Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2005 Forsætisráðuneytið

Skýrsla nefndar um stefnumótun í málefnum barna og unglinga

Nefnd um heildstæða stefnumótun í málefnum barna og unglinga sem forsætisráðherra skipaði árið 2001 hefur skilað af sér skýrslu sinni. Það var hinn 11. maí 2001 sem Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að undirbúa heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga. Í ályktuninni segir að markmið stefnumótunarinnar verði að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins og búa þeim sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Einnig segir að á grundvelli stefnumótunar nefndar, er falið verði að undirbúa téða stefnu, skuli gerð fimm ára framkvæmdaáætlun í samráði við opinberar stofnanir og félagasamtök sem vinna að málefnum barna og unglinga, þ.m.t. félagasamtökum unglinga.

Þann 25. október 2001 skipaði forsætisráðherra nefndina og var Drífa Hjartardóttir alþingismaður formaður nefndarinnar. Skýrslunni var skilað til forsætisráðherra sem hefur sent hana þingmönnum til kynningar. Nálgast má skýrsluna á vef forsætisráðuneytisins.

Þegar í upphafi setti nefndin sér að leita eftir sjónarmiðum barna varðandi stefnuna, hafa víðtækt samráð við aðila sem gerst þekkja til málefna barna og leggja í tillögum sínum til grundvallar þau helstu áhyggjuefni sem uppi væru varðandi börn, unglinga og aðstæður þeirra, nú og til næstu framtíðar. Nefndin ákvað að setja fram tiltölulega fáar, áþreifanlegar tillögur, sem raunhæft væri að ætla að með góðum vilja mætti framkvæma á næstu fimm árum. Hún setti sér einnig að í tillögum hennar skyldu ekki einasta vera almenn stefnumið heldur og nánari tillögur um hvernig að þeim skyldi unnið. Tillögur nefndarinnar að markmiðum eru:

  1. Að íslenska ríkisstjórnin taki ábendingar barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá janúar 2003 varðandi framkvæmd Barnasáttmálans til gaumgæfilegrar athugunar, geri framkvæmdaáætlun og hrindi þeim úrbótum sem horfa til heilla hið fyrsta í framkvæmd.
  2. Að ávallt liggi fyrir heildstæðar og áreiðanlegar almennar upplýsingar um börn og ungmenni hérlendis, sem máli skipta við stefnumótun og ákvarðanatöku opinberra aðila um hagi þeirra.
  3. Að aðgerðir hins opinbera í þágu barna og ungmenna, stjórnun þeirra og framkvæmd, séu ávallt markvissar, skilvirkar og árangursríkar.
  4. Að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu með því að koma á skipulegri og samræmdri foreldrafræðslu og ráðgjöf í uppeldisefnum fyrir alla foreldra.
  5. Að heilsugæsla í skólum sé öflug miðstöð innan hinnar almennu heilsugæslu í forvarnarstarfi, heilbrigðisfræðslu og alhliða heilsugæslustarfi fyrir börn og ungmenni á öllum skólastigum.
  6. Að fjárhagslegur stuðningur hins opinbera við fátækar barnafjölskyldur sé nægur og skilvirkur, aðferðir við hann séu almenningi skiljanlegar og verkaskipting skýr milli þeirra sem að honum koma.
  7. Að forvarnir, greining og meðferð geð- og atferlisraskana hjá börnum og ungmennum verði aðgengilegar, skilvirkar og árangursríkar.
  8. Að börn af erlendum uppruna sem vaxa upp á Íslandi fái allan stuðning sem mögulegt er að veita af hálfu opinberra aðila til að aðlagast hinu íslenska samfélagi og eignast fulla aðild að því í hvívetna.
  9. Að fullorðið fólk sýni börnum ævinlega fulla kurteisi og virði þau sem einstaklinga.

Að tillögu formanns nefndarinnar hefur forsætisráðherra ákveðið að fela nefnd, sem hann skipaði til að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar, að fara yfir þær tillögur sem fram koma í skýrslunni. Fjölskyldunefndinni er ætlað að fella þær að öðrum tillögum sem miða að því að styrkja stöðu fjölskyldunnar og huga að gerð framkvæmdaáætlunar sem kveðið er á um í þingsályktun um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.


Reykjavík, 6. apríl 2005



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta