Samstarf um uppbyggingu framhaldsskóla í Reykjavík
Mennta- og menningarmálaðherra og borgarstjóri skrifuðu í dag undir yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf ríkis og borgar í húsnæðismálum framhaldsskóla í Reykjavík til ársins 2014. Samkomulagið tryggir að leyst verður úr húsnæðisvanda þriggja skóla á tímabilinu 2011 til 2014.
- Framtíð Kvennaskólans í miðborg Reykjavíkur tryggð.
- Úrbætur í húsnæðismálum Menntaskólans við Sund.
- Framkvæmdum við Fjölbrautaskólann við Ármúla lokið á árinu 2012.
Mennta- og menningarmálaðherra og borgarstjóri skrifuðu í dag undir yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf ríkis og borgar í húsnæðismálum framhaldsskóla í Reykjavík til ársins 2014. Samkomulagið tryggir að leyst verður úr húsnæðisvanda þriggja skóla á tímabilinu 2011 til 2014 og verður 1.600- m.kr. varið til þess verkefnis.
Kvennaskólinn
Kvennaskólinn í Reykjavík hefur lengi verið starfræktur í miðborginni við þröngan húsakost. Til þess að bæta aðstöðu skólans og um leið tryggja starfsemi hans til framtíðar í miðborginni mun gamli Miðbæjarskólinn verða nýttur undir starfsemi hans. Samkomulag liggur fyrir um kaup ríkisins á 60% hlut í húsnæðinu af Reykjavíkurborg sem áfram mun eiga 40%, í samræmi við ákvæði laga um stofnkostnað opinberra framhaldsskóla. Eftir áramót hefjast framkvæmdir við endurbætur á húsnæðinu og mun það verða tilbúið undir starfsemi Kvennaskólans á nýju skólaári.
Mennaskólinn við Sund
Á næstu misserum verður ráðiðst í nauðsynlegar framkvæmdir til úrbóta í aðgengismálum. Einnig er gert ráð fyrir viðbyggingu sem að stærstum hluta mun verða kennslurými. Áformað er að undirbúningur og framkvæmdir geti hafist á árinu 2012.
Fjölbrautaskólinn við Ármúla
Við Fjölbrautaskólann við Ármúla hafa staðið yfir framkvæmdir vegna viðbyggingar við húsnæði skólans. Þær framkvæmdir munu halda áfram og er áformað að þeim ljúki samkvæmt áætlun á árinu 2012.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra um samkomulagið:
„Það er mjög mikilvægt að samstarfi ríkis og borgar við uppbyggingu framhaldsskóla í borginni sé haldið áfram, en með því er leyst úr aðkallandi húsnæðisvanda þriggja skóla á næstu árum. Sérstaklega gleðilegt þykir mér að um leið og framtíð Kvennaskólans í miðborginni er tryggð fær hús gamla Miðbæjarskólans aftur sitt upprunalega hluverk – að hýsa skólastarfsemi.“
Jón Gnarr, borgarstjóri um samkomulagið:
„Það er mikil ánægja hjá borginni með að Kvennaskólanum hafi verið tryggð framtíð í gamla Miðbæjarskólanum. Framhaldsskólunum fylgir líf og auðugra mannlíf og gleðiefni að Miðbæjarskólinn sé aftur orðinn að skóla. Ekki síður erum við ánægð með að Menntaskólinn við Sund og Fjölbrautarskólinn við Ármúla sjái nú fram á bætta aðstöðu.“
Nánari upplýsingar veita:
Elías Jón Guðjónsson,
aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra Sími: 694 14 80 |
Sigurður Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra Sími: 661 9899 |