Hoppa yfir valmynd
30. október 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni

Þórunn Sveinbjarnardóttir, Erik Solheim og Andreas Carlgren Islannds.
Fundur umhverfisráðherra Norðurlandanna í Helsinki.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hefur lagt fram formennskuáætlun Íslands á sviði umhverfismála í Norrænu ráðherranefndinni, en Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á komandi ári. Áætlunin var lögð fram á fundi umhverfisráðherra Norðurlandanna sem haldinn var í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Helsinki fyrr í vikunni.

Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun sem kynnt var á ráðherrafundinum telja 73% Norðurlandabúa að samstarf um umhverfismál vera mikilvægasta samstarfssvið Norðurlandaþjóðanna. Á formennskuárinu beina Íslendingar sjónum að hnattrænum viðfangsefnum eins og loftslagsmálum og málefnum hafsins. Einnig verður horft til hinnar sérstæðu náttúru Norðurlanda, hugmyndafræði náttúruverndar og samspilsins milli verndar og nýtingar náttúruauðlinda.

Meðal verkefna sem lagt er til að ráðist verði í á formennskuárinu er gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshaf. Samfara hlýnun hafs og andrúmslofts og minnkandi íss á norðurhjara eykst væntanlega vinnsla náttúruauðlinda sem áður voru óaðgengilegar og jafnframt munu siglingar um svæðið aukast. Nauðsynlegt er fyrir Norðurlönd að bregðast við í sameiningu í því skyni að vernda viðkvæma náttúru á láði og legi. Vákort fyrir Norður-Atlantshafið þar sem fram koma upplýsingar varðandi þá hættu sem vofir yfir hafsvæðinu vegna hugsanlegra mengunarslysa er talin forsenda fyrir því að hægt sé að bregðast við óhöppum með skipulegum hætti.

Á fundi Norrænu umhverfisráðherranna í Helsinki á þriðjudag var einnig hugað að undirbúningi fyrir aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Poznan í Póllandi í byrjun desember og rædd nauðsyn þess að Norðurlöndin beittu sér af alefli fyrir því að samkomulag náist á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í lok næsta árs um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Ráðherrarnir samþykktu einnig að leggja áfram áherslu á norræna umhverfismerkið Svaninn og ítrekuðu ánægju með að Svanurinn skuli vera í farabroddi alþjóðlegra umhverfismerkja.

Formennskuáætlun Íslands.

Frétt um fund umhverfisráðherra Norðurlandanna á Norden.org.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta