Ný skýrsla um stöðu umhverfismála
Umhverfisráðuneytið hefur gefið út skýrsluna Umhverfi og auðlindir sem fjallar um stöðu umhverfismála hér á landi. Skýrslan verður til umfjöllunar á Umhverfisþingi sem hefst næstkomandi föstudag, 9. október. Þar mun Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, kynna skýrsluna og Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands mun flytja sínar hugleiðingar um umhverfismál með hliðsjón af skýrslunni.
Eitt af helstu verkefnum umhverfisráðuneytisins er að safna mikilvægum upplýsingum um stöðu og þróun umhverfismála hér á landi, meta þær og miðla til almennings og þeirra sem taka ákvarðanir. Skýrslunni Umhverfi og auðlindir svipar að mörgu leyti til Velferðar til framtíðar sem gefin var út fyrir sjö árum og nær til sömu málaflokka. Í henni er þó ekki að finna stefnumörkun stjórnvalda heldur nokkuð ítarlega greiningu á ástandi og þróun mála en þar var gert. Vægi mála hefur einnig breyst og til dæmis er hér fjallað ítarlegar um sjálfbæra neyslu og framleiðslu og loftslagsbreytingar af mannavöldum.
Ákveðið var að byggja skýrsluna aðallega upp í kringum töflur og gröf og myndræna framsetningu á ástandi og þróun þeirra mála sem um er fjallað og draga fram lykilstaðreyndir á eins greinargóðan hátt og hægt er. Í texta er sums staðar reynt að leggja mat á ástand mála og hvernig miði í átt að settu marki. Slíkt mat á ástandi og þróun mála er alltaf að einhverju leyti huglægt og getur verið umdeilanlegt, en megináhersla er lögð á að draga fram helstu staðreyndir þannig að lesandinn geti sjálfur dæmt um hvort réttar ályktanir séu dregnar af þeim.
Umhverfi og auðlindir. Stefnum við í átt til sjálfbærrar þróunar? (pdf-skjal).