Fjarskiptaáætlun fyrir árin 2005-2010
Fjarskipti hafa þróast ört síðasta áratuginn. Sú þróun varðar bæði þær tæknilegu framfarir sem gera fjarskiptum, tölvutækni og fjölmiðlun kleift að renna saman, sem og hið lagalega markaðsumhverfi fjarskipta sem tekur mið af samræmdum reglum Evrópusambandsins.
TILURÐ OG MARKMIÐ FJARSKIPTAÁÆTLUNAR 2005-2010
Fjarskipti hafa þróast ört síðasta áratuginn. Sú þróun varðar bæði þær tæknilegu framfarir sem gera fjarskiptum, tölvutækni og fjölmiðlun kleift að renna saman, sem og hið lagalega markaðsumhverfi fjarskipta sem tekur mið af samræmdum reglum Evrópusambandsins.
Frá byrjun síðustu aldar voru öll fjarskipti á forræði ríkisins. Landssíma Íslands, og þar áður Póst- og símamálastofnun, var falið að framfylgja stefnu stjórnvalda og byggja upp fjarskiptakerfi um allt land. Stofnunin hafði einkarétt til fjarskipta og var um leið stjórnvald á því sviði.
Samræmd Evrópulöggjöf hefur kallað á víðtækar breytingar, m.a. aukna samkeppni og afnám einkaréttar á fjarskiptamarkaði. Þær breytingar lögðu grunn að einkavæðingu ríkisrekinna símafyrirtækja og er sala Landsíma Íslands eðlilegt framhald af því. Stjórnvöld geta ekki lengur falið Landsímanum að framkvæma stefnumið sín. Því er nauðsynlegt að setja stefnuna fram með skýrum hætti í fjarskiptaáætlun og tryggja með því móti að Íslendingar verði í fremstu röð þjóða með hagkvæma, örugga, aðgengilega og framsækna fjarskiptaþjónustu fyrir alla landsmenn.
Helstu markmið sem sett eru fram í fjarskiptaáætlun eru eftirfarandi:
HÁHRAÐAVÆÐING - MARKMIÐ
Allir landsmenn sem þess óska geti tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu.
Menntastofnanir verði tengdar öflugu háhraðaneti.
Undirmarkmið
- Að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingu árið 2007.
- Að allir framhaldsskólar, háskólar og rannsóknarstofnanir samnýti 2,5 Gb/s tengingu til útlanda árið 2006.
- Að allir framhaldsskólar verði tengdir öflugu háhraðaneti (lágmark háð stærð skóla):
Árið 2006 100–1000 Mbps.
Árin 2007–2008 1 Gbps. - Að allir grunnskólar verði tengdir öflugu háhraðaneti (lágmark háð stærð skóla)
Árið 2006 10–100 Mbps.
Árin 2007–2008 100–1000 Mbps. - Að allar helstu stofnanir ríkisins verði tengdar öflugu háhraðaneti (lágmark háð stærð stofnunar):
Árið 2006 10 Mbps.
Árið 2007 100–1000 Mbps.
Árið 2010 1 Gbps. - Að íslensk löggjöf um höfundarrétt þróist í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar með tilliti til hagsmuna neytenda og rétthafa. Markmiðið er að auka framboð á efni á háhraðanetum.
FARSAMBAND - MARKMIÐ
Öryggi vegfarenda verði bætt með auknu aðgengi að farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins og helstu ferðamannastöðum.
Háhraðafarþjónusta verði byggð upp um allt land.
Langdræg stafræn farsímakerfi til að þjóna landinu öllu og miðunum verði byggð upp.
Undirmarkmið
- Að GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1 og öðrum helstu stofnvegum, á helstu ferðamannastöðum og minni þéttbýlisstöðum, samanber samþjónustumarkmið árið 2006.
- Að háhraðafarþjónusta standi til boða um allt land eigi síðar en 2006.
Að langdræg stafræn farsímaþjónusta standi til boða um allt land og á miðum við landið eftir að rekstri NMT-kerfisins lýkur.
STAFRÆNT SJÓN- OG HLJÓÐVARP - MARKMIÐ
Allir landsmenn hafi aðgengi að gagnvirku stafrænu sjónvarpi.
Útvarpað verði um gervihnött fyrir landið allt og næstu mið.
Undirmarkmið
- Að stafrænt sjónvarp um háhraðanet verði boðið árið 2005.
- Að dreifing sjónvarpsdagskrár RÚV, auk hljóðvarps Rásar 1 og Rásar 2, til sjómanna á miðum við landið og til strjálbýlli svæða verði stafræn um gervihnött.
- Að boðnar verði út UHF-sjónvarpstíðnirásir fyrir stafrænt sjónvarp á árinu 2005.
- Að stafrænt gagnvirkt sjónvarp nái til 99,9% landsmanna árið 2007.
- Að hliðrænt dreifikerfi fyrir sjónvarp verði lagt niður eigi síðar en árið 2010.
- Að stjórnvöld tryggi sjónvarpsstöðvum sem hafa skyldur við almenning aðgengi að lokuðum dreifikerfum.
Fjarskiptaáætlun í heild má nálgast hér
Skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd fjarskiptaáætlunar 2007-2008 má nálgast hér.
Fjarskiptasjóður
Þann 9. desember 2005 samþykkti Alþingi lög um fjarskiptasjóð sem ætlað er að styðja við uppbyggingu fjarskiptakerfa á svæðum þar sem fjarskiptafyrirtæki hafa ekki treyst sér í uppbyggingu á markaðslegum forsendum. Í sjóðnum eru til ráðstöfunar 2,5 milljarðar króna af söluandvirði Símans. Fjármununum verður varið til að bæta fjarskiptakerfin um landið allt. Á árinu 2006 verður einum milljarði króna varið til uppbyggingar og síðan verða 500 milljónir króna lagðar í sjóðinn árlega 2007-2009.
Hlutverk sjóðsins er að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna, enda sé kveðið á um þau í fjarskiptaáætlun, og ætla má að ekki verði í þau ráðist á markaðsforsendum.
Stjórn sjóðsins, sem samgönguráðherra skipaði frá 1. febrúar 2006 til 1. febrúar 2009, hefur yfirumsjón með fjármálum fjarskiptasjóðs í samræmi við hlutverk hans. Stjórn sjóðsins er jafnframt verkefnastjórn fjarskiptaáætlunar og skal hún skila skýrslu um starfsemi sjóðsins til samgönguráðherra sem leggur hana fyrir Alþingi til upplýsinga.
Í stjórn fjarskiptasjóðs sitja eftirfarandi aðalmenn:
- Gunnar Svavarsson
- Adolf H. Berndsen
- Lára Stefánsdóttir
- Jón Baldur Lorange
- Guðbjörg Sigurðardóttir
Varamenn í stjórn fjarskiptasjóðs eru: - Unnur Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri samgönguráðuneytinu
Sérfræðingur samgönguráðuneytisins, María Rún Bjarnadóttir, starfar með verkefnastjórninni. Erindi sendist á tölvupóstfang hennar: [email protected]. Einnig má ná í hana í síma 545 8200.