Íslenska sveitarstjórnarstigið - viðhorf sveitarstjórnar- og alþingismanna
Rannsóknamiðstöð Háskólans á Bifröst vann að beiðni félagsmálaráðuneytisins, vorið og sumarið 2006, rannsókn á viðhorfum sveitarstjórnarmanna og alþingismanna til framtíðar íslenska sveitarstjórnarstigsins. Könnunin var þýðiskönnun og náði til allra alþingismanna, sveitarstjórnarmanna og framkvæmdastjóra sveitarfélaga í landinu. Um var að ræða vefkönnun sem var framkvæmd á tímabilinu 5. apríl til 7. maí 2006. Svarhlutfall var 58,8% sem telst mjög vel við unandi í könnun sem þessari.
Meðal helstu niðurstaðna:
- Mikill meirihluti sveitarstjórnar- og alþingismanna telur þörf á að efla sveitarstjórnarstigið á Íslandi.
- Góður meirihluti er jafnframt þeirrar skoðunar að sveitarfélögin séu ekki nægilega öflug til að standa undir núverandi lögbundnum verkefnum og að fjöldi fámennra sveitarfélaga valdi því að íslenska sveitarstjórnarstigið sé veikara en ella.
- Þrír af hverjum fjórum telja æskilegt að sveitarfélögin taki við fleiri verkefnum frá ríkisvaldinu.
- Málefni aldraðra og fatlaðra eru þeir málaflokkar sem stjórnmálamenn telja æskilegast að sveitarfélögin taki yfir. Þetta á sérstaklega við um málefni aldraðra en hartnær þrír af hverjum fjórum svarenda vilja flytja þann málaflokk til sveitarfélaga.
- Þá telja stjórnmálamenn að það sé æskilegt að hækka lágmarksíbúatölu sveitarfélaga og er þá oftast nær nefnd lágmarkstala um og yfir 1000 íbúar.
- Á sama tíma telur mikill meirihluti stjórnmálamanna að tillögur um sameiningu sveitarfélaga skuli leggja í dóm kjósenda með atkvæðagreiðslum.
Skýrsluna í heild er að finna á vefsíðu Rannsóknamiðstöðvarinnar
Íslenska sveitarstjórnarstigið