Skýrsla félagsmálaráðherra um sveitarstjórnarmál lögð fram á Alþingi
Miklar umræður fóru fram á Alþingi í gær um skýrslu félagsmálaráðherra um sveitarstjórnarmál. Er þetta í fyrsta skipti sem slík skýrsla er lögð fram um sveitarstjórnarmál á Alþingi. Skýrsla ráðherra er aðgengileg hér á vef ráðuneytisins.
Markmið skýrslunnar er að efla umræðu um stöðu og hlutverk sveitarstjórnarstigsins á Íslandi. Tilgangurinn er ekki að veita tæmandi upplýsingar um öll viðfangsefni sveitarfélaga, enda er slíkt tæpast gerlegt. Í skýrslunni eru upplýsingar um helstu þætti sem máli skipta í laga- og starfsumhverfi sveitarfélaga og sveitarstjórnarmanna, svo sem um fjármál sveitarfélaga, lögmælt og ólögmælt verkefni sveitarfélaga, lýðræði í sveitarfélögum og samskipti sveitarfélaga við ríkisvaldið. Einnig er lítillega fjallað um stöðu íslenskra sveitarfélaga í alþjóðlegu samhengi.
Í skýrslunni er leitast við að leggja mat á núverandi stöðu sveitarstjórnarstigsins og vekja spurningar um framtíð þess. Þótt sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga sé viðurkenndur í stjórnarskránni og sveitarstjórnarlögum og Ísland hafi einnig undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um að halda þann rétt í heiðri er það staðreynd að sveitarfélagaskipan, tekjustofnar og verkefni sveitarfélaga ráðast af ákvæðum laga á hverjum tíma. Alþingi ræður því miklu um það hver viðfangsefni sveitarstjórnarstigsins eru á hverjum tíma. Í ljósi þess að fram undan eru sveitarstjórnarkosningar og samstarfsverkefni ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins er að ljúka þótti rétt að leggja skýrsluna fram á Alþingi til umræðu.
Skýrsla félagsmálaráðherra um sveitarstjórnarmál (600 KB)