Efnahagsleg völd kvenna
- Skýrsla nefndar um efnahagsleg völd kvenna (DOC - 223Kb)
- Skýrsla nefndar um efnahagsleg völd kvenna (PDF - 176Kb)
Nefnd um efnahagsleg völd kvenna var skipuð af forsætisráðherra í samræmi við framkvæmdaráætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Nefndina skipuðu Stefanía Óskarsdóttir, formaður, Tryggvi Þór Herbertsson og Unnur Dís Skaptadóttir.
Nefndin stóð fyrir gerð umfangsmikillar launakönnunar í samvinnu við Jafnréttisráð Íslands, en niðurstöður hennar voru kynntar í september 2002. Einnig kom nefndin að gerð viðhorfskönnunnar um viðhorf Íslendinga til jafnréttismála til að glöggva sig á hvernig fólk skynjar þann veruleika sem það býr við. Viðhorfskönnunin var unnin í samvinnu við Rannsóknarstofu í kynjafræðum við Háskóla Íslands og framkvæmd af IMG-Gallup. Hún var jafnframt styrkt af félagsmálaráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og Nýsköpunarsjóði námsmanna. Að síðustu tók nefndin saman ýmsar tölur sem varpa ljósi á hlut kvenna í íslensku efnahagslífi. Kannanirnar og talnasamantektin gefa vísbendingar um áhrif kvenna í íslensku efnahagslífi.
Helstu niðurstöður
Launakönnunin náði til stórs hluta íslenskra launþega. Mjög margir þættir voru kannaðir til að skilja hvers vegna konur hafa að jafnaði lægri laun en karlar. Meginniðurstaða launakönnunarinnar var að konur hefðu 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnudag. Könnunin sýnir að skýra má 21-24% af þessum launamun með ólíkum starfsvettvangi, starfi, menntun og ráðningarfyrirkomulagi kynjanna*. Það sem eftir stendur (7,5-11% launamunur) stafar af því að hjónaband, barneignir og fleira hefur önnur áhrif á laun kvenna en karla. Föst dagvinnulaun karla eru t.d. 4-5% hærri en ella ef þeir eru í sambúð eða hjúskap en sambúð hefur lítil áhrif á laun kvenna.
* Ólík niðurstaða fékkst eftir því hvort miðað var við að ,,konur fengju greitt eins og karlar í sama starfi” eða ,,karlar fengju greitt eins og konur í sama starfi”.
Niðurstöður viðhorfskönnunarinnar styrkja þessa niðurstöðu. 65% karlkyns svarenda starfa á vinnustöðum þar sem karlar eru í miklum meirihluta og 64% kvenkyns svarenda starfa á vinnustöðum þar sem konur eru í miklum meirihluta. Samkvæmt viðhorfskönnuninni unnu 57% kvenkyns svarenda hjá hinu opinbera en 22% karla.
Atvinnutekjur kvenna eru um 60% af atvinnutekjum karla. Íslenskar konur eru þó mjög virkar á vinnumarkaði en vinna heldur styttri vinnudag en karlar á vinnustað en meira en þeir heima við. Um 35% kvenna vinna í skólum eða á heilbrigðisstofnunum Árið 2002 voru konur fjórðungur sjálfstætt starfandi manna hér á landi og meðal kjörinna fulltrúa og stjórnenda voru konur tæp 30%. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands var um 7% (sumarið 2003).
Árið 2001 voru konur framkvæmdastjórar í 18% íslenskra fyrirtækja og stjórnarformenn í 36% þeirra. En ef litið var á fyrirtæki þar sem skattskyld laun fóru yfir 100 milljónir voru konur um 4% framkvæmdastjóra. Í fræðslustarfsemi voru þó 43% framkvæmdarstjóra konur, í heilbrigðis- og félagsþjónustu 35%, en í annarri samfélagsþjónustu voru 39% framkvæmdarstjóra konur. Þessi svið heyra einkum undir hið opinbera. Forstöðumenn ríkisstofnana og ráðuneyta eru hins vegar langflestir karlar, eða um 80%.
Fáar konur sitja í opinberum úthlutunarnefndum sem veita fé til uppbyggingar íslensks atvinnulífs og konur fá lítinn hluta þess fjármagns sem veitt er úr opinberum sjóðum til styrktar atvinnuuppbyggingu. Engin kona er bankastjóri og fyrir utan tvær konur í stjórn Seðlabanka Íslands sitja engar konur í bankaráðum. Viðhorfskönnunin sýnir að helmingur karla og 67% kvenna telja að konur hafi ekki jafn góðan aðgang að fjármagni til fyrirtækjareksturs og karlar.
Kynskiptur vinnumarkaður endurspeglar að einhverju leyti þá staðreynd að námsval kynjanna er kynbundið. Konur eru í meirihluta þeirra sem ljúka námi frá háskólum, en karlar sækja einkum í iðn- og tæknigreinar.
Viðhorfskönnunin sýnir að umönnun barna og heimilisstörf eru að miklu leyti í höndum kvenna jafnvel þótt flestir telji að feður eigi ekki síður en mæður að sjá um uppeldi barna sinna. Þó halda margir karlar og eldra fólk að mæður séu hæfari en feður til að annast uppeldi barna. Viðhorfskönnunin sýnir jafnframt að 79,4% aðspurðra eru ánægðir með fæðingarorlofslögin frá 2000. Þeir sem hafa átt rétt á fæðingarorlofi eftir að lögin tóku gildi eru aðeins hlynntari lögunum (84%) en þeir sem ekki áttu rétt á fæðingarorlofi (76%).
71% kvenna sem tóku þátt í viðhorfskönnuninni hafði ekki sóst eftir aukinni ábyrgð og 63% kvenna hafði ekki sóst eftir launahækkun. Sama gildir um karla því 71% karla hafði heldur ekki sóst eftir aukinni ábyrgð og 64% karla hafði ekki sóst eftir launahækkun. Helst eru það konur með hærri laun en 250 þúsund á mánuði sem eru líklegar til að hafa sóst eftir meiri ábyrgð og hærri launum. En karlar með sambærileg laun eru ólíklegri en karlar með lægri laun til að hafa beðið um launahækkun og aukna ábyrgð.
Samkvæmt viðhorfskönnuninni telja langflestir að það sé jákvætt að konum fjölgi í stjórnunarstörfum. Könnun á meðal stjórnenda leiðir í ljós að konur þykja almennt góðir stjórnendur.
Viðhorfkönnunin sýnir að ákvarðanir um fjárfestingar heimilisins eru í flestum tilvikum teknar sameiginlega af sambýlisfólki. Ef börn yngri en 18 ára eru í heimili er langalgengast að sambúðarfólk hafi sameiginlegan bankareikning, að öllu eða einhverju leyti, eða 77%.
54,9% svarenda telja sig að öllu leyti fjárhagslega sjálfstæða og 36,4% telja sig að mestu leyti fjárhagslega sjálfstæða. 6% karla og 11% kvenna telur sig að litlu eða engu leyti fjárhagslega sjálfstæð. En 28% þeirra sem eru heimavinnandi, öryrkjar og atvinnulausir telja sig vera að litlu eða engu leyti fjárhagslega sjálfstæð.
Í Reykjavík, 13. febrúar 2004.