Leiðtogaþjálfun á fjölmiðlum
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hvetur fjölmiðla til að taka þátt í verkefni um leiðtogaþjálfun meðal starfsfólks með það að markmiði að hvetja konur til að sækja um yfirmannastöður á fjölmiðlum og efla umræðu um jafnrétti kynja.
Ljóst er að konur eru yfirleitt ekki í yfirmannastöðum íslenskra fjölmiðla og að hlutfallið ein kona á móti hverjum þremur körlum gengur eins og rauður þráður í gegnum allt sjónvarpsefni. Ein af þeim leiðum sem hugsanlega geta snúið upp á stöðuna er að fjölmiðlar taki þátt í verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins um leiðtogaþjálfun.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið veitir þátttakendum stuðning við verkefni sem miðar að því að starfandi konur á fjölmiðli fái leiðsögn og þjálfun hjá leiðtogum sem eru starfandi yfirmenn. Konur fá kynningu á daglegum störfum yfirmanna og sitja á fundum eða ráðstefnum sem þeir sækja. Markmiðið er að konur úr röðum starfsfólks fái tækifæri til að öðlast yfirsýn yfir helstu verksvið yfirmanna og að umræður skapist um jafnréttismál kynja. Með þátttöku í verkefninu ættu konur að verða tilbúnari en áður til þess að sækja um yfirmannastöður til jafns við karla og báðir aðilar ættu að þjálfast í umræðu um jafnrétti kynja og viðhorfum til jafnréttismála.
Fyrirmynd verkefnisins má rekja til verkefnis sem Christina Jutterström framkvæmdastjóri sænska sjónvarpsins, SVT, kom á fyrir nokkrum árum. Árangurinn leiddi til fjölgunar kvenna í yfirmannastöðum og aukinnar umræðu um jafnréttismál meðal starfsfólks sem skilaði sér í efni sjónvarpsstöðvarinnar.
Fjölmiðlum sem taka þátt í verkefninu, leiðtogaþjálfurum og öðrum úr röðum starfsfólks verður boðið upp á stuðning jafnréttisráðgjafa mennta- og menningarmálaráðuneytisins við skipulag og framkvæmd. Gert er ráð fyrir að árangursmat verði birt í skýrslu með samantekt á því sem hafi áunnist og því sem betur megi fara.
Fjölmiðlar eru hvattir til þátttöku og til að kynna sér verkefnið nánar með því að hafa samband við jafnréttisráðgjafa mennta- og menningarmálaráðuneytisins í síma eða með tölvupósti til [email protected].