Umfjöllun um innflytjendur og erlent launafólk 2006
Fjölmiðlavaktin tók að beiðni félagsmálaráðherra saman umfjöllun um innflytjendur og erlent launafólk í fjölmiðlum á árinu 2006 og greindi hana meðal annars eftir mánuðum og efnistökum.
Um er að ræða 1.323 fréttir/greinar um innflytjendur á Íslandi annars vegar og hins vegar um erlent vinnuafl úr helstu dagblöðum og aðalfréttatímum ljósvakamiðla.
Umfjöllunin er nokkuð jöfn allt árið 2006 nema í maí og nóvember þegar hún eykst mikið, meira þó í seinna skiptið, en lognast svo aftur út af og leitar jafnvægis í lok ársins.
Aukningin í maí helgast m.a. af umræðum um frjálsa för launafólks til og frá nýjum aðildarríkjum Evópusambandsins.
Sú mikla aukning sem varð á umfjölluninni í nóvember helgast einkum af mikilli stjórnmálaumræðu sem spannst af gagnrýni þingmanna Frjálslynda flokksins á „gegndarlaust innflæði á erlendu vinnuafli". Athygli vekur að á því tímabili beindist umfjöllunin nær eingöngu að innflytjendum en ekki að erlendu launafólki. Raunar er umræða um atvinnu- og kjaramál í tengslum við erlent starfsfólk stundum meiri fyrr á árinu en þá.
59,1% af heildarumfjöllun ársins 2006 varðar innflytjendur, 40,9% erlent launafólk. Skörun er sáralítil eða aðeins í 16 greinum/fréttum af 1323. Í langflestum tilvikum beindist umfjöllunin annaðhvort að innflytjendum eða að erlendu vinnuafli sem gerir nálgun að viðfangsefninu nákvæma og skilin býsna skörp.
Greining á málefnum sýnir að umfjöllun um innflytjendur var að fjórðungi almenn (25%). Í öðru sæti listans, á eftir almennri umfjöllun, er stjórnmálaumræða um málefni innflytjenda (14.8%). Þessar niðurstöður gætu meðal annars bent til þess að umræða um innflytjendamál sé ef til vill skemmra á veg komin hér á landi en í nágrannalöndunum. Næst í röðinni eru umfjöllun um menntamál innflytjenda (11,7%), um Alþjóðahús (8,5%) og um málefni barna innflytjenda (6,2%).
Umræða um atvinnu- og kjaramál skipa eðlilega stóran sess eða 60 prósent af heildarumfjölluninni um erlenda starfsmenn. Í öðru sæti var almenn umfjöllun um erlent vinnuafl (9,7%), lögreglu og dómsmál (6,6%), lög og reglugerðir (4,2%) og stjórnmálaumræða um erlent vinnuafl (3,7%). Athygli vekur hversu mikill hlutfallslegur munur er á stjórnmálaumræðu um innflytjendur annars vegar og um erlenda starfsmenn hins vegar (14,8% um innflytjendur og 3,7% um erlent vinnuafl).
Atvinnu- og kjaramál innflytjenda og erlends launafólks eru meginþema umræðunnar um þessa hópa í fjölmiðlum fram á sumarið 2006 en það víkur fyrir stjórnmálaumræðu og almennri umfjöllun um innflytjendur og innflytjendamál um haustið, þótt til þeirrar umræðu hafi verið stofnað vegna frjálsrar farar verkafólks frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins.
Mat var lagt á hvort umfjöllunin hafi verið jákvæð, hlutlaus eða neikvæð um innflytjendur/erlent vinnuafl á tilteknu tímabili.
Niðurstöður greiningarinnar sýna að nær helmingur heildarumfjöllunarinnar um innflytjendur (48,1%) er hlutlaus og er hvorki talin skapa jákvætt né neikvætt viðhorf í garð innflytjenda. Jákvæð umfjöllun nemur 34 prósentum (mjög 16,2%, frekar 17,8%) og neikvæð 17,8 prósentum (mjög 6%, frekar 11,8%).
Neikvæð umræða blossaði upp í nóvember en henni var mætt með jákvæðri umfjöllun svo að segja má að þá hafi orðið jafntefli.
Í niðurstöðum greiningar á fimm algengustu málefnum umræðunnar um innflytjendur sérstaklega er neikvæð umræða mest áberandi í stjórnmálaumræðunni (26,9%) en minnst í umræðunni um menntamál innflytjenda og erlendra starfsmanna (5,1%). Jákvæð umræða er langmest um menntamálin (72,8%) en síst í stjórnmálaumræðunni (19,9%). Munurinn á jákvæðri umræðu og neikvæðri umræðu í greiningu á þessum fimm helstu málefnum innflytjendaumræðunnar er minnstur í stjórnmálaumræðunni (7 prósentustig) auk þess sem jákvæð umræða fer halloka fyrir neikvæðri. Því er á annan veg farið í greiningum á hinum fjórum málefnunum.
Þátttaka mismunandi hópa sem taka þátt í umfjölluninni um innflytjendur/erlent vinnuafl var greind sérstaklega. Þátttaka í umfjöllun þýðir að fulltrúi viðkomandi hóps hafi tekið þátt í umfjölluninni með einum eða öðrum hætti.
Í umfjölluninni um innflytjendur heyrist rödd innflytjenda í umræðunni í 14,9% tilvika, opinberra aðila, stofnana og samtaka í 18,6% tilvika og stjórnarandstöðuþingmanna í 6% tilvika.
Þegar umfjöllunin um erlent launafólk (40,9% af heildarumfjöllun) er greind sérstaklega kemur í ljós að langstærstur hluti hennar er hlutlaus (68,8%) en neikvæð umræða meiri en jákvæð svo að munar 5 prósentustigum (18,1% vs 13,1%). Til samanburðar er hlutlaus umræða um innflytjendur að öðru leyti (59,1% af heildarumfjöllun) 48,1 prósent, jákvæð 34 prósent og neikvæð 17,8 prósent. Það er helst að neikvæð umræða hafi yfirhöndina í september og október 2006 en henni er mætt með jákvæðri umfjöllun þegar umræðan verður mest á árinu, það er í nóvember og desember.
Opinberir aðilar, stofnanir og samtök eru fyrirferðarmest í umræðunni um erlent launafólk (18,4%), þá talsmenn verkalýðshreyfingarinnar (15,1%) og því næst Vinnumálastofnunar (6,8%).
Morgunblaðið og Fréttablaðið fjalla prentmiðla mest um málefni tengd erlendu vinnuafli á árinu 2006 og sama á við um málefni tengd innflytjendum. Fréttastofa Útvarps fjallar mest ljósvakamiðla um málefni tengd erlendu vinnuafli en Stöð2/NFS lítið eitt meira en fréttastofa Útvarps og fréttastofa Sjónvarps um innflytjendur.
Umfjöllun um innflytjendur og erlent launafólk 2006 (pdf, 500kb)