Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2005 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Sala Símans og grunnnet fjarskipta

Samgönguráðherra svaraði í gær, á Alþingi, fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um grunnet fjarskipta. Fyrirspurnin var svohljóðandi:

"Hver er afstaða ráðherra til hugmynda um að aðilar sameinist um rekstur eins öflugs grunnnets fjarskipta og gagnaflutninga fyrir landið allt?"

Svar ráðherra var svohljóðandi:

Hagkvæmnissjónarmið, aðstæður á markaði, og takmarkanir sem fjarskipta- og samkeppnislöggjöf setur aðilum á fjarskiptamarkaði, ræður athöfnum og ákvörðunum þeirra í þessum efnum.

Ekki alls fyrir löngu fól ráðuneytið Póst- og fjarskiptastofnun það verkefni að reyna að koma á samstarfi milli aðila markaðarins um uppbyggingu eins dreifikerfis fyrir stafrænt sjónvarp. Skemmst er frá því að segja að tilraun Póst- og fjarskiptastofnunar í þá veru bar ekki árangur þar sem aðilar á markaði töldu slíkt samstarf ekki þjóna hagsmunum sínum. Það var sannreynt að hagkvæmnisrök varðandi sameiginlegrar uppbyggingar fjarskiptakerfa, féll einfaldlega ekki að ólíkum hagsmunum allra aðila á þessum markaði. Krafa eins fjarskiptafyrirtækisins núna um að svokallað grunnnet verði ekki selt eru því mjög ótrúverðugar og eru mjög í ætt við aðgerðir sömu aðila gegn fjölmiðlalöggjöfinni. Heilsíðu auglýsingar fyrirtækisins eru stjórnendum þess til minkunnar. Sama má segja um framgöngu Orkuveitu Reykjavíkur við uppbyggingu fjarskiptanets, ekkert bendir til þess að á þeim bæ hugsi menn sér til samstarfs um eitt net. Á þeirri framgöngu bera borgarfulltrúar R-listans ábyrgð.

Afstaða ráðherra er óbreytt hvað varðar sölu Landssímans hf. í einu lagi. Eftirfarandi rök liggja að baki afstöðu minni:

Hugmyndir um aðskilnað nets og þjónustu eru ekki nýjar af nálinni. Síðustu tvo áratugi hafa þessar hugmyndir verið skoðaðar á meginlandi Evrópu þegar símamálastofnanir þar voru einkavæddar. Hvergi hefur þessi leið verið farin á meginlandi Evrópu, og reyndar er ekki vitað til þess að þessi leið hafi nokkurs staðar verið farin í heiminum.

Í Evrópu og víðast annars staðar hefur traust lagaumhverfi, öflug samkeppni og virkt eftirlit tryggt eðlilegt markaðsumhverfi, m.a. hvað varðar aðgang að netum. Löggjöf, eftirlit og samkeppni hér á landi gengur ekki skemur í að tryggja eðlilegt markaðsumhverfi en annars staðar í Evrópu.

Vil ég benda á eftirfarandi atriði máli mínu til stuðnings: Í 7.kafla fjarskiptalaga nr. 81/2003 eru ákvæði sem tryggja aðgang að ,,grunnneti" Símans og hefur Póst- og fjarskiptastofnun eftirlit með því að ákvæði laganna séu virt. Síminn er í dag síður en svo laus við samkeppni, Orkuveitan, áður Lína Net, Og fjarskipti og Fjarski hafa séð sér hag í því að leggja eigin ljósleiðarakerfi í samkeppni við Símann. Vegna þessa er ljóst að fyrirtæki á fjarskiptamarkaði hafa í dag enga tryggingu fyrir stöðu sinni og breytir eignarhald ríkisins á svokölluðu grunnetinu þar engu um. Grunnnet Símans hf. mun eiga og á í samkeppni við fjarskiptanet annarra fjarskiptafyrirtækja.

Einnig er rétt að huga að því að ef reka ætti ,,grunnlínunetið" á öðrum forsendum en arðsemissjónarmiðum og veita ætti til þess fé úr ríkissjóði, væri það aðgerð sem sennilega fæli í sér brot á samkeppnislögum, í ljósi þess að þegar eru önnur fyrirtæki að reka fjarskiptanet á þessu sviði.

Ekki má heldur líta fram hjá þeirri miklu þróun í fjölmiðlun og fjarskipta- og upplýsingatækni sem átt hefur sér stað og á sér stað. Er þessi tækni að renna saman í upplýsinganetum. Þegar er til staðar tækni sem auðveldar samkeppni á síðustu mílunni. Þetta á sérstaklega við um þráðlausa tækni, gagnaflutning um orkustrengi auk þess sem símatæknin stefnir yfir á IP-staðal og internetið. Þá er talsími sífellt að færast meira frá landlínu yfir í farsímakerfi. Ef grunnnet Símans yrði nú skilið frá fyrirtækinu myndi það skapa verulega óvissu um sölu fyrirtækisins og verðmæti þess gæti fallið verulega.

Þeir sem harðast berjast gegn sölu Landssímans í heilu lagi bera við miklum kostnaði við uppbyggingu annarra kerfa. Það er ljóst að uppbygging fleiri kerfa er kostnaðarsamari en ef um eitt sameiginlegt kerfi væri að ræða. Það er jafnframt ljóst að samkeppni í netum leiðir almennt til lægra verðs og meira öryggis fyrir neytendur. En við því verður ekkert gert frekar en að hindra að upp spretti fleiri en ein bensínstöð í Borgarnesi.

Rétt er að benda á að aukin kostnaður fellur ekki einungis til við uppbyggingu annarra kerfa, hafa ber í huga að hægt er að flytja símtöl eftir mismunandi kerfum þ.e. á ATM, milli svæðisstöðva í gegnum ljósleiðara eða innan sama svæðis. Ef grunnnetið yrði aðskilið frá öðrum þáttum rekstrarins yrði að skilgreina sérstaklega hvernig þessum flutningi yrði háttað og það hefði í för með sér aukin kostnað innan kerfisins m.a. í fjárfestingu í búnaði, auk kostnaðar vegna yfirbyggingu sérstaks fyrirtækis. Aukin innri kostnaður myndi á endanum falla á neytendur. Um þetta var fjallað í greinargerð sem samin var af óháðum ráðgjafa sem vann fyrir Einkavæðingarnefnd og hafði engra hagsmuna að gæta.

Þá hefur OECD, í skýrslu sinni um kosti og galla þess að skilja grunnnet frá öðrum rekstri fjarskiptafyrirtækja, komist að eftirfarandi niðurstöðu: ,,Að aðskilnaður sé áhættusamur. Ávinningurinn sé; takmarkaður, mjög óviss og getgátukenndur." Í skýrslu OECD segir líka að töluverður kostnaður gæti fallið til og aðskilnaður gæti haft neikvæð áhrif á þróun neta. Sannanlega séu lítil líkindi fyrir því að kostirnir séu sannfærandi umfram kostnað sem af þessu leiðir. (Sjá OECD, The benefits and costs of structural seperation of the local loop, 03-Nov-2003, JT00152896, bls. 6.)

Markmið íslenskra stjórnvalda með sölu á hlut sínum í Símanum eru skýr þ.e. að auka samkeppni á fjarskiptamarkaði enn frekar og bæta þannig þjónustuna og hag neytenda.

Ég hef ástæðu til að ætla að sérfræðingar OECD og prófessor við HÍ hafi betri stöðu til að meta þessa kosti og gefa ráð en þingmaðurinn Jón Bjarnason eða stjórnendur fjarskipta fyrirtækja sem hafa það eitt markmið að skaða söluferil á hlut ríkisins í Símanum.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta