Frumvarp til laga um breytingar á höfundalögum nr. 73/1972, með áorðnum breytingum
Vakin er athygli á því að á vef mennta- og menningarráðuneytis eru nú til kynningar drög að nýju frumvarpi til laga um breyting á höfundalögum nr. 73/1972, með síðari breytingum. Slóðin er www.menntamalaraduneyti.is/menningarmal/frumvorp
Frumvarpið er liður í endurskoðun höfundalaga sem mun fara fram á næstu þremur árum í jafn mörgum áföngum. Að því er stefnt að árlega á næstu þremur árum verði lagt fram breytingafrumvarp á höfundalögum, þar sem teknir eru til endurskoðunar einstakir þættir laganna. Lokaáfanginn verður svo heildarfrumvarp til nýrra höfundalaga sem ráðgert er að verði tilbúið 2012.
Frumvarpið er m.a. byggt á tillögum höfundaréttarnefndar og varðar eftirtaldar tilskipanir Evrópuþingsins og Ráðsins:
-
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu 2001/29/EB,
-
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB og
-
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um þjónustu á innri markaðinum 2006/123/EB.
Helstu atriði frumvarpsins eru:
-
Lagðar til breytingar á 12. gr. höfundalaga um takmarkanir á höfundarétti til hagsbóta fyrir bóka-, skjala- og listasöfn vegna eintakagerðar í öryggis- og varðveisluskyni, gerð sérstakra afnotaeintaka þar sem frumeintök þykja of viðkvæm til útláns o.fl.
-
Í nýrri 12. gr. a er lagt til að kveðið verði á um heimildir safna til að veita aðgang á athafnasvæði sínu með þar til gerðum búnaði.
-
Lagt er til að rýmkaðar verði takmarkanir á höfundarétti skv. 19. gr. í þágu notenda sem vegna fötlunar geta ekki lesið prentað mál og þannig aflétt takmörkunum á eintakagerð og dreifingu verndaðs efnis til slíkra aðila.
-
Lagt er til að samningsumboð rétthafasamtakanna vegna ljósritunar, Fjölís, skv. 15. gr. a verði ekki bundið við íslenska höfunda eingöngu.
-
Lagt er til að tekið verði upp ákvæði í 54. gr. höfundalaga um refsingu fyrir hlutdeild í höfundaréttarbrotum.
-
Lagt er til að viðurkenning mennta- og menningarmálaráðuneytisins á samningsumboði og fyrirsvari höfundaréttarsamtaka fari fram eftir sérstökum málsmeðferðarreglum þannig að uppfyllt séu skilyrði í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um þjónustu á innri markaðinum 2006/123/EB.
-
Lagt er til að tekin verði upp í höfundalög valin ákvæði úr tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB er varða afhendingu eða eyðileggingu eintaka, tækja og muna er tengjast broti, sérstaka bótareglu vegna höfundaréttarbrota, upplýsingarétt brotaþola vegna meðferðar máls og rétt brotaþola til opinberrar birtingar dómsniðurstöðu.
-
Lagt er til að mælt verði fyrir um málsaðild samtaka skv. 23. gr. og 23. gr. a höfundalaga vegna lögbannsaðgerða í þágu rétthafa.
-
Lagt er til að innleidd verði sérstaklega í höfundalög 3. mgr. 8. gr. í tilskipun 2001/29/EB um rétt rétthafa og samtaka þeirra til lögbanns gegn þjónustu milliliða sem þátt eiga í höfundaréttarbrotum á netinu en reynslan hefur sýnt að úrræði V. kafla laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu nr. 30/2002, sbr. IV. kafla laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990, gagnist ekki nægilega, ein sér, til að sporna við höfundaréttarbrotum á netinu.
Þeir sem vilja koma á framfæri athugasemdum við frumvarpið er bent á að senda athugasemdir til mennta- og menningarmálaráðuneytis á netfangið [email protected] eigi síðar en 14. desember nk.
- Frumvarp til laga um breytingar á höfundalögum nr. 73/1972, með áorðnum breytingum (PDF 143KB)
Drög dagsett 23.11.2009