Refanefnd hefur skilað tillögum sínum
Nefndin var skipuð af umhverfisráðherra til að fjalla um áhrif refs í íslenskri náttúru, gera tillögur um aðgerðir til að draga úr tjóni, fjalla um viðgang refastofnsins á vernduðum svæðum og áhrif hans á lífríkið þar.
Í tillögum sínum leggur meiri hluti nefndarinnar til að fyrirkomulag refaveiða verði svipað næstu 5 árin og verið hefur. Að þeim tíma liðnum verði staða refastofnsins endurmetin m.a. á grundvelli upplýsinga úr stofnstærðarlíkani, sem lagt er til að gert verði. Skipulag veiða verði bætt og þeim sem stunda veiðar með æti beri að tilkynna það til viðkomandi sveitarstjórnar.
Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gert verði stofnstærðarlíkan til að fá nákvæmari upplýsingar um stærð refastofnsins, vanhöld, viðkomu, og áhrif umhverfisþátta og mismunandi veiðiálags. Einnig er lagt til að aflað verði betri upplýsinga um tjón af völdum refa m.a úr miðlægum gagnagrunni sem byggir á upplýsingum veiðimanna og þær nýttar þegar ákvörðun um fyrirkomulag refaveiða verði tekin að 5 árum liðnum.
Þá leggur meiri hluti nefndarinnar til að óbreytt fyrirkomulag refaveiða verði í í friðlandinu á Hornströndum, að veiðar verði efldar við jaðra þess og að fylgst verði með viðgangi refsins í friðlandinu á Hornströndum. Loks að endurgreiðsluhlutfall ríkissjóðs verði 50% af verðlaunum samkvæmt viðmiðunartaxta næstu 5 árin á meðan aflað er frekari upplýsinga um refastofninn og tjón af völdum refa. Ennfremur að virðisaukaskattur á refaveiðar verði endurskoðaður.
Í nefndinni sátu fulltrúar tilnefndir af umhverfisráðuneyti, Umhverfisstofnun, Bændasamtökum Íslands, Skotveiðifélagi Íslands, Æðarræktarfélagi Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Félagi atvinnuveiðimanna í ref og mink og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fulltrúi Æðarræktarfélags Íslands skilaði séráliti.