Hoppa yfir valmynd
2. desember 2005 Dómsmálaráðuneytið

Samningur milli lýðveldisins Íslands og Evrópsku réttaraðstoðarinnar (Eurojust)

Lýðveldið Ísland og Evrópska réttaraðstoðin (Eurojust) (hér á eftir nefnd „samningsaðilar“),

með hliðsjón af ákvörðun ráðsins frá 28. febrúar 2002 um að koma á fót Eurojust með það fyrir augum að efla baráttuna gegn alvarlegum glæpum, einkum c-lið 1. mgr. og 3. mgr. 27. gr.,

með hliðsjón af áliti sameiginlegu eftirlitsstofnunarinnar frá 6. júní 2005,

sem hafa í huga hagsmuni Íslands og Eurojust af að taka upp nána og virka samvinnu til að bregðast við þeim vanda sem alvarlegir glæpir, oft framdir af fjölþjóðlegum samtökum, valda nú og í framtíðinni,

sem hafa í huga nauðsyn þess að bæta réttarsamvinnu Íslands og Eurojust til að auðvelda samræmingu rannsókna og málsókna sem taka til yfir­ráða­svæðis Íslands og eins eða fleiri aðildarríkja,

sem hafa í huga að Ísland hefur fullgilt samning Evrópuráðsins frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónu­upplýsinga, sem einnig gegnir grundvallarhlutverki í gagna­verndar­kerfi Eurojust,

sem hafa í huga þá víðtæku vernd sem persónuupplýsingar njóta í Evrópu­sambandinu, einkum vinnsla persónuupplýsinga í samræmi við Eurojust-ákvörðunina frá 28. febrúar 2002 um stofnun Evrópsku réttar­aðstoðar­innar (Eurojust), starfsreglur Eurojust varðandi gagnavernd og aðrar viðeigandi reglur,

sem virða grundvallarréttindi og meginreglur Evrópusáttmálans um verndun mann­réttinda og mannfrelsis sem endurspeglast í sáttmála Evrópu­sambandsins um grundvallarréttindi,

sem hafa í huga að Ísland hefur þegar náin tengsl við dómsmála- og lög­gæslu­­samvinnu aðildarríkjanna með samningnum sem ráð Evrópu­sam­bands­ins og lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna og með samningnum milli lýðveldisins Íslands og Evrópu­lögreglunnar (Europol) um samstarf í baráttunni gegn alvarlegri alþjóðlegri glæpastarfsemi og hefur undirritað samning um beitingu tiltekinna ákvæða


samningsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópu­sambands­ins,

sem hafa í huga að Ísland er aðili að samningnum um Evrópska efna­hags­svæðið,

sem hafa í huga að Ísland hefur einnig náin tengsl við hin norrænu aðildar­ríki Evrópusambandsins vegna norrænnar dómsmála- og löggæslusamvinnu, og

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:

1. gr.
Skilgreiningar.

Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. „Eurojust-ákvörðunin“: ákvörðun ráðsins frá 28. febrúar 2002 um stofnun Evrópsku réttaraðstoðarinnar (Eurojust) með það fyrir augum að efla baráttuna gegn alvarlegum glæpum,
  2. „aðildarríki“: aðildarríki Evrópusambandsins,
  3. „fagráð“: fagráð Eurojust, eins og um getur í 10. gr. Eurojust-ákvörðunarinnar,
  4. „landsfulltrúi“: sá fulltrúi sem hvert aðildarríki Evrópusambandsins útnefnir til starfa hjá Eurojust, eins og um getur í 1. mgr. 2. gr. Eurojust-ákvörðunar­innar,
  5. „aðstoðarmaður“: einstaklingur sem hver landsfulltrúi getur fengið sér til aðstoðar, eins og um getur í 2. mgr. 2. gr. Eurojust-ákvörðunarinnar, nema aðrar skilgreiningar eigi við í þessum samningi,
  6. „framkvæmdastjóri“: framkvæmdastjóri eins og um getur í 29. gr. Eurojust-ákvörðunarinnar,
  7. „starfsfólk Eurojust“: starfsfólkið sem um getur í 30. gr. Eurojust-ákvörðunarinnar,
  8. „starfsreglur Eurojust varðandi gagna­vernd“: starfsreglur við vinnslu og vernd persónuupplýsinga hjá Eurojust, sem ráð Evrópusambandsins samþykkti 24. febrúar 2005,
  9. „persónuupplýsingar“: hvers konar upplýsingar um persónugreindan eða persónu­greinanlegan einstakling („skráðan aðila“). Maður telst persónu­greinanlegur ef unnt er að greina hann, beint eða óbeint, s.s. með tilvísun í kennitölu eða einn eða fleiri þætti sem sérkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti,
  10. „vinnsla persónuupplýsinga“: aðgerð eða röð aðgerða, rafrænna eða annarra en rafrænna, svo sem söfnun, skráning, kerfisbinding, geymsla, aðlögun eða breyting, heimt, leit, notkun, miðlun með framsendingu, dreifing eða aðrar aðferðir til að gera upplýsingarnar tiltækar,

samantenging eða samkeyrsla, aðgangstakmörkun, afmáun eða eyðilegging.

2. gr.
Markmið samningsins.

Markmiðið með þessum samningi er að auka samvinnu milli Íslands og Eurojust í baráttunni gegn alvarlegum alþjóðlegum glæpum.

3. gr.
Umfang samvinnu.

Ísland og Eurojust skulu hafa með sér samvinnu á þeim starfssviðum, sem um getur í 6. og 7. gr. Eurojust-ákvörðunarinnar og eru innan valdsviðs Eurojust, eins og fram kemur í 4. gr. Eurojust-ákvörðunarinnar.

4. gr.
Lögbært yfirvald.

Lögbært yfirvald Íslands til að annast framkvæmd þessa samnings er Ríkissaksóknari Íslands og yfirvöld sem undir hann heyra og fara með ákæruvald.

5. gr.
Sendisaksóknari hjá Eurojust

  1. Til að greiða fyrir samvinnu, eins og mælt er fyrir um í þessum samningi, og í samræmi við ákvæði 3. mgr. 27. gr. Eurojust-ákvörð­unarinnar er Íslandi heimilt að tilnefna sendisaksóknara hjá Eurojust.
  2. Sendisaksóknari skal vera saksóknari samkvæmt íslenskum lögum. Ísland skal ákveða umboð og starfstíma.
  3. Sendisaksóknari getur haft einn mann sér til aðstoðar. Aðstoðarmaðurinn getur komið í hans stað þegar nauðsyn krefur.
  4. Ísland skal gera Eurojust grein fyrir því af hvaða toga og hversu víðtækar valdheimildir sendisaksóknari hefur á yfirráðasvæði þess til að sinna hlutverki sínu í samræmi við markmið þessa samnings. Ísland skal fastsetja valdsvið sendisaksóknara síns að því er varðar aðgerðir í tengslum við erlend dómsyfirvöld. Eurojust skuldbindur sig til að stuðla að samþykki og viðurkenningu þeirra heimilda sem þannig eru veittar.
  5. Sendisaksóknari skal hafa sama aðgang að upplýsingum í íslenskri sakaskrá og öðrum skrám á Íslandi og saksóknarar, eða aðilar með jafngilt valdsvið, hafa samkvæmt íslenskum lögum.
  6. Sendisaksóknara er heimilt að hafa beint samband við íslensk yfirvöld sem fara með ákæruvald.
  7. Eurojust skal leitast við að láta sendisaksóknara í té viðunandi aðstöðu, þar á meðal aðgang að skrifstofu og fjarskiptaþjónustu, að því marki sem aðstaða og fjárlög Eurojust leyfa. Eurojust getur krafist endurgreiðslu, að hluta eða í heild, á kostnaði sem stofnað er til við að veita þessa aðstöðu.
  8. Vinnuskjöl sendisaksóknara skulu njóta friðhelgi gagnvart Eurojust.

6. gr.
Tengiliður við Eurojust.

  1. Ísland skal koma á fót eða tilnefna a.m.k. einn tengilið við Eurojust sem heyrir undir lögbært yfirvald á Íslandi.
  2. Ísland skal tilnefna einn tengiliða sinna sem innlendan samskiptafulltrúa Íslands vegna hryðjuverka, skipulagðrar afbrotastarfsemi og annarra glæpa og skal hann hafa með höndum verkefni jafngild þeim sem um getur í 12. gr. Eurojust-ákvörðunarinnar.

7. gr.
Reglulegt samráð.

Samningsaðilar skulu hafa með sér reglulegt samráð, a.m.k. einu sinni á ári, um framkvæmd þessa samnings. Einkum skulu reglulega fara fram skoðanaskipti varðandi framkvæmd og frekari þróun á sviði gagna­verndar og gagnaöryggis.

8. gr.
Fundir um starfshætti og stefnumótun.

  1. Sendisaksóknari, aðstoðarmaður hans og önnur íslensk yfirvöld, sem fara með ákæruvald, þ.m.t. tengiliður við Eurojust, geta tekið þátt í fundum um starfshætti og stefnumótun að boði forseta fagráðsins og að fengnu samþykki hlutaðeigandi landsfulltrúa.
  2. Landsfulltrúar og aðstoðarmenn þeirra og framkvæmdastjóri og starfs­fólk Eurojust geta einnig setið fundi sem eru skipulagðir af sendi­saksóknara eða öðrum íslenskum yfirvöldum, sem fara með ákæruvald, þ.m.t. tengilið við Eurojust.

9. gr.
Upplýsingaskipti.

  1. Samningsaðilum er heimilt, samkvæmt samningnum og í samræmi við hann, að skiptast á öllum upplýsingum, sem eru nauðsynlegar, við­eig­andi og ekki of ítarlegar, í því skyni að ná markmiðum hans, eins og mælt er fyrir um í 2. gr.
  2. Öll upplýsingaskipti milli samningsaðila skulu fara í gegnum tengiliðinn við Eurojust og hlutaðeigandi landsfulltrúa. Þegar sendisaksóknari hefur verið skipaður skulu öll upplýsingaskipti fara fram milli Eurojust og sendisaksóknarans.
  3. Ísland skal tryggja að bakgrunnur tengiliðar við Eurojust og sendisaksóknara hafi verið kannaður á viðeigandi innlendum vettvangi áður en þeir fá heimild til að vinna slíkar upplýsingar.

10. gr.
Miðlun upplýsinga til Eurojust.

  1. Um leið og upplýsingum er miðlað eða áður en það er gert skal Ísland tilkynna Eurojust um tilgang upplýsingagjafar og hvort notkun upplýsinganna sé háð takmörkunum. Þetta á einnig við um mögulegar takmarkanir á aðgangi, takmarkanir á sendingu til lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna og skilyrði varðandi eyðingu eða eyðileggingu. Einnig má tilkynna um það síðar ef í ljós kemur að þörf er á slíkum takmörkunum eftir að þær hafa verið látnar í té.
  2. Eurojust skal ekki miðla neinum upplýsingum, sem Ísland hefur látið í té, til þriðja ríkis eða stofnunar án samþykkis Íslands og viðeigandi varúðarráðstafana.
  3. Eurojust skal halda skrá yfir gögn sem miðlað er frá Íslandi til Eurojust samkvæmt þessum samningi.

11. gr.
Miðlun upplýsinga til Íslands.

  1. Um leið og upplýsingum er miðlað eða áður en það er gert skal Eurojust tilkynna Íslandi um tilgang upplýsingagjafar og hvort notkun upplýs­inganna sé háð takmörkunum. Þetta á einnig við um mögulegar tak­mark­anir á aðgangi, takmarkanir á sendingu frá lögbærum yfirvöldum aðildarríkjanna og skilyrði varðandi eyðingu eða eyðileggingu. Einnig má tilkynna um það síðar ef í ljós kemur að þörf er á slíkum takmörkunum eftir að þær hafa verið látnar í té.
  2. Ísland skal ekki miðla neinum upplýsingum, sem Eurojust hefur látið í té, til þriðja ríkis eða stofnunar án samþykkis hlutaðeigandi landsfulltrúa og án viðeigandi varúðarráðstafana.
  3. Ísland skal halda skrá yfir gögn sem Eurojust hefur miðlað til Íslands samkvæmt þessum samningi.

12. gr.
Vinnsla persónuupplýsinga sem Ísland lætur í té.

  1. Eurojust skal tryggja að persónu­upplýsingar, sem Ísland lætur í té, njóti a.m.k. jafnmikillar verndar og leiðir af beitingu meginreglna samnings Evrópuráðsins frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónu­upplýsinga og síðari breytingar við hann.
  2. Þær meginreglur og reglur um gagnavernd, sem mælt er fyrir um í Eurojust-ákvörðuninni, einkum 17. gr., og í starfsreglum Eurojust um gagnavernd, gilda um vinnslu persónuupplýsinga sem Ísland lætur í té.

13. gr.
Vinnsla persónuupplýsinga sem Eurojust lætur í té.

  1. Ísland skal tryggja að persónuupplýsingar, sem Eurojust lætur í té, njóti a.m.k. jafnmikillar verndar og leiðir af beitingu meginreglna framan­greinds Evrópuráðssamnings og síðari breytinga við hann.
  2. Ísland skal beita meginreglum um vinnslu og vernd persónu­upplýsinga, sem Eurojust lætur í té, sem eru a.m.k. jafngildar þeim sem kveðið er á um í Eurojust-ákvörðun­inni og í starfsreglum Eurojust um gagnavernd.

14. gr.
Gagnaöryggi.

  1. Eurojust skal tryggja að persónuupplýsingar, sem hún tekur við, séu varðar gegn óviljandi eða ólöglegri eyðileggingu, því að þær glatist fyrir slysni og óleyfilegum afhendingum, breytingum eða aðgangi og allri annarri óheimilli vinnslu í samræmi við 22. gr. Eurojust-ákvörðunar­innar. Tæknilegar ráðstafanir og skipulagsráðstafanir, sem kveðið er á um í starfsreglum Eurojust um gagnavernd og í öðrum viðeigandi skjölum, gilda um þær upplýsingar sem Ísland lætur í té.
  2. Ísland skal tryggja að persónuupplýsingar, sem tekið er við séu varðar gegn óviljandi eða ólöglegri eyðileggingu, því að þær glatist fyrir slysni og óleyfilegum afhendingum, breytingum eða aðgangi og allri annarri óheimilli vinnslu með a.m.k. sambærilegum hætti og kveðið er á um í meginreglunum sem mælt er fyrir um í 22. gr. Eurojust-ákvörðunar­innar. Ísland skal koma á tæknilegum varnarráðstöfunum og skipulags­ráðstöfunum sem eru a.m.k. jafngildar ráðstöfunum Eurojust.

15. gr.
Réttur skráðra aðila.

Skráðir aðilar skulu eiga rétt á aðgangi að persónu­upp­lýs­ingum sem þá varða og Eurojust vinnur í samræmi við meginreglur og reglur Eurojust-ákvörðunar­innar og á því að þær séu leiðréttar, aðgangi að þeim lokað eða þeim eytt.

16. gr.
Leiðrétting og eyðing persónuupplýsinga.

  1. Að beiðni tengiliðarins við Eurojust eða sendisaksóknara og á ábyrgð hans skal Eurojust, í samræmi við Eurojust-ákvörðunina og starfsreglur Eurojust um gagnavernd, leiðrétta, loka aðgangi að eða eyða persónu­upplýsingum sem Ísland hefur látið í té ef þær eru rangar eða ófullnægj­andi eða ef innsetning þeirra eða geymsla brýtur í bága við þennan samning. Eurojust skal staðfesta við Ísland að leiðrétting, lokun aðgangs eða eyðing hafi átt sér stað.
  2. Veiti Eurojust því athygli að persónuupplýsingar, sem sendar eru til Íslands, eru rangar eða ófullnægjandi eða ef innsetning þeirra eða geymsla brýtur í bága við samning þennan eða Eurojust-ákvörðunina skal hún fara fram á það að tengiliðurinn við Eurojust eða sendisaksóknari geri nauðsynlegar ráð­stafanir til að leiðrétta þær, loka aðgangi að þeim eða eyða þeim. Ísland skal staðfesta við Eurojust að leiðrétting, lokun aðgangs eða eyðing hafi átt sér stað.
  3. Í þeim tilvikum sem um getur í 1. og 2. mgr. skal öllum, sem láta í té og taka við slíkum upplýsingum, gert viðvart þegar í stað. Viðtakendur skulu, í samræmi við þær reglur sem um þá gilda, því næst leiðrétta, loka aðgangi að eða eyða þessum upplýsingum í sínum eigin kerfum.
  4. Ísland skal beita megin­reglum um leiðréttingu á, lokun aðgangs að og eyðingu persónu­upplýsinga, sem Eurojust lætur í té, sem eru a.m.k. jafn­gildar þeim meginreglum sem um getur í 20. gr. Eurojust-ákvörðunar­innar og í starfsreglum Eurojust um gagnavernd.
  5. Þegar fagráðið tekur til umfjöllunar vinnslu upplýsinga sem varða einstaklinga sem heyra undir íslenska lögsögu, í samræmi við 4. mgr. 17. gr. Eurojust-ákvörðunarinnar, er sendisaksóknara eða öðrum íslenskum yfirvöldum, sem fara með ákæruvald, þ.m.t. tengilið við Eurojust, heimilt að sitja fund fagráðsins.

17. gr.
Ábyrgð

  1. Ísland skal, í samræmi við landslög, bera ábyrgð á tjóni sem einstaklingur verður fyrir vegna þess að í gögnum, sem skipst er á við Eurojust, er að finna laga- eða staðreyndavillur. Ísland skal ekki beita því fyrir sig að Eurojust hafi sent ónákvæm gögn til að verjast ábyrgð að landslögum gagnvart þeim sem brotið er gegn.
  2. Verði laga- eða staðreyndavilla rakin til mistaka við sendingu upplýsinga af hálfu Eurojust, aðildarríkis Evrópusambandsins eða annars þriðja ríkis eða þriðja aðila er Eurojust skylt, með fyrirvara um 24. gr. Eurojust-ákvörðunarinnar, að endurgreiða, sé um það beðið, þá fjárhæð sem greidd var í bætur skv. 1. mgr., enda hafi upplýsingarnar ekki verið notaðar í bága við samning þennan. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig ef laga- eða staðreyndavillu má rekja til þess að Eurojust eða eitt aðildarríkja Evrópusambandsins eða annað þriðja ríki eða þriðji aðili hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar.
  3. Ef Eurojust er skylt að endurgreiða aðildarríkjum Evrópusambandsins eða öðru þriðja ríki eða þriðja aðila bætur sem greiddar voru tjónþola og ef rekja má bótagreiðsluna til þess að Ísland hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum, er Íslandi skylt að endurgreiða þá fjárhæð sem Eurojust hefur greitt aðildarríki eða öðru þriðja ríki eða þriðja aðila í skaðabætur, komi fram beiðni þar um.
  4. Samningsaðilar skulu ekki krefjast þess að gagnaðili greiði skaðabætur skv. 2. og 3. mgr. ef um er að ræða refsiskaðabætur, auknar bætur eða aðrar bætur sem eru ekki eiginlegar skaðabætur.

18. gr.
Lausn deilumála.

  1. Ef upp kemur deila milli samningsaðila um túlkun eða framkvæmd samnings þessa, eða álitaefni sem hefur áhrif á samband samningsaðila, sem ekki er unnt að leysa í vinsemd, skal málið lagt í endanlegan úrskurð þriggja gerðardómsmanna að beiðni annars hvors deiluaðilans. Hvor samningsaðili skal tilnefna einn gerðardómara. Þann þriðja, sem skal vera formaður gerðardómsins, skulu hinir fyrstu tveir gerðar­dóms­mennirnir velja.
  2. Gerðardómur setur sér starfsreglur, nema samningsaðilar komi sér saman um annað.
  3. Í gerðardómi ræður meirihluti atkvæða. Atkvæði formanns ræður úrslitum. Niðurstaða gerðardóms er endanleg og bindandi fyrir deiluaðila.
  4. Hvor aðili um sig áskilur sér rétt til að fresta skuldbindingum sínum samkvæmt samningi þessum þegar málsmeðferð þessarar greinar er fylgt eða kann að vera fylgt skv. 1. mgr. eða hvenær sem samningsaðili telur að hinn samningsaðilinn hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum.

19. gr.
Uppsögn samningsins.

  1. Samningsaðili getur sagt samningi þessum upp með þriggja mánaða fyrirvara.
  2. Sé samningnum sagt upp skulu samningsaðilar koma sér saman um áframhaldandi notkun og geymslu þeirra upplýsinga sem þegar hafa verið sendar milli þeirra. Verði ekki af samkomulagi getur hvor samningsaðila sem er krafist þess að þeim upplýsingum, sem hann hefur sent, verði eytt.

20. gr.
Breytingar.

  1. Samningi þessum má breyta hvenær sem er með samkomulagi samningsaðila í samræmi við lagaákvæði hvors um aðila um sig.
  2. Samningsaðilar skulu hafa með sér samráð varðandi breytingar á samningi þessum að beiðni annars hvors aðilans.

21. gr.
Gildistaka.

Samningur þessi öðlast gildi á þeim degi er hvor samningsaðili um sig tilkynnir hinum skriflega að skilyrði laga hafi verið uppfyllt.

Gjört í Brussel annan dag desembermánaðar árið tvö þúsund og fimm, í tvíriti á íslensku og ensku og eru báðir textar jafngildir.

Fyrir hönd lýðveldisins Íslands Fyrir hönd Evrópsku réttar­aðstoðarinnar (Eurojust)

______________________
Björn Bjarnason
Dóms- og kirkjumálaráðherra

______________________
Michael KENNEDY
Forseti fagráðs Evrópsku
réttaraðstoðarinnar (Eurojust)




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta