Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2009 Forsætisráðuneytið

Skýrsla nefndar um þróun Evrópumála

Nefnd um þróun Evrópumála (héreftir „Evrópunefnd“) var stofnuð í mars 2008 í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá maí 2007 og skipuð fulltrúum stjórnmálaflokka á Alþingi og úr atvinnulífinu. Nefndinni var ætlað að vinna á grunni niðurstaðna fyrri Evrópunefndar frá mars 2007 um framkvæmd Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Meginverkefni hennar var að fylgjast með þróun mála í Evrópu og leggja mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Í kjölfar hruns fjármálakerfisins í október 2008 var umboð nefndarinnar breikkað og henni falið að hefja víðtækara mat á þeim hagsmunum sem tengdust hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Við myndun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í janúar 2009 var ákveðið að nefndin héldi áfram störfum og skilaði skýrslu 15. apríl 2009 „sem hafi að geyma mat á stöðu og horfum Íslands gagnvart samstarfi við Evrópuþjóðir og framtíðarhorfum í gjaldmiðlamálum”.

Frá upphafi hafa Ágúst Ólafur Ágústsson úr Samfylkingunni og Illugi Gunnarsson úr Sjálfstæðisflokki, gegnt sameiginlegri formennsku í nefndinni. Auk þeirra hafa þar átt sæti Bryndís Hlöðversdóttir sem fulltrúi Samfylkingar en Aðalsteinn Leifsson kom svo í hennar stað. Steingrímur Sigurgeirsson var fulltrúi Sjálfstæðisflokks. Katrín Jakobsdóttir var fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en Árni Þ. Sigurðsson kom í hennar stað. Birkir J. Jónsson var fulltrúi Framsóknarflokks og Jón Magnússon fulltrúi Frjálslynda flokksins en Kristinn H. Gunnarsson tók svo við af síðarnefndum. Gylfi Arnbjörnsson var fulltrúi Alþýðusambands Íslands og Páll H. Hannesson var fulltrúi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Ingimundur Sigurpálsson var í fyrstu fulltrúi Samtaka atvinnulífsins en síðar Þór Sigfússon. Þá var Erlendur Hjaltason fulltrúi Viðskiptaráðs Íslands. Starfsmenn nefndarinnar voru Sturla Sigurjónsson og Ævar Rafn Björnsson.

Á tæpu ári kom nefndin saman til sextán formlegra funda og fékk fjölda sérfræðinga og hagsmunaaðila á fund sinn. Nefndin tók á móti fulltrúum Samtaka íslenskra sveitarfélaga sem kynntu starfsemi sína í Brussel fyrir nefndarmönnum. Björn Bjarnason ræddi fyrri Evrópuskýrslu og hugmyndir sem hann hafði sett fram um upptöku evru með samningi við Evrópusambandið. Michael Koehler, skrifstofustjóri í Aðalskrifstofu sjávarútvegsmála hjá ESB, skýrði frá helstu þáttum sjávarútvegsstefnu ESB og fyrirhugaðri endurskoðun hennar og fulltrúar utanríkisráðuneytisins kynntu Lissabon-sáttmálann og vinnu innan ráðuneytisins á sviði landbúnaðar-, sjávarútvegs- og byggðamála.

Nefndin fór í kynnisferð til Brussel og átti þar fundi með embættismönnum og sérfræðingum. Meðal annarra hitti nefndin Olli Rehn, framkvæmdastjóra stækkunarmála, Joaquin Almunia framkvæmdastjóra efnahags- og peningamála, Reinhard Priebe, framkvæmdastjóra skrifstofu C (Atlantshaf, fjarlæg svæði og Norðurskautið) innan Aðalskrifstofu sjávarútvegsmála og Marianne Fischer Boel landbúnaðarstjóra ESB.

Í kjölfar ferðarinnar var gerð úttekt á hugsanlegri einhliða eða tvíhliða upptöku evru sem gjaldmiðils og fylgir ágrip af þeirri úttekt þessari skýrslu. Nefndin fylgdi eftir skýrslu fyrri Evrópunefndar með því að fá svör frá ráðuneytum um framkvæmd tillagna hennar. Þá fjallaði nefndin um áhrif Lissabon-samningsins á stöðu EES og Íslands.

Til stuðnings hagsmunamati voru sendar spurningar til fjölda álitsgjafa og öðrum boðið að leggja sitt af mörkum til heimasíðu nefndarinnar. Stutt samantekt á svörum álitsgjafa er birt hér á eftir, en svörin í heild sinni eru aðgengileg á heimasíðu nefndarinnar.

Nefndin óskaði eftir úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á hagsmunum Íslands á upptöku evru. Nefndin vonast til að sú skýrsla verði framlag inn í umræðu um gjaldmiðlamál þjóðarinnar. Einnig er hér að finna samantekt á viðbrögðum Stjórnarráðsins við skýrslu fyrri Evrópunefndar.

Eins og við er að búast þar sem saman koma fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi auk helstu aðila á vinnumarkaði höfðu ekki allir sömu afstöðu til ESB-aðildar. Ekki voru forsendur fyrir sameiginlegri niðurstöðu allra aðila og var því farin sú leið að bjóða nefndarmönnum að skila sérálitum sem fram koma í lok skýrslunnar.

Skýrsla nefndar um þróun Evrópumála (pdf)

Heimasíða nefndarinnar er: evropumal.forsaetisraduneyti.is



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta