Staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls verði lögfest
- Staða íslenskrar tungu fest í lög.
- Táknmál viðurkennt sem fyrsta tungumál þeirra sem nota það til tjáningar og samskipta.
- Allir landsmenn eigi kost á íslenskukennslu.
Frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls var samþykkt á fundi ríkisstjórnar Íslands í dag. Verður það í framhaldi lagt fyrir þingflokka ríkisstjórnarflokkanna til umfjöllunar og taka þeir ákvörðun um hvort málið verður lagt fram á Alþingi.
Markmið frumvarpsins er að festa í lög stöðu íslenskrar tungu, mæla fyrir um varðveislu hennar, þróun og nothæfni og aðgengi manna. Jafnframt gerir frumvarpið ráð fyrir að íslenskt táknmál verði viðurkennt í lögum sem fyrsta mál þess hluta heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra sem reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Er lagt til að íslenska ríkið hlúi að íslenska táknmálinu og styðji. Mælt er fyrir um rétt þeirra sem þörf hafa fyrir táknmál að þeir skuli eiga þess kost að læra, tileinka sér og nota íslenska táknmálið frá máltökualdri eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda kemur fram síðar á ævinni.Einnig er mælt fyrir um hvernig lögunum skuli framfylgt og hverjir beri þá skyldu. Þá eru fyrirmæli um notkun íslenskrar tungu innan stjórnkerfis ríkisins, Alþingis, dómstóla og stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.