Hoppa yfir valmynd
22. október 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjölmiðlafrumvarp í almenna kynningu

Með nýju fjölmiðlafrumvarpi er stefnt að því að setja í fyrsta sinn heildarlöggjöf um fjölmiðla og starfsemi þeirra hér á landi.

Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis eru drög að nýju fjölmiðlafrumvarpi sem lögð hafa verið fram til kynningar. Slóðin er /menningarmal/frumvorp. Með nýju fjölmiðlafrumvarpi er stefnt að því að setja í fyrsta sinn heildarlöggjöf um fjölmiðla og starfsemi þeirra hér á landi. Frumvarpið felur í sér að sameinaðar og samræmdar eru reglur sem ná annars vegar til hljóð- og myndmiðla skv. útvarpslögum nr. 53/2000 og hins vegar prentmiðla skv. lögum um prentrétt nr. 57/1956. Tilefni þess að ráðist var í frumvarpsgerðina má upphaflega rekja til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/65/EB frá 11. desember 2007 um breytingu á tilskipun ráðsins 89/552/EBE um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla um sjónvarpsrekstur. Við það er miðað að tilskipunin hafi verið innleidd fyrir 19. desember 2009.

Helstu atriði frumvarpsins eru:

  • Innleiðing nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins um hljóð- og myndmiðla sem breytir gildissviði núgildandi útvarpslaga og grundvallarhugtökum þess.
  • Að setja samræmdar reglur sem gilda um alla fjölmiðla, bæði hljóð- og myndmiðla og ritmiðla.
  • Að samræma ábyrgðarreglur í ólíkum fjölmiðlum.
  • Að þeir fjölmiðlar sem nú eru leyfisskyldir verði það áfram en aðrir fjölmiðlar verði skráningarskyldir til að almenningur geti haft yfirlit yfir íslenska fjölmiðla og eignarhald þeirra.
  • Að settar verði reglur um gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum.
  • Að settar verði reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði.
  • Að settar verði ítarlegri reglur sem vernda heimildarmenn blaða- og fréttamanna.
  • Að settar verði lágmarksreglur um auglýsingar í öllum fjölmiðlum, auk ítarlegri reglna er leiða af tilskipun ESB um hljóð- og myndmiðla.
  • Að stjórnsýsla verði samræmd og eftirlitið taki til allra fjölmiðla, þ.m.t. eftirliti með áfengis-, tóbaks-, lyfja-, happdrættis- og veðmálaauglýsingum, en ólíkir aðilar hafa haft eftirlit með auglýsingum í ólíkum miðlum hingað til.
  • Að settar verði reglur sem takmarka frekar en nú er markaðssetningu gegn börnum í hljóð- og myndmiðlum.
  • Að settar verði reglur um flutningsrétt og flutningsskyldu til að tryggja samkeppni á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði.
  • Að skipuð verði nefnd til að kanna samþjöppun á eignarhaldi á fjölmiðlamarkaði og eftir atvikum ef með þarf að koma með tillögur að takmörkunum á eignarhaldi á fjölmiðlum.

Þeir sem vilja koma á framfæri athugasemdum við frumvarpið er bent á að senda athugasemdir til mennta- og menningarmálaráðuneytis á netfangið [email protected] eigi síðar en 11. nóvember nk.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta