Skýrsla nefndar um atvinnu og samfélag á Norðurlandi eystra og Austurlandi
Nefnd sem forsætisráðherra skipaði þann 23. janúar 2008 til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf og samfélag í fámennum byggðarlögum á Norðurlandi eystra og Austurlandi sem eiga undir högg að sækja í atvinnulegu tilliti hefur lokið störfum og skilað skýrslu með margvíslegum tillögum. Með Norðurlandi eystra er átt við sveitarfélög í Þingeyjarsýslum og með Austurlandi er átt við Vopnafjörð, Borgarfjörð eystri, Seyðisfjörð, Breiðdalsvík og Djúpavog.
Stjórnvöld hyggja á stórátak í samgöngumálum og verja m.a. 24,5 milljörðum króna til vegamála í Norðausturkjördæmi á næstu þremur árum. Þar af verður 15,6 milljörðum króna varið til Héðinsfjarðargangna, Vaðlaheiðargangna og Norðfjarðargangna. Þá er unnið að aukinni gagnaflutningsgetu með háhraðatengingu til allra landsmanna sem mun auka möguleika fyrirtækja til að vera með nettengda starfsemi á landsbyggðinni.
Tillögur nefndarinnar miða að því að hvetja stjórnvöld til að nýta þessar breyttu aðstæður og efla starfsemi opinberra stofnana sem eru á svæðinu, m.a. á sviði menntunar, rannsókna, nýsköpunar og þjónustu, sem í samvinnu við fyrirtæki geti snúið við atvinnuþróuninni til aukinnar verðmætasköpunar og fjölgunar starfa á komandi árum. Helstu tillögur nefndarinnar eru eftirfarandi:
Komið verði á fót starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í Þingeyjarsýslum sem í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Þekkingarsetur Þingeyinga og vaxtarsamning Norðausturlands vinni að eflingu atvinnulífs á svæðinu.
Komið verði á fót starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Austurlandi sem í samvinnu við Þróunarfélag Austurlands, Þekkingarnet Austurlands, vaxtarsamning Austurlands og fleiri aðila vinni að eflingu atvinnulífs á svæðinu.
Ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu verði aðstoðuð við að þróa hugmyndir sínar um nýsköpun í ferðaþjónustu, byggja upp innviði greinarinnar, auka gæði þjónustu og vöru og skipuleggja markaðsstarfsemi. Komið verði á formlegu klasasamstarfi ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu í þeim tilgangi að efla samstarf í þróun og markaðssetningu.
Unnið verði að uppbyggingu á svæðisbundinni nýsköpun á svæðinu sem m.a. tengist Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni (NICE) sem stendur að norrænu verkefni um þróun og stefnumótun í svæðisbundinni nýsköpun. Verkefnið verði skilgreint og skipulagt þannig að niðurstaða þess verði yfirfæranleg til annarra byggðarlaga.
Unnið verði markvisst að könnun á grundvelli að rekstri jarðbaða við Mývatn, heilsu- og listahótels á Borgarfirði eystra og hollustutengdrar ferðaþjónustu á Djúpavogi. Metin verði væntanleg eftirspurn og þörf fyrir þjónustuna og kannaðir möguleikar á samstarfi við erlenda aðila eða aðila sem þegar starfa á umræddu sviði á landsvísu.
Áfram verði könnuð hagkvæmni þess að setja upp verksmiðju á Seyðisfirði til að fullvinna álvír sem framleiddur er hjá Alcoa/Fjarðaáli og byggja upp tengsl við erlenda úrvinnsluaðila sem hafa þekkingu á og reynslu af framleiðsluferlinu og aðgengi að sérhæfðum mörkuðum.
Starfsemi Rannsóknastöðvarinnar við Mývatn verði víkkuð út og gerð að rannsókna- og vísindasetri sem yrði miðstöð rannsókna á svæðinu. Stefnt verði að því að starfandi vísindamenn við opinberar stofnanir geti staðsett sig við setrið. Náið samstarf verði á milli setursins og Náttúrustofu Norðausturlands sem fengi aukin verkefni við vöktun fuglalífs í Þingeyjasýslum.
Hinu þingeyska fornleifafélagi, Þingeyskum sagnagarði og Fornleifaskóla barnanna verði gert kleift að ráða starfsmann til að annast þróun og framkvæmd verkefna félaganna er miða að því að efla rannsóknir, menningu og fræðslu innan Þingeyjarsveitar og utan hennar.
Samgönguráðuneytið beiti sér fyrir því að þjónusta sveitarfélagsins Langanesbyggðar, Vegagerðarinnar á Þórshöfn og Flugstoða á Þórshafnarflugvelli renni saman í eina þjónustustofnun sem rekin verði á ábyrgð sveitarfélagsins með samstarfssamningi við Vegagerðina og Flugstoðir.
Stuðningur við starfsemi Skrifstofu ferða- og menningarmála, Tækniminjasafns Austurlands, Skaftfells Miðstöðvar myndlistar á Austurlandi og Miðstöðvar menningarfræða á Austurlandi verði efld með aukið samstarf stofnananna að leiðarljósi.
Stutt verði við stofnun Jarðfræðiseturs George Walkers á Breiðdalsvík. Setrið verði miðstöð fyrir ferðaþjónustu, stúdentahópa og ferðatengda fræðimennsku á svæðinu þar sem unnt verði að nýta rannsóknir og kortlagningu Walkers á Breiðdal.
Stjórnvöld styðji við uppbyggingu miðstöðvar mennta, menningar og nýsköpunar í Kaupangi á Vopnafirði, húsnæði sem er í eigu sveitarfélagsins. Setrinu er ætlað að styrkja innviði menningar og ferðaþjónustu í héraði, tengja saman fagaðila og frumkvöðla og hvetja til vöruþróunar.
Framhaldsskólanum á Laugum verði falið að skoða möguleika á að nýta kosti fjarkennslu í bland við staðbundið lotunám. Með þessu yrði leitast við að gefa nemendum kost á að stunda nám í heimabyggð meirihluta vetrar en einnig hugað að því að þeir nytu kosta þess að vera hluti af stærra skólasamfélagi.
Skjalaskráningu í fjarvinnslu á opinberum gögnum Þjóðminjasafns og Þjóðskjalasafns sem þarf að varðveita um lengri tíma verði efld. Um er að ræða verkefni sem þarf að vinna og fer vel á því að þeirri vinnu sé sinnt frá landsbyggðinni.
Heilabilunardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Seyðisfirði sem sinnir öllu Austurlandi verði efld. Markmiðið er að stytta biðlista og auka heilbrigðisþjónustu á svæði stofnunarinnar.