Norræn ráðstefna um sjálfbæra þróun
Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, setti ráðstefnu um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum, sem haldin var í Kaupmannahöfn 21.-22. janúar, 2004. Ráðstefnan var haldin í tilefni þess að nú stendur yfir endurskoðun á norrænni áætlun um sjálfbæra þróun, en hún er fyrsta svæðisbundna áætlunin af því tagi í heiminum. Í opnunarerindi sínu sagði Siv að drög að endurskoðaðri áætlun, sem nú liggja fyrir, féllu vel að áherslum í formennskuáætlun Íslands í Norðurlandasamstarfi á árinu 2004. Ákveðið hefði verið að auka vægi félagslega þáttarins í endurskoðaðri áætlun og þar væru helstu áherslur á mannfjöldaþróun og aldurssamsetningu, lýðheilsu og menntamál, auk jafnréttismála. Samskipti við ábyrgðaraðila utan stjórnkerfisins væru mikilvæg og ráðstefnan væri liður í þeim.
Á ráðstefnunni tók Norræna upplýsingaskrifstofan tók upp viðtal við Siv um væntingar vegna endurskoðunar norrænu áætlunarinnar um sjálfbæra þróun og er það aðgengilegt á vef ráðherranefndarinnar.
Á ráðstefnunni héldu m.a. fulltrúar atvinnulífsins og félagasamtaka erindi, auk fulltrúa frá Eystrasaltsríkjunum og Umhverfisstofnun Evrópu. Forstjóri Umhverfisstofnunarinnar, Jacqueline McGlade, sagði að Norðurlöndin væru í fararbroddi í Evrópu hvað umhverfismál og sjálfbæra þróun áhrærði og hún vonaðist til þess að endurskoðuð áætlun innihéldi framsækin markmið, sem gætu haft áhrif á stefnumörkun Evrópusambandsins.