Aukinn rekstrarkostnaður Landhelgisgæslunnar við flutning til Suðurnesja
Rekstrarkostnaður Landhelgisgæslu Íslands er talinn aukast um 690 milljónir króna ef aðsetur hennar verður flutt til Suðurnesja. Þetta kemur fram í skýrslu sem innanríkisráðherra kynnti í ríkisstjórn í dag.
Innanríkisráðuneytið lét kanna hagkvæmni þess að flytja starfsstöðvar Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar. Fól ráðuneytið ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte hf. að gera hagkvæmniathugun. Var hún unnin í samráði við stjórnendur Landhelgisgæslunnar og byggist að nokkru leyti á upplýsingum úr bókhaldi stofnunarinnar. Þá var einnig byggt á skýrslu sem fjallaði um sama efni, frá árinu 2007 sem unnin var af starfsfólki Landhelgisgæslunnar.
Ekki er lagt mat á breytingar á öryggismálum, svo sem vegna húsnæðis og ýmiss búnaðar, svo og áhrif flutnings á aðra starfsemi í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð.