Þyrlurekstur Landhelgisgæslu Íslands - þróun og tillaga um framtíðarlausn
Ríkisstjórnin samþykkti í dag tillögu Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, um að unnið verði að framtíðarlausn í þyrlurekstri Landhelgisgæslu Íslands í samræmi við tillögur starfshóps, sem árið 2006 skilaði tveim skýrslum um þyrlurekstur landhelgisgæslunnar og hefur nú samið þriðju skýrsluna með tillögum að þróun og framtíðarlausn.
Tillögur hópsins eru í þremur liðum:
1. Áfram verði rætt við norsk stjórnvöld um sameiginlegt útboð Íslands og Noregs vegna kaupa beggja ríkja á nýjum, sérhönnuðum, stórum og langdrægum björgunarþyrlum samkvæmt þeirri útboðslýsingu, sem kynnt hefur verið í Noregi, og stefnt að það verði kynnt síðar á þessu ári. Jafnframt verði stefnt að nánu samstarfi ríkjanna við framtíðarrekstur þyrlanna.
2. Stefnt verði að því, að í þyrlusveit landhelgisgæslunnar verði áfram tiltæk a.m.k. ein minni þyrla, sem nýtt verði til þeirra flugverkefna, sem henni hentar.
3. Fram að afgreiðslu nýrra, stórra og langdrægra björgunarþyrla, væntanlega á árunum 2011-2014, leigi Landhelgisgæsla Íslands áfram vel búnar Eurocopter Super Puma og/eða Dauphin þyrlur til leitar- og björgunarflugs, svipaðar þeim sem landhelgisgæslan hefur rekið undanfarna rúma tvo áratugi.
Landhelgisgæsla Íslands - skýrsla 3C