Hoppa yfir valmynd
21. mars 2006 Matvælaráðuneytið

Forsendur úthlutunarnefndar og reglur um úthlutun styrkja til byggingar reiðhúsa

Einungis hestamannafélög innan Landssambands hestamannafélaga eiga þess kost að sækja um styrk til uppbyggingar reiðhalla, reiðskemma og reiðskála og skal viðkomandi sveitarfélag/sveitarfélög einnig vera aðili að umsókninni.

Reiðhöll er húsnæði til hvers konar þjálfunar og sýninga á hrossum innanhúss, þar sem aðstaða er fyrir nokkurn fjölda áhorfenda, ásamt nauðsynlegri hreinlætis- og salernisaðstöðu. Gólfflötur reiðvallar er frá 20x40m.

Reiðskemma er húsnæði til þjálfunar hesta og námskeiðahalds þar sem ekki er gert ráð fyrir fjölda áhorfenda eða miklu öðru rými en gólffleti hússins sjálfs. Gólfflötur reiðskemmu er á bilinu 15x20 m til 20x40m.

Reiðskáli er aðstaða fyrir tamningamenn til kennslu og vinnu með hesta innandyra. Gólfflötur reiðskála er að allt að15x20 m.

Umsóknum ber að skila til landbúnaðarráðuneytisins, Sölvhólsgötu 7, 150 Reykjavík, fyrir 20. apríl 2006. Mat á umsóknum og ákvörðun úthlutunar er í höndum nefndar sem skipuð er tveimur fulltrúum landbúnaðarráðherra, einum fulltrúa menntamálaráðherra og einum fulltrúa fjármálaráðherra.

Einungis þær umsóknir koma til greina sem skila inn raunhæfri kostnaðar- og fjármögnunaráætlun ásamt rekstraráætlun. Tilgreina skal hver verði rekstraraðili og þinglýstur eigandi byggingarinnar. Taka skal fram um hvers konar byggingu sótt er um styrk fyrir og hve háa fjárhæð sótt er um. Grunn hugmundir að fyrirhuguðu húsi eða teikningar skulu fylgja umsókninni.

Við mat á umsóknum skal taka tillit til núverandi aðstöðu til hestamennsku á svæði umsækjanda og hvernig bygging reiðhúss fellur að því skipulagi og fyrirkomulagi sem fyrir er á viðkomandi félagssvæði. Ef öll önnur aðstaða tengd hestamennsku er á svæðinu eykur það líkur á stuðningi. Ef engin aðstaða er til hestamennsku á viðkomandi svæði minnkar það hins vegar líkur á stuðningi. Ef reiðhús í eigu viðkomandi hestamannafélags er fyrir hendi eða í námunda við viðkomandi svæði skal skoða sérstaklega hvort þörf sé á viðbótar húsi. Mestar líkur skulu þau félagssvæði eiga þar sem öll aðstaða til hestamennsku er fyrir hendi, önnur en reiðhús.

Horft skal til þess hvort viðkomandi reiðhús gæti nýst til reiðkennslu fyrir nærliggjandi skóla. Sérstaklega skal horft til þess hvort framhaldsskólar séu á viðkomandi svæði sem gætu nýtt sér aðstöðuna til að bjóða upp á sérstakar hestanámsbrautir. Samningur við fræðslustofnanir um nýtingu mannvirkis, styrkir umsóknina.

Samningur um rekstur, nýtingu eða stuðning til uppbyggingar mannvirkisins við aðila aðra en viðkomandi sveitarfélag, t.d. nágrannasveitarfélög, nágranna hestamannafélög, eða samtök fatlaðra, styrkir umsókn. Ef gert er ráð fyrir sérstakri aðstöð fyrir fatlaða reiðmenn í mannvirkinu er það til styrkingar  umsókninni.

Við ákvörðun um styrkveitingu til einstakra verkefna skal miða við að  bygging reiðhallar fái allt að 30 milljónir í styrk,  bygging reiðskemmu fái allt að 15 milljónir og  bygging reiðskála fái allt að 5 milljónir. Úthlutunarnefndinni er þó heimilt að hækka styrkveitingar til einstakra verkefna  ef sérstakar aðstæður mæla með því. Með hliðsjón af framangreindum atriðum skal úthlutunarnefndin meta umsóknir og ákveða styrki til einstakra verkefna.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum