Hoppa yfir valmynd
8. september 2009 Forsætisráðuneytið

Könnun á starfsemi Heyrnleysingjaskólans, vistheimilisins Kumbaravogs og skólaheimilisins Bjargs

Nefnd sem forsætisráðherra skipaði á grundvelli laga nr. 26/2007 hefur skilað af sér áfangaskýrslu þar sem fjallað er um starfsemi Heyrnleysingjaskólans 1947-1992, vistheimilisins Kumbaravogs 1965-1984 og skólaheimilisins Bjargs 1965-1967. Þar er í samræmi við 1. gr. laga nr. 26/2007 og erindisbréf lýst starfsemi viðkomandi stofnana, tildrögum þess að börn voru þar vistuð, opinberu eftirliti með starfseminni og leitast við að staðreyna hvort börn hafi sætt þar illri meðferð eða ofbeldi.

Helstu niðurstöður vistheimilisnefndar eru þessar:

1. Heyrnleysingjaskólinn var ríkisstofnun sem starfrækt var í Reykjavík á árunum 1909-2002. Skólinn var ætlaður heyrnarlausum og heyrnarskertum börnum hvaðanæva af landinu. Könnun nefndarinnar nær til áranna 1947-1992 og hefur nefndin upplýsingar um að 175 börn hafi stundað nám við skólann á því tímabili.

Nefndin skiptir athugun sinni í þrjú tímabil. Á árunum 1947-1968 og 1968-1982 lýsti drjúgur hluti fyrrverandi nemenda skólans afmörkuðum athöfnum af hálfu starfsmanna sem þeir upplifðu sem illa meðferð eða ofbeldi. „Þótt nefndin telji ekki fært að fullyrða að þeir hafi beinlínis ætlað að valda nemendum sársauka eða niðurlægingu með þessum athöfnum er það niðurstaða nefndarinnar að óhjákvæmilegt sé að álykta að þessar athafnir kunni hlutlægt séð að hafa valdið slíkum sársauka og/eða niðurlægingu hjá einhverjum þeim nemendum, sem í hlut áttu, að þær geti fallið undir hugtakið illa meðferð eða ofbeldi í þeirri merkingu sem nefndin hefur lagt til grundvallar. Þó er það afstaða nefndarinnar að endanleg niðurstaða um einstök tilvik verði að byggja á heildstæðu mati samhengi hvers tilviks fyrir sig,“ segir í skýrslu nefndarinnar.

Þá telur nefndin að á tímabilinu 1968-1982 séu meiri líkur en minni á því að hluti nemenda skólans hafi sætt kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri áreitni af hálfu samnemenda, kynferðislegri áreitni af hálfu tiltekins kennara við skólann og kynferðislegu ofbeldi af hálfu utanaðkomandi einstaklings. Á tímabilinu 1982-1992 verði talið að meiri líkur en minni séu á því að sumir nemendur skólans hafi sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu annarra nemenda og utanaðkomandi einstaklings.

Opinberu eftirliti með starsfeminni var ábótavant á öllu tímabilinu.

2. Vistheimilið Kumbaravogur við Stokkseyri var starfrækt af einkaaðilum á grundvelli opinbers leyfis og hófst starfsemi þess árið 1965 og lauk henni árið 1984. Á árunum 1970-1975 var annað vistheimili rekið á staðnum af sömu aðilum og nefndist það Snekkjuvogur. Á Kumbaravogi vistuðust 20 börn og á Snekkjuvogi 16 börn eða alls 36 börn.

Nefndin telur meiri líkur en minni á því að hluti vistmanna á Kumbaravogsheimilinu hafi sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu gestkomandi einstaklings. Að öðru leyti hafi vistmenn ekki sætt illri meðferð eða ofbeldi. Þá eru gerðar athugasemdir við lögmæti vistunar í undantekningartilvikum og málsmeðferð barnaverndaryfirvalda í Reykjavík.

Opinberu eftirliti með starfseminni var ábótavant á öllu tímabilinu.

3. Skólaheimilið Bjarg á Seltjarnarnesi var starfrækt af Hjálpræðishernum á Íslandi á árunum 1965-1967 á grundvelli opinbers leyfis. Heimilið var ætlað stúlkum á aldrinum 14-16 ára. Voru 20 stúlkur vistaðar á Bjargi á starfstíma heimilisins.

Í skýrslunni kemur fram að meirihluti þeirra kvenna sem komu til viðtals við nefndina og meirihluti þeirra sem gaf skýrslu fyrir dómi og lögreglu í opinberum rannsóknum, sem fram fóru á starfsemi heimilisins í lok árs 1967 og í byrjun árs 1968, lýsi afmörkuðum athöfnum af hálfu starfskvenna sem þær upplifðu sem illa meðferð eða ofbeldi. Þótt nefndin telji ekki fært að fullyrða að starfskonur hafi beinlínis ætlað að valda viststúlkum sársauka eða niðurlægingu með þessum athöfnum er það niðurstaða nefndarinnar að óhjákvæmilegt sé að álykta að þessar athafnir kunni hlutlægt séð að hafa valdið slíkum sársauka og/eða niðurlægingu hjá einhverjum þeim viststúlkum sem í hlut áttu, að þær geti fallið undir hugtakið illa meðferð eða ofbeldi.

Þá er það niðurstaða nefndarinnar að það verði talið þegar á heildina er litið að meiri líkur en minni séu á því að sumar viststúlkur hafi mátt þola kynferðislega áreitni af hálfu einhverra starfskvenna. Ennfremur telur nefndin að sú kerfisbundna ritskoðun sem fór fram á Bjargi hafi í eðli sínu verið vanvirðandi og niðurlægjandi.

Opinberu eftirliti með starfseminni var ábótavant.

Nefndin ítrekar í skýrslu sinni fyrri tillögur til stjórnvalda, í fyrsta lagi varðandi skaðabótagreiðslur, í öðru lagi að því er varðar geðheilbrigðisþjónustu og í þriðja lagi varðandi gildandi framkvæmd og eftirlit á svið barnaverndarmála. Fram kemur í skýrslunni að nefndin telji að sú kennslustefna sem tekið var mið af í Heyrnleysingjaskólanum og sá aðskilnaður sem ung heyrnarlaus börn þurftu að upplifa hafi verið þessum hópi afar þungbær. Þessi aðstaða hafi átt verulegan þátt í að skerða lífsgæði þessara einstaklinga í íslensku samfélagi. Lagt er til að eins fljótt og kostur er verði teki efnisleg afstaða til áður fram kominna tillagna um úrbætur í málefnum heyrnarlausra, einkum í skýrslu Félags heyrnarlausra frá árinu 2008.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta