Akureyrarályktun matvælaráðherra Norðurlandanna
Í ágúst sl. var haldinn matvælaráðherrafundur Norðurlandanna á Akureyri. Á fundinum voru ný norræn tilmæli í manneldismálum og ákveðið að leggja sérstaka áherslu á að hrinda af stað norrænu samstarfi um matvælarannsóknir sem byggja á því samstarfi sem fyrir er á þessu sviði. Ráðherrarnir ræddu einnig hið sívaxandi offituvandamál, ekki síst meðal barna og unglinga. Ákveðið var að hefja vinnu við að móta norræna framkvæmdaáætlun um betri heilsu og lífsgæði fyrir tilstilli matar og hreyfingar og er áætlað að áætlunin verði kynnt árið 2005. Ályktun fundarins hefur verið þýdd yfir á íslensku og er hún hér í heild sinni:
AKUREYRARÁLYKTUNIN UM MATVÆLI
AUÐLINDIR NORÐURSINS
LÍFSGÆÐI OG VERÐMÆTASKÖPUN
Við, matvælaráðherrar Danmerkur, Finnlands, Noregs, Svíþjóðar og Íslands ásamt hlutaðeigandi stjórnvöldum matvælamála í Færeyjum, Grænlandi og Álandi erum sammála um að vinna áfram að matvælamálum í anda Grænlandsyfirlýsingarinnar og Skýrslu um sjálfbæra þróun.
Við viljum matvælakeðju sem er byggð á endurnýjanlegum náttúruauðlindum og leiðir til lífsgæða og verðmætaaukningar á sjálfbærum Norðurlöndum. Til þess að varðveita hin miklu lífsgæði er nauðsynlegt að líta á matvæli, mataræði og heilbrigði og takast á við hið sívaxandi heilbrigðisvandamál sem offitan er nú um stundir.
Við vitum að til að ná settum markmiðum um sjálfbæra matvælakeðju sem felur í sér heilbrigði og velferð dýra ásamt miklum gæðum og öryggi matvæla verður löggjöfin um matvælaöryggi að byggjast á meginreglum um áhættumat. Bæði innra eftirlit matvælafyrirtækja og opinbert eftirlit þarf að vera skilvirkt. Leggja þarf áherslu á vöktun umhverfis og matvæla á öllum stigum framleiðslu, frá hafi/haga þar til neytendur fá matvælin í hendur.
Við erum sammála um að norrænt samstarf styrkir starf okkar heima fyrir og í alþjóðasamfélaginu.
Í því augnamiði að ná settum markmiðum:
§ ákveðum við að hafin verði vinna í þá veru að þróa norræna framkvæmdaáætlun fyrir betri heilsu og lífsgæði með hliðsjón af mataræði og hreyfingu. Embættismannanefndin um matvæli, EK-Livs, beri ábyrgð á starfinu og skilar niðurstöðum sínum vorið 2005;
§ samþykkjum við nýja útgáfu af Norrænum ráðleggingum um mataræði 2004 en í þeim eru settar fram leiðbeiningar um fæðusamsetningu og næringarefni sem byggðar eru á vísindalegum grunni og nú eru einnig settar fram ráðleggingar um líkamsrækt og mataræði. Við álítum að norrænu ráðleggingarnar séu mikilvægt verkfæri til að skipuleggja mataræði sem stuðli að heilbrigði og fyrirbyggi sjúkdóma;
§ bendum við á nauðsyn þess að greina vandamál varðandi tengsl milli lífsstíls, mataræðis og heilbrigðis.
§ lýsum við yfir ánægju okkar með að á vegum norræna matvælasamstarfsins hafi nú verið þróaður fyrsti flokkur vísa um sjálfbæra þróun um matvæli í skýrslunni „Sustainable development of food safety – New bearings in the Nordic countries". Matvælavísarnir eru gagnlegt verkfæri til að fylgjast með því hvort þróunin er í rétta átt og þá má einnig nýta sem leiðbeiningar við áhættumat í framtíðinni;
§ ákveðum við nýtt áherslusvið um eflingu norræns samstarfs um matvælarannsóknir.