Hoppa yfir valmynd
11. mars 2009 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla um áhættumat fyrir Ísland

Formaður starfshóps um áhættumat fyrir Ísland Valur Ingimundarson, prófessor, skilaði í dag skýrslu hópsins til Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra. Starfshópurinn var skipaður í lok október 2007 af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáverandi utanríkisráðherra. Er það í fyrsta sinn sem þverfaglegum starfshópi er falið að leggja mat á öryggi og varnir Íslands með hliðsjón af útvíkkaðri skilgreiningu öryggishugtaksins. Í stað þess að miðast eingöngu við ríkisvaldið, hervarnir eða ógnir frá ríkjum eða ríkjabandalögum, eins og í kalda stríðinu, hefur það verið víkkað út með það fyrir augum að ná yfir hnattrænar, samfélagslegar og mannlegar ógnir, eins og skipulagða glæpastarfsemi, faraldra, hryðjuverk, efnahagsöryggi og netöryggi. Starfshópurinn fjallar um öryggi út frá þremur greiningarþáttum í skýrslunni: Þjóðaröryggi, samfélagslegu/borgaralegu öryggi og hnattrænum þáttum.

Eftirfarandi áhættuþættir voru skoðaðir sérstaklega í skýrslunni: Öryggi fjármálakerfisins, hernaðarógnir, heilbrigðisöryggi og farsóttir, umhverfisógnir, náttúruhamfarir og loftslagsbreytingar, alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi, gereyðingarvopn, skipulögð glæpastarfsemi, mansal, fólksflutningar til Íslands, aðlögun útlendinga að íslensku samfélagi, netöryggi, öryggi orkukerfisins, fjarskiptaöryggi, siglingaöryggi og mengunarvarnir, og matvæla- og vatnsöryggi.

Í skýrslunni eru ofangreindir áhættuþættir metnir út frá líkindum á því að hættuástand skapist og samfélagslegum áhrifum þess, veikleikum og styrkleikum Íslands, og aðstæðum á Íslandi samanborið við aðstæður í öðrum löndum. Í skýrslunni er að finna fjölda ábendinga um viðbrögð við hættum, aukið samstarf stofnana innanlands sem sinna öryggismálum, um stefnumótun á sviði öryggis- og varnarmála, og einstök viðbrögð við tilteknum hættum.

Í starfi sínu ráðfærði starfshópurinn sig við fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga á sviði öryggis- og varnarmála, og leitaði fanga í ríkjum eins og Noregi, Danmörku, Bretlandi, Bandaríkjunum og Rússlandi, auk samráðs við starfsmenn í höfuðstöðvum Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins í Brussel. Þá hefur formaður starfshópsins haldið upplýsingafundi með utanríkismálanefnd Alþingis á starfstímanum.

Í starfshópnum áttu sæti auk Vals þau Birna Þórarinsdóttir, stjórnmálafræðingur, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, sviðsstýra Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, Einar Benediktsson, fv. sendiherra, Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, Jón Sigurðsson, fv. ráðherra og lektor við Háskólann í Reykjavík, Margrét S. Björnsdóttir, forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslu og stjórnmála við Háskóla Íslands, Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Morgunblaðsins, Silja Bára Ómarsdóttir, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Sturla Sigurjónsson, sendiherra, Þór Whitehead, prófessor við Háskóla Íslands, Þórir Ibsen, sendiherra og Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu.

Skýrsluna er að finna hér

Á heimasíðu ráðuneytisins er jafnframt að finna rafrænan gagnabanka, sem starfshópurinn studdist við, með upplýsingum um öryggis- og varnarmál:

www.utanrikisraduneyti.is/malaflokkar/varnar-og-oryggismal/gagnabanki



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta