Norræni loftslagsdagurinn 11. nóvember
Dagurinn er sameiginlegt verkefni allra norrænu menntamálaráðherranna og felst meðal annars í því að efla kennslu um loftslagsmál á Norðurlöndum og jafnframt að auka og efla samstarf kennara og nemenda á Norðurlöndum.
Norræni loftslagsdagurinn verður haldinn hátíðlegur í annað sinn 11. nóvember nk. Dagurinn er sameiginlegt verkefni allra norrænu menntamálaráðherranna og felst meðal annars í því að efla kennslu um loftslagsmál á Norðurlöndum og jafnframt að auka og efla samstarf kennara og nemenda á Norðurlöndum. Í ár er dagurinn í samvinnu við norrænt tungumálaátak og gefst nemendum tækifæri á að taka þátt í samnorrænni keppni sem að hluta til er unnin á dönsku, sænsku eða norsku.
Á vefsíðunni www.klimanorden.org má finna allar upplýsingar um verkefni sem nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum eru hvattir til að leysa af hendi í samstarfi við kennara sína, fyrir loftslagsdaginn. Ennfremur verður hvatt til þess að skólar geri eitthvað táknrænt í tilefni dagsins, s.s. að hvetja til að nemendur gangi í skólann, bílar séu ekki látnir vera í hægagangi fyrir utan skóla eða allir fari út á sama tíma og fylli lungun af lofti.