Skýrsla um vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum 2005
Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins
Skýrsla um vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum 2005
Skýrsla Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins um niðurstöður vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarafurðum árið 2005 er komin út.
Líkt og fyrri ár sýna niðurstöður ársins 2005 að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið af óæskilegum efnum.
Magn díoxína og díoxínlíkra PCB efna er lágt miðað við leyfileg hámörk Evrópusambandsins. Styrkur þeirra í íslenskum fiski mældist ætíð minni en 15% af leyfilegum styrk og í langflestum tilfellum er styrkurinn miklu minni eða innan við 2% af leyfilegum styrk. Styrkur varnarefna (plöntueiturs og skordýraeiturs) er jafnvel enn minni samanborið við leyfilegt magn eða minna en 10% og langoftast minna en 1% af leyfilegum styrk.
Sama má segja um þungmálmana kadmíum og blý en upplýsingum um styrk þeirra var safnað í fyrsta skiptið í mörgum fisktegundum árið 2005. Styrkurinn var ekki mælanlegur. Þungmálmarnir kvikasilfur og arsen voru mældir árin 2003 og 2004 og reyndist kvikasilfurinnihald íslensks fisks vera 5-10 sinnum lægra en hámörk Evrópusambandsins. Ekki hefur ennþá verið sett hámark á arseninnihald.
Auk þess var árið 2005 í fyrsta sinn á Íslandi safnað upplýsingum um brómuð eldhemjandi efni (PBDE) og lífræn tinsambönd (TBT) í fiski. Niðurstöður benda til þess að styrkur efnanna sé lágur, en leyfilegt hámark fyrir þessi efni hefur enn ekki verið samþykkt hjá Evrópusambandinu.
Lýsi til manneldis sem hefur verið kaldhreinsað, stenst mörk Evrópusambandsins fyrir díoxín og díoxínlík PCB-efni.
Niðurstöður mælinga á fiskmjöli og lýsi til fóðurgerðar sýna líkt og áður, að magn þrávirkra lífrænna efna eins og díoxína, PCB-efna og varnarefna er háð næringarástandi uppsjávarfiskistofnanna og ná hámarki um eða eftir hrygningartímann. Á hrygningartíma hættir magni díoxína og díoxínlíkra PCB-efna í kolmunnamjöli og kolmunnalýsi til þess að fara yfir hin nýju mörk fyrir þessi efni sem Evrópusambandið tók upp nú í haust. Fyrri mælingar (2004) hafa sýnt það sama fyrir ákveðin varnarefni í fiskolíum til fóðurgerðar, s.s. Chlordane og Toxaphen. Nauðsynlegt er því að fylgjast vel með framleiðslu mjöls og lýsis í kringum hrygningartímann.
Þetta er þriðja skýrslan um aðskotaefni í íslensku sjávarfangi, en áður eru komnar út skýrslur vöktunar áranna 2003 og 2004. Skýrslan er á ensku til að nýtast sem best framleiðendum, útflytjendum, stjórnvöldum og öðrum við kynningu erlendis á öryggi og heilnæmi íslenskra fiskafurða.
Skýrsluna er að finna á slóðinni: http://www.rf.is/media/atvinnuvegaraduneyti-media/media/utgafa//Skyrsla_22-06.pdf
Nánari upplýsingar veitir Ásta Margrét Ásmundsdóttir verkefnisstjóri hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
Sjávarútvegsráðuneytinu 8. nóvember 2006