Háhraðanetsverkefnið á undan áætlun
Stefnt er að því að ljúka uppbyggingu fjarskiptakerfa og hefja í kjölfarið sölu til íbúa í síðasta áfanga háhraðanetsverkefni fjarskiptasjóðs í ágúst næstkomandi í stað desember eins og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.
Fjarskiptasjóður samdi við Símann hf. í ársbyrjun 2009 um uppbyggingu háhraðanettenginga á þeim stöðum á landinu þar sem slík þjónusta er ekki í boði á markaðslegum forsendum. Um er að ræða rúmlega 1.600 skilgreind lögheimili með heilsársbúsetu eða fasteignir með heilsársstarfsemi sem fá möguleika á háhraðanetstengingu í tengslum við samninginn.
Framvinda verkefnisins hefur verið góð þrátt fyrir erfiðar aðstæður víða og fyrirséða byrjunarörðugleika einstaka notenda. Mikill áhugi er fyrir því bæði hjá yfirvöldum fjarskiptamála sem og verktakanum að flýta uppbyggingunni sem kostur er og koma þar með til móts við þá íbúa sem búa á svæðum í síðustu verkáföngunum. Samkomulag hefur því tekist um að hraða uppbyggingunni eins og kostur er.
Nánari upplýsingar um verkefnið, s.s. verkáætlun og uppfærðan staðalista er að finna á vef fjarskiptasjóðs.