Um álagningu og greiðslu útvarpsgjalds
Um síðustu áramót lagðist af innheimta afnotagjalds fyrir afnot útvarps og sjónvarps. Þess í stað var tekið upp útvarpsgjald sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda ár hvert. Um fjárhæð gjaldsins, innheimtu, sem og undanþágu frá gjaldinu er fjallað í 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf.
Fjárhæð gjaldsins er 17.200 kr. og leggst það á einstaklinga sem skattskyldir eru hér á landi og lögaðila (félög, sjóðir, stofnanir og fyrirtæki) sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild.
Undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það fellt niður skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, en þeir eru:
- börn innan 16 ára aldurs,
- þeir sem eru 70 ára og eldri í lok þess árs sem næst er á undan álagningarárinu,
- þeir sem hafa tekjuskattsstofn samtals lægri en 1.143.352 kr á því ári sem næst er á undan álagningarárinu. Þegar um er að ræða hjón eða samskattað fólk er sameiginlegum fjármagnstekjum skipt jafnt á milli þeirra þegar tekjuviðmiðunin er fundin. Tekjuviðmiðunin breytist árlega í samræmi við þær breytingar sem verða á persónuafslætti og innheimtuhlutfalli.
- aldraðir og öryrkjar undir 70 ára aldri sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
Í 2. mgr. 11. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. var upphaflega við það miðað að gjalddagi gjaldsins hjá einstaklingum væri einn eða 1. ágúst ár hvert. Menntamálaráðherra lagði nú á sumarþingi fram lagafrumvarp um að gjalddögum einstaklinga yrði fjölgað úr einum í þrjá. Hefur Alþingi nú samþykkt lög um að gjalddagar einstaklinga verði 1. ágúst, 1. september og 1. október. Gjalddagi gjaldsins hjá lögaðilum er 1. nóvember.