Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2007 Innviðaráðuneytið

Fleiri skipakomur með bættri aðstöðu og aukinni markaðssetningu

Með bættri aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip og farþega þeirra má annars vegar stuðla að fleiri skipakomum og hins vegar nýta betur þau tækifæri sem þessi starfsemi hefur hér á landi. Þetta er megin niðurstaðan í skýrslu nefndar um móttöku skemmtiferðaskipa sem formaður hennar, Gísli Gíslason, afhenti Kristjáni L. Möller samgönguráðherra, í gær.
Skemmtiferðaskip í Reykjavík
Skemmtiferðaskip í Reykjavík

Formaður nefndarinnar sagði að aukning í komum skemmtiferðaskipa til Íslands væri mest í Reykjavík og Akureyri en fleiri hafnir nytu hennar einnig. Nefndi hann sem dæmi að með bættri aðstöðu hjá Faxaflóahöfnum mætti gera ráð fyrir að skipakomum fjölgaði úr 60 á ári uppí kringum 100 eftir fimm til sjö ár.

Kristján L. Möller samgönguráðherra lýsti ánægju sinni með tillögurnar og sagði ljóst að þar væri margt sem brýnt væri að vinna úr. Það yrði að hluta til verkefni nýs ráðherra ferðamála þar sem ferðamál flytjast til iðnaðarráðuneytisis um áramót. Áfram yrði þó hlutverk samgönguráðuneytis að stuðla að bættri aðstöðu í höfnum til að hlúa að þessum vaxtarbroddi.

Í skýrslunni er að finna margháttaðar upplýsingar um þróun í móttöku skemmtiferðaskipa hérlendis, um vöxt og viðgang greinarinnar, eðli starfseminnar og markaðssetningu, leiðir skipanna tegundir skipa, fjöldi þeirra og eignarhald. Fjallað er um aðstöðu hérlendis, reglur um öryggi farþega og í viðaukum eru ýmsar tölulegar upplýsingar.

Þá eru í skýrslunni fjölmargar tillögur sem hafa það markmið að virkja fleiri aðila til að veita skemmtiferðaskipum og farþegum þeirra þjónustu og taka þátt í markaðsstarfi. ,,Vexti og viðgangi á þessu sviði er fyrst og fremst að þakka tiltölulega fáum aðilum sem hafa haft sérstakan áhuga á verkefninu,? segir meðal annars í formála skýrslunnar. ,,Með auknum vexti í kjölfar aukinnar markaðssetningar og bættri nýtingu á þeim tækifærum sem eiga að gefast í framtíðini þá beri að stuðla að bættum innviðum og aðstöðu,? segir einnig.

Alls lagði nefndin fram 17 tillögur og eru þær helstu þessar:

  • Koma þarf upp þjónustubyggingu til móttöku farþega skemmtiferðaskipa. Slík aðstaða þarf að vera samkeppnishæf í Reykjavík og góð á Akureyri.
  • Í öðrum höfnum sem nú taka á móti skemmtiferðaskipum eða hyggjast fara inn á þá braut er mikilvægt að til staðar sé ákveðin grunnaðstaða.
  • Á þeim viðkomustöðum sem farþegar skipanna ferðast til þarf að sjá fyrir nauðsynlegri grunnaðstöðu svo sem hreinlætisaðstöðu. Eðlilegt er að huga að gjaldtöku fyrir þá þjónustu sem farþegar njóta á slíkum stöðum.
  • Koma þarf upp aðstöðu fyrir farþegaskipti annað hvort á Skarfabakka eða á nýjum hafnarbakka við gömlu höfnina í Reykjavík.
  • Gjaldtaka hafna verði til að laða skemmtiferðaskip til landsins og lengja dvöl þeirra í höfn og lagt er til að vitagjald verði tekið til endurskoðunar með það að markmiði að skemmtiferðaskipum verði gert auðveldara að koma til Íslands.
  • Efla þarf markaðssamtökin Cruise Iceland sem hluta af heildarskipulagi ferðamála á Íslandi. Tryggja þarf aukið fjármagn til markaðsstarfs og virkja samtökin betur til að styrkja og efla innviði svo sem námskeiðahald vegna svæðisbundinnar leiðsagnar og fleira.
  • Ferðamálastofu verði falið að taka saman tölfræði um farþega skemmtiferðaskipa og kynna með annarri almennri tölfræði um ferðamenn sem koma til Íslands.

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, skipaði starfshópinn í febrúar á þessu ári en auk Gísla Gíslasonar sátu í hópnum Gunnar Rafn Birgisson, forstjóri ferðaskrifstofunnar Atlantik, Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, Hörður Blöndal, hafnarstjóri á Akureyri og Sigríður Finsen, forseti bæjarstjórnar Grundarfjarðar og fyrrverandi formaður hafnaráðs. Með hópnum starfaði Rúnar Guðjónsson, viðskiptafræðingur í samgönguráðuneytinu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta