneytum. Samvinnunefndin afgreiddi endanlega skipulagstillöguna til Skipulagsstofnunar 24. nóvember 1998, þar sem óskað var staðfestingar ráðherra. Skipulagsstofnun afgreiddi tillöguna síðan með ítarlegri greinargerð til ráðherra 9. apríl 1999 þar sem stofnunin mælti með staðfestingu skipulagstillögunnar.
Alþingi samþykkti í mars 1999 lög um breytingu á skipulags- og byggingarlögum þar sem mælt var fyrir um stofnun sérstakrar Samvinnunefndar miðhálendis. Nefndin skal annast endurskoðun svæðisskipulags miðhálendis og gæta þess að samræmi sé innbyrðis með aðalskipulagstillögum einstakra sveitarfélaga á svæðinu og að samræmi sé á milli þeirra og svæðisskipulags miðhálendisins.
Nýtt kort yfir stjórnsýslu og sveitarfélög
Í tengslum við gerð svæðisskipulags fyrir miðhálendið fól umhverfisráðuneytið Landmælingum Íslands að gera stjórnsýslu- og sveitarfélagakort með sem nákvæmustu upplýsingum um stjórnsýslumörk í landinu. Landmælingar kynntu fullbúið kort í október 1999 ásamt stafrænum gögnum þar sem fram koma mörk sveitarfélaga sem og önnur mörk stjórnsýslunnar. Landmælingar unnu verkefnið í nánu samstarfi við dóms- og kirkjumálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, Hagstofu Íslands og umhverfisráðuneytið. Um er að ræða tvö kort í mælikvarðanum 1:750 000 (60x80cm) annars vegar "Stjórnsýsluumdæmi sýslumanna og sveitarfélög á Íslandi" og hins vegar "Stjórnsýslumörk á Íslandi".
4.2. Dagur umhverfisins 25. apríl
Ríkisstjórnin ákvað í febrúar 1999, að tillögu Guðmundar Bjarnasonar umhverfisráðherra, að lýsa 25. apríl sérstakan Dag umhverfisins. Dagurinn er hugsaður sem hvatning til skólafólks og almennings að kynna sér betur samskipti manns og náttúru og sem tækifæri fyrir stjórnvöld, félagasamtök og fjölmiðla til að efla opinbera umræðu um umhverfismál.
Umhverfisráðherra ákvað eftir samráð við fulltrúa áhugasamtaka og atvinnulífs að ástæða væri til þess að halda upp á sérstakan dag helgaðan umhverfismálum á Íslandi, eins og gert er í mörgum löndum. Alþjóðlegur dagur umhverfisins, skv. yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, er 5. júní, en sú dagsetning þótti ekki henta íslenskum aðstæðum, þar sem mikilvægt þótti að hvetja skólafólk til að vinna að verkefnum tengdum umhverfismálum. 25. apríl þótti henta betur, en sá dagur er fæðingardagur Sveins Pálssonar, fyrsta náttúrufræðings Íslendinga og þess manns sem e.t.v. fyrstur vakti máls á þeirri hugsun sem nú gengur undir heitinu "sjálfbær þróun", en hann skrifaði um eyðingu íslenskra skóga og sagði illa meðferð þeirra skaða hag komandi kynslóða.
Umhverfisráðuneytið hélt upp á Dag umhverfisins 1999 með veitingu viðurkenninga fyrir starf að umhverfismálum. Tvö fyrirtæki fengu viðurkenningu fyrir störf að umhverfismálum, Olíufélag Íslands hf. og Haraldur Böðvarsson hf. Verðlaun til fjölmiðla fyrir góða umfjöllun um umhverfismál hlutu Útgáfufélag Glettings, tímarits um austfirsk málefni, fyrir Snæfellsblað Glettings og Morgunblaðið fyrir greinaflokkinn Landið og orkan, sem unninn var af Rögnu Söru Jónsdóttur og Ragnari Axelssyni.
Fjölmargir viðburðir voru að auki á þessum fyrsta Degi umhverfisins á Íslandi á Akranesi, Árborg, Egilsstöðum, Hólmavík, Hveragerði og Ölfushreppi og Reykjavík, auk þess sem Ferðafélag Íslands bauð upp á sérstaka ferð um Suðurnes í tilefni dagsins.
4.3. Endurskoðun áætlunar um sjálfbæra þróun
Sérstök nefnd sem umhverfisráðherra skipaði til að leggja mat á stöðu og eftirfylgni framkvæmdaáætlunar Íslands um sjálfbæra þróun (Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi: Framkvæmdaáætlun til aldamóta), skilaði áliti sínu 1999.
Í skýrslu nefndarinnar var að finna ítarlegt yfirlit um framkvæmd einstakra ákvæða áætlunarinnar, auk tillagna um hugsanlegt framhald á þeirri vinnu sem farið hefur fram við að framfylgja ákvæðum Dagskrár 21, framkvæmdaáætlunar S.þ. um sjálfbæra þróun, hér á landi.
Samkvæmt svörum sem nefndin fékk frá sex ráðuneytum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hafði stærstum hluta þeirra verkefna sem kveðið er á um í áætluninni verið hrint í framkvæmd og var mörgum lokið. Vinna hafði aftur á móti ekki hafist varðandi öll ákvæðin, sem er skiljanlegt, þar sem gildistími áætlunarinnar er til aldamóta, eða til ársloka árið 2000. Gróft mat á stöðu 101 svokallaðs lykilákvæðis, sem nefndin fékk umsögn um, sýndi að 85 þeirra hafði verið hrint í framkvæmd, en að vinna hafi ekki hafist við framkvæmd 16 ákvæða.
Væri litið á megininntak framkvæmdaáætlunarinnar, að innleiða sjónarmið sjálfbærrar þróunar inn í ákvarðanatöku og atvinnulíf Íslendinga, var það mat nefndarinnar að mjög hafi þokast í rétta átt. Í raun mætti segja að bylting hafi orðið hvað þetta varðaði á síðustu árum, bæði í stjórnsýslu og atvinnulífinu, þar sem stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök hefðu mörg hver sett sér umhverfisstefnu og komið sér upp þekkingu á sviði umhverfismála. Nefndin lagði til að stjórnvöld gerðu nýja framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi að gildistíma áætlunarinnar liðnum.
4.4. Niðurstöður vöktunarmælinga á mengun á Íslandi og í hafinu
Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra kynnti 8. júní 1999 niðurstöður viðamikilla vöktunarmælinga á mengandi efnum á Íslandi og í hafinu kringum landið, sem unnið hafði verið að á undanförnum árum. Niðurstöðurnar voru kynntar í viðamikilli stöðuskýrslu, sem nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins, svokölluð AMSUM nefnd, skilaði af sér varðandi tilvist nokkurra mengandi efna hér við land.
Þau mengandi efni sem fjallað er um skiptast í fjóra flokka: Þungmálma, þrávirk lífræn efni, geislavirk efni og næringarefni. Í starfi AMSUM-nefndarinnar var lögð áhersla á sjóinn og lífríki hans, en í skýrslunni er einnig að finna upplýsingar um tilvist mengandi efni í andrúmslofti, straumvötnum, stöðuvötnum, landspendýrum, fuglum og manninum.
Almennt sýna niðurstöður skýrslunnar að umhverfið við og á Íslandi er tiltölulega hreint miðað önnur nálæg lönd og svæði. Styrkur þungmálma í andrúmslofti er mjög sambærilegur við það sem gerist á norðlægum slóðum, en styrkur nokkurra þungmálma er tiltölulega hár í sjávarseti og sjávarlífverum, sem virðist þó mega rekja til náttúrulegra aðstæðna. Styrkur þrávirkra lífrænna efna í andrúmslofti og úrkomu hér er ívið lægri en á öðrum sambærilegum norðlægum stöðum og styrkur þeirra í lífríki sjávar hér við land er með því lægsta sem mælist. Niðurstöður sýna ennfremur að magn PCB og DDE (afleiða af DDT) hefur minnkað í fiski á Íslandsmiðum á tímabilinu 1990-1996. Á hinn bóginn er magn þrávirkra efna í fuglum (æðarfugl og fálki) hærra hér en í sambærilegum tegundum á norðlægum slóðum. Talið er að hér sé um innflutning að ræða t.d. með farfuglum. Einnig hefur mælst hlutfallslega hár styrkur af kvikasilfri í fjöðrum sjófugla frá Látrabjargi. Geislavirkni í íslensku umhverfi er mjög lág, hvort sem um er að ræða lífríki eða aðra hluta umhverfisins (set, sjó, úrkomu). Greinileg eru þó áhrif frá kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield í sjónum hér við land og í þangi.
4.5. Rannsókn á útbreiðslu Campylobacter
Á ríkisstjórnarfundi 9. ágúst 1999 var að tillögu Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra samþykkt að veita 3 millj. kr. í rannsókn á tilvist og útbreiðslu Campylobacter í umhverfi, dýrum og matvælum.
Frá árinu 1990 og fram til ársins 1998 fjölgaði iðrasýkingum af völdum bakteríunnar Campylobacter hér á landi úr alls 16 í 220 tilfelli á ári en frá árinu 1995 og fram til ársins 1998 fjölgaði árlegum tilfellum úr 39 í 220. Á árinu 1995 voru tilfelli sem áttu uppruna sinn innanlands 19 en hafði fjölgað í 151 árið 1998. Ætla má að raunverulegur fjöldi sýkinga sé á bilinu 5-20 faldur fjöldi staðfestra sýkinga.
Hollustuvernd ríkisins hafði fengið loforð um styrk úr sjóðum Rannís til þess að vinna að rannsóknum og úrlausnum á vandamálinu í samstarfi við sýklafræðideild Landspítala, landlækni, yfirdýralækni, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Vegna fjölgunar Campylobacter-sýkinga var hins vegar talið að grípa þyrfti til mun hraðari aðgerða en þeirra sem þetta rannsóknarverkefni rúmaði og því sett aukið fé í rannsóknir. Rannsókninni var beint að matvælum á markaði, yfirborðsvatni, framleiðslustöðum, sláturhúsum og umhverfi þessara staða.
4.6. Rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu
Á fundi ríkisstjórnarinnar 6. ágúst var að tillögu umhverfisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, samþykkt að verja einni milljón króna af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar til að hefja rannsókn á vetrarafföllum rjúpu.
Vöktun Náttúrufræðistofnunar Íslands á rjúpnastofninum hafði leitt í ljós nauðsyn þess að könnuð verði áhrif veiðiálags á rjúpnastofninn, en á sumum svæðum hafði verið sýnt fram á að 70% rjúpna á lífi í upphafi veiðitíma féllu fyrir hendi veiðimanna. Áætlað var að rannsóknin á vetrarafföllum og áhrifum skotveiða á rjúpnastofninn standi yfir næstu þrjú árin. Til þess að hefja þessar rannsóknir þurfti að útvega 1 milljón króna á árinu 1999. Rannsóknirnar koma m.a. til móts við ályktun Alþingis um rannsóknir á vetrarafföllum.
4.7. Díoxín í innfluttum matvælum
Innflutningur og önnur dreifing tiltekinna matvæla frá Belgíu var takmarkaður í júní með ákvörðunum Evrópusambandsríkja og annarra ríkja. Ástæðan var fóðrun dýra með díoxínmenguðu fóðri á fyrri hluta ársins 1999. Evrópusambandið setti skilyrði um útflutning matvæla frá Belgíu, en íslenskum stjórnvöldum þótti jafnframt rétt að setja reglur um innflutning þessara matvæla til Íslands og eftirlit með honum, þar sem mengun matvæla með díoxíni var talin með öllu óásættanleg því hún getur valdið síðkomnum eituráhrifum sé mengaðra matvæla neytt yfir langan tíma.
Umhverfisráðuneytið gaf að höfðu samráði við landbúnaðarráðuneytið út auglýsingu um takmörkun á innflutningi tiltekinna matvæla frá Belgíu, með það að markmiði að tryggja að díoxínmenguð matvæli væru ekki hér á markaði. Einni sendingu af hitameðhöndluðu svínakjöti sem gat verið af belgískum uppruna var fargað, að beiðni innflytjandans. Fyrir lá að ekki hafði verið flutt inn fóður frá Belgíu.
4.8. Umhverfisvefurinn opnaður
Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra opnaði 9. febrúar 1999 Umhverfisvefinn, sem ætlað var að verða upplýsingamiðstöð um umhverfismál á netinu fyrir skólafólk og almenning. Umhverfisvefurinn var fyrsti vefur sinnar gerðar á íslensku, sem er í senn efnisflokkaður og gagnvirkur, en slóðin á hann er: http://www.umvefur.is.
Vefurinn var settur upp að tilhlutan Umhverfisfræðsluráðs, sem umhverfisráðherra setti á fót árið 1998 til að efla og samræma starf að umhverfisfræðslu. Við opnun Umhverfisvefsins var að finna slóðir á 85 íslenskar vefsíður, sem flokkaðar voru eftir efni í 32 flokka.
4.9. Upplýsingagjöf um eyðslu nýrra fólksbíla
Umhverfisráðuneytið, Bílgreinasambandið og Félag íslenskra bifreiðaeigenda gerðu í febrúar 1999 með sér samkomulag um upplýsingagjöf um eyðslu nýrra fólksbíla. Í samkomulaginu sagði að í sýningarsölum bifreiðainnflytjenda í Bílgreinasambandinu skuli liggja frammi upplýsingar um eldsneytisnotkun nýrra fólksbíla í samræmi við kröfur sem gerðar eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Bílgreinasambandið og Félag íslenskra bifreiðaeigenda munu með stuðningi umhverfisráðuneytisins eiga að gefa árlega út bækling með upplýsingum um eyðslu nýrra fólksbíla og öðru því tengdu. Í bæklingnum á einnig að gera grein fyrir þróun varðandi mengun í útblæstri og eldsneytisnotkun bifreiða.
5. Alþjóðasamstarf
5.1. Aðildarríki OSPAR hraða aðgerðum gegn geislamengun
Aðildarríki OSPAR-samningsins um vernd Norð-austur Atlantshafsins samþykktu í júní 1999 að hraða aðgerðum til að draga úr losun á geislavirkum efnum á fundi sínum í Hull í Bretlandi. Á fundinum var einnig samþykkt ný 25 ára áætlun til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum olíu- og jarðgasvinnslu á hafinu, en aðildarríki OSPAR höfðu áður samþykkt slíkar framkvæmdaáætlanir varðandi hættuleg efni, geislavirk efni, næringarefnaauðgun og vernd lífríkis hafsins á fundi umhverfisráðherra OSPAR-ríkjanna í Sintra í Portúgal árið 1998.
Á ráðherrafundinum í Sintra skuldbundu Bretar og Frakkar - sem eru einu þjóðirnar í OSPAR sem stunda endurvinnslu á kjarnorkuúrgangi (í Sellafield og Cap de la Hague) - sig til að hætta nánast alveg losun geislavirkra efna fyrir árið 2020. Á fundinum í Hull lögðu Írar fram tillögu, sem unnin var í nánu samráði við Íslendinga og Dani, um að OSPAR-ríkin legðu aukna áherslu á að ná markmiðum sínum varðandi aðgerðir gegn geislamengun og reyndu að hraða slíkum aðgerðum, þannig að markmiðin næðust vel fyrir árið 2020, einkum varðandi endurvinnslu kjarnaefna. Þessi tillaga var síðan samþykkt.
5.2. Áætlun um vernd náttúru og menningarminja á norðurslóðum
Umhverfisráðherrar Norðurlandanna áttu með sér fund 23. ágúst 1999 á hótel Reynihlíð við Mývatn. Á fundinum var m.a. samþykkt framkvæmdaáætlunar um vernd náttúru og menningarminja á norðurslóðum, þ.e. Íslandi, Grænlandi og Svalbarða. Áætlunin, sem hefur að geyma 14 ákvæði um aðgerðir, á að ganga í gildi árið 2000.
Að auki ræddu umhverfisráðherrarnir m.a. mengun hafsins á norðurslóðum, aðstoð Norðurlandanna við lausn umhverfisvandamála í Rússlandi og eftirfylgni yfirlýsingar forsætisráðherra Norðurlandanna um sjálfbær Norðurlönd. Á fundinum voru, auk Sivjar Friðleifsdóttur, umhverfisráðherra, sem gegndi formennsku í starfi norrænu umhverfisráðherrana: Kjell Larsson, umhverfisráðherra Svíþjóðar, Guro Fjellanger, umhverfisráðherra Noregs, Satu Hassi, umhverfisráðherra Finnlands, Eydun Eltör, fulltrúi landstjórnar Færeyja og Alfred Jakobsen, fulltrúi landstjórnar Grænlands, auk fulltrúa frá Álandseyjum.
5.3. Fundur umhverfisráðherra og nýs umhverfisstjóra ESB
Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra hitti nýjan framkvæmdastjóra umhverfismála hjá Evrópusambandinu, Margot Wallström, að máli 12. október 1999. Wallström hafði þá nýtekið við starfi framkvæmdastjóra af Ritt Bjerregaard þegar ný framkvæmdastjórn ESB undir stjórn Romanos Prodis tók við störfum. Meðal þess sem umhverfisráðherra ræðir um við Wallström voru áherslur íslenskra stjórnvalda á sviði umhverfismála og niðurstöður ráðstefnu sem íslensk stjórnvöld héldu um umhverfisþátt hinnar svokölluðu norðlægu víddar innan ESB, sem Finnar hafa lagt áherslu á í formennskutíð sinni í ESB og miðar m.a. að lausn vandamála á Eystrasaltssvæðinu og NV-Rússlandi, auk heimskautasvæðanna.
Í ræðu sinni á þeirri ráðstefnu sagði Siv að umhverfisvandamál á nyrstu svæðum Evrópu yrðu aðeins leyst með víðtæku alþjóðlegu samstarfi. Ákvörðun ráðherraráðs ESB í maí á þessu ári um áætlun ESB um norðlægu víddina og ályktun Evrópuþingsins um sama efni væru gott innlegg í slíkt samstarf. Áætlun ESB um norðlægu víddina hefði haft áhrif á áætlun Íslands um formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, sem bæri yfirskriftina "Fólk og haf í norðri". Sá vandi sem fælist í vaxandi mengun hafsins væri stundum vanmetinn og hafsvæðin nyrst í Evrópu væru sérstaklega viðkvæm fyrir mengun og krefðust því sérstakrar aðgæslu. Það alþjóðlega starf sem unnið hefði verið í umhverfisvernd á norðurslóðum hefði til þessa einkum beinst að rannsóknum, upplýsingasöfnun og gerð framkvæmdaáætlana. Nú væri kominn tími til þess að hrinda þessum áætlunum í framkvæmd. Slíkt kostaði verulega vinnu og fé, en það væri fjárfesting í lífsgæðum til framtíðar.
5.4. Sjöundi fundur Nefndar S.þ. um sjálfbæra þróun
Sjöundi fundur nefndar Sþ um sjálfbæra þróun var haldinn í New York 19.-30. apríl, 1999. Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra, sótti fundinn af Íslands hálfu ásamt embættismönnum. Á fundinum var m.a. fjallað um málefni hafsins og var Ísland með sérstaka kynningu á stefnu landsins í þeim efnum í tengslum við fundinn. Önnur mál á dagskrá CSD-7 voru: Sjálfbærir neyslu- og framleiðsluhættir, sjálfbær ferðamennska og Framkvæmdaáætlun um þróun smáeyjaríkja.
Á ráðherrafundi CSD tók Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra til máls undir dagskrárliðunum um málefni hafsins. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á mikilvægi hafsins fyrir íslensku þjóðina og mikilvægi verndunar hafsins gegn mengun og að lifandi auðlindir þess séu nýttar á sjálfbæran hátt. Í því samhengi lagði hann m.a. áherslu á framkvæmd Washingtonáætlunarinnar um vernd hafsins gegn mengun frá landi, yfirstandandi samningaviðræður um þrávirk lífræn efni, bætt vísindalegt mat á ástandi hafsins, virkari framkvæmd gildandi alþjóðasamninga, reglna og leiðbeininga um vernd og sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins, áreiðanlegar vísindalegar upplýsingar um ástand fiskistofna og veiðar, rétt ríkja til að nýta auðlindir sínar, afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi og þróun leiðbeininga um vistmerki fyrir sjávarfang á vettvangi FAO. Auk þess tók ráðherra undir þá skoðun að þörf sé á að bæta samræmingu í starfi Sþ að málefnum hafsins. Hann lagði hins vegar áherslu á að slíkt ætti að gerast innan núverandi stofnanaramma og að forðast skyldi að leysa staðbundin vandmál á sviði fiskveiðistjórnunar á vettvangi alþjóðastofnana. Í umræðum hvatti umhverfisráðherra til þess að niðurgreiðslum í sjávarútvegi yrði hætt.
Í ályktun CSD um hafið voru meginmálin þrjú: (1) auðlindir hafsins, (2) mengun hafsins og (3) samræming á sviði málefna hafsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Helstu áherslur ályktunarinnar voru eftirfarandi:
(1) Auðlindir hafsins:
- Ríki eru hvött til að framkvæma gildandi alþjóðasamninga, reglur og leiðbeiningar.
- Svæðisbundið samstarf á sviði fiskveiðistjórnunar verði styrkt, sérstaklega vísindalegur grunnur slíkrar stjórnunar og veiðieftirlit.
- Gripið verði til alþjóðlegra ráðstafana til að taka á ólöglegum og stjórnlausum veiðum.
- Ríki eru hvött til að stofna verndarsvæði (MPA) ásamt með öðrum stjórntækjum, til að vernda líffræðilega fjölbreytni og tryggja sjálfbæra nýtingu sjávar.
- Hvatt er til aukins samstarfs á milli svæðisstofnana sem vinna að fiskveiðistjórnun annars vegar og vernd hafsins hins vegar, til að bæta samræmingu ráðstafana á sviði sjálfbærrar fiskveiðistjórnunar og umhverfisverndar.
(2) Mengun hafsins:
- Ríki og stofnanir Sþ eru hvött til að styrkja og flýta framkvæmd Washingtonáætlunarinnar um vernd hafsins gegn mengun frá landi.
- Hvatt er til að þróunarríkjunum verði veitt tæknileg og fjárhagsleg aðstoð til að draga úr mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna (POPs).
- Hvatt er til að hafrannsóknir verði styrktar, sér í lagi er varðar mengun hafsins.
(3) Samræming á sviði málefna hafsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna:
Áhugi á að auka samræmingu á málefnum hafsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafði farið vaxandi og voru nokkrar tillögur þar að lútandi lagðar fram á undirbúningsfundinum. Umfangsmikið samráð var á milli ríkja til að ná samkomulagi um leiðir til að bæta umfjöllunina um hafið á vettvangi S.þ. og tóku fulltrúar Íslands virkan þátt í þessu samráði. Niðurstaðan varð eftirfarandi atriði í ályktuninni:
- CSD hvetur aðalframkvæmdastjóra S.þ. til að beita sér fyrir því að bæta samstarf og samræmingu í starfi stofnana Sþ hvað varðar málefni hafsins, m.a. með því að leggja fram með ársskýrslu sinni til Allsherjarþingsins, tillögur um úrbætur á einstökum sviðum og með því að auka samráð millistofnananefndar Sþ um málefni hafsins (ACC Subcommittee on Ocean and Coastal Areas) við aðildarríkin.
- Allsherjarþingið er hvatt til að stofna til sérstaks samráðferlis til að undirbúa umfjöllun þess um málefni hafsins. Lagt er til að það verði í formi árlegs fundar sem standi yfir í viku og sem fjalli um skýrslu aðalframkvæmdastjórans um málefni hafsins í því augnamiði að tilnefna einstök atriði sem gefa þurfi sérstakan gaum í ályktunum allsherjarþingsins til að bæta samræmingu í milliríkjasamstarfi og starfi stofnana Sþ. Miðað er við að allsherjarþingið endurskoði gagnsemi slíks samráðsferlis að fjórum árum liðnum frá því að því er komið á fót.
Landskynning
Á ársfundum CSD er sá háttur hafður á að aðildarríkjum er gefinn kostur á að kynna það sem vel hefur gengið hjá þeim. Ísland var annað af tveimur ríkjum í Vesturlandaríkjahópnum, sem hélt slíka landskynningu að þessu sinni, þar sem íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið var kynnt. Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknarstofnunar flutti erindi um fiskveiðistjórnunarkerfið með sérstakri áherslu á vísindaþátt þess, auk þess sem dr. Alda Möller hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna flutti erindi um umhverfisstefnu fyrirtækisins. Kynningin var vel sótt og þótti takast vel.