Hoppa yfir valmynd
13. júní 2003 Dómsmálaráðuneytið

Banaslys í umferðinni 2002

Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur kynnt dómsmálaráðherra skýrslu um banaslys í umferðinni 2002. Árið 2002 fórust 29 einstaklingar í 22 umferðarslysum, þar af voru 15 karlmenn og 14 konur. Helmingur banaslysa varð við útafakstur og 41% við framanákeyrslu.

Banaslys í umferðinni 2002.
Rannsóknarnefnd umferðarslysa


Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur kynnt dómsmálaráðherra skýrslu um banaslys í umferðinni 2002. Árið 2002 fórust 29 einstaklingar í 22 umferðarslysum, þar af voru 15 karlmenn og 14 konur. Helmingur banaslysa varð við útafakstur og 41% við framanákeyrslu. Einn gangandi vegfarandi lét lífið, þá varð einn hliðarárekstur, en enginn bifhjólamaður fórst í umferðarslysi árið 2002. Áberandi var hversu margir drukknuðu, en 6 einstaklingar létust í 3 slysum, þar sem bifreið fór útaf og hafnaði í vatni. Þá fórust 4 einstaklingar í slysum, þar sem bifreið fauk af vegi.

Flestir sem látist hafa í banaslysum í umferðinni á síðari árum hafa verið vegfarendur á aldrinum 15-24 ára. Árið 2002 var frábrugðið að því leyti, að flestir sem létust voru 65 ára og eldri (24%). Þar á eftir voru börn á aldrinum 0-14 ára (17%) og vegfarendur á aldrinum 55-64 ára (17%). Fleiri atriði voru frábrugðin árið 2002. Yfir 80% ökumanna og farþega notuðu bílbelti en að jafnaði hefur einungis helmingur ökumanna og farþega notað bílbelti. Þá var lítið um ölvunarakstur, en helstu orsakir slysa mátti rekja til hraðaksturs og svefns eða þreytu.

Rannsóknarnefndin hefur ákveðið að hafa ítarlega umfjöllun um tiltekna málaflokka er tengjast banaslysum í skýrslu sinni ár hvert. Árið 2002 eru rannsóknir lögreglu á umferðarslysum og tæknirannsóknir sérfræðinga í forgrunni. Um það efni birtist yfirgripsmikil umfjöllun í skýrslunni. Nefndin leggur kapp á að koma sjónarmiðum sínum í þeim efnum á framfæri með það í huga að bæta og styrkja rannsóknir lögreglu og komast nær orsökum umferðarslysa.

Skýrslu um banaslys í umferðinni 2002 er hægt að nálgast á heimasíðu Rannsóknarnefndar umferðarslysa http://www.rnu.is/banaslys02.pdf


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
13. júní 2003.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta