Skýrsla utanríkisráðuneytisins: Ísland á norðurslóðum
Skýrsla utanríkisráðuneytisins Ísland á norðurslóðum kemur út í dag. Í henni er lagður grunnur að heildstæðri stefnu Íslands á norðurslóðum og er það í fyrsta sinn sem heildarútekt hefur verið gerð á málefnum norðurslóða og þýðingu þeirra fyrir íslenska hagsmuni.
Sérstaklega er litið til umhverfis- og auðlindamála, öryggismála, atvinnuþróunar og breytts umhverfis siglinga á norðurslóðum. Einnig er hugað að vísindum og rannsóknasamstarfi og samvinnu háskóla og atvinnulífs um málefni norðurslóða. Skýrslan er unnin að frumkvæði utanríkisráðuneytisins en að henni hefur komið fjöldi sérfræðinga víða úr samfélaginu.
Í inngangsorðum skýrslunnar segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra: „Skýrslan dregur fram mikilvægi sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda norðurslóða, sem og varðveislu þeirra, fyrir velsæld á Íslandi til langs tíma litið. Hún beinir athyglinni að þeim grunnþáttum atvinnulífsins sem tengjast legu landsins og náttúru, lýsir þeim breytingum sem nú eru að verða á norðurslóðum og þýðingu þeirra fyrir íslenska hagsmuni."
Skýrslan er liður í endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu með tilliti til breyttra aðstæðna í kjölfar endaloka kalda stríðsins og opnun norðurskautssvæðisins sem vettvangs friðsamlegrar samvinnu norðurslóðaríkja.
Bent er á tækifæri sem felast í þeim breytingum sem nú eru að verða á norðurslóðum samfara aukinni sókn í auðlindir svæðisins og opnun nýrra siglingaleiða í norðri þar sem Ísland getur gegnt mikilvægu hlutverki.