Velferð barna á tímum efnahagsþrenginga
Starfshópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins hefur skilað af sér skýrslu um sálfélagslega velferð barna á tímum efnahagsþrenginga.
Á ráðstefnunni „Velferð íslenskra barna - sóknarfæri á umbrotatímum“ sem haldin er í dag 17. ágúst kynnti Héðinn Unnsteinsson skýrslu sem starfshópur um sálfélagsleg viðbrögð við efnahagskreppunni tók saman.
Starfshópurinn sem skipaður var þann 21. janúar 2009 af þáverandi heilbrigðisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni skilaði tillögum um það hvernig best mætti verjast sálfélagslegum afleiðingum efnahagskreppunnar til Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra nýlega. Í öllu starfi hópsins var horft sérstaklega til reynslu annarra þjóða af svipuðu hruni og efnahagsþrengingum sem hér urðu á liðnu hausti.
Starfshópurinn hafði víðtæk samráð við fagaðila og fulltrúa félagasamtaka og lagði áherslu á að hugmyndir að aðgerðum væru framkvæmanlegar með sem minnstum tilkostnaði í ljósi þeirrar hagræðingar sem þegar er hafin í heilbrigðiskerfinu.