Útstreymi gróðurhúsalofttegunda minnkaði
Útstreymi gróðurhúsalofttegunda dróst saman um 5% milli áranna 2008 og 2009 þegar hún mældist 4,6 milljónir tonna gróðurhúsalofttegunda reiknuð sem CO2-ígildi. Þetta er í samræmi við væntingar en samdráttinn má einkum rekja til minni losunar flúorkolefna frá álverum og samdráttar í umsvifum byggingargeirans og sementsframleiðslu. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna fiskveiða jókst hins vegar frá árinu 2008. Samkvæmt spám Umhverfisstofnunar mun Ísland standa við sínar skuldbindingar gagnvart Kyoto-bókuninni.
Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi
Af þeim 4,6 milljónum tonna gróðurhúsalofttegunda sem losaðar voru árið 2009 falla 1,2 milljónir tonna undir sérákvæði sem nær til nýrrar stóriðju á Íslandi skv. Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Losun utan við ákvæðið, var því samtals rúmlega 3,4 milljónir tonna.
Hérlendis kemur langstærsti hluti losunarinnar frá iðnaði og efnanotkun eða 44%. Næstmest er losunin frá samgöngum eða 20% Þar á eftir kemur sjávarútvegur (14%) og landbúnaður (12%).
Losun gróðurhúsalofttegunda 2009
Skuldbingingar ríkja vegna loftslagssamningsins miðast við árið 1990 en losun Íslands það ár var 3,4 milljónir tonna gróðurhúsalofttegunda. Hún jókst því um 35% á tímabilinu 1990 til 2009. Mest er aukningin frá áliðnaði (142%) og vegasamgöngum (69%). Talsverð aukning hefur einnig verið vegna meðhöndlunar úrgangs sem og vegna rafmagns- og hitaframleiðslu. Losunin hefur hins vegar dregist saman um 17% í sjávarútvegi og um 6% í landbúnaði.
Breyting í losun gróðurhúsalofttegunda frá 1990 til 2009
Þróun losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi 1990 til 2009
Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar tók hagvöxtur að aukast verulega á Íslandi og var þar einna mestur í OECD löndunum fram til ársins 2007. Eftir að fjármálakreppuna árið 2008 dróst neysla hins vegar verulega saman, eða um fjórðung frá árinu 2007. Að sama skapi dróst losun gróðurhúsalofttegunda saman í flestum geirum milli áranna 2008 og 2009
Losunarheimildir Íslands
Á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar frá 2008 til 2012 nema losunarheimildir Íslands rúmlega 18,5 milljónum tonna gróðurhúsalofttegunda. Þetta jafngildir því að árleg losun skuli að meðaltali nema um 3,7 milljónum tonna. Samkvæmt fyrrnefndu ákvæði er Íslandi þó heimilt að halda losun frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvera utan við losunarskuldbindingar sínar eftir að losunarheimildir hafa verið fullnýttar, samkvæmt tilteknum reglum. Heildarmagnið sem halda má utan við losunarheimildirnar nemur samtals 8 milljónum tonna á fyrsta skuldbindingartímabilinu, eða að meðaltali 1,6 milljónum tonna á ári.
Þetta kemur fram í skýrslu sem Umhverfisstofnun hefur tekið saman um losun gróðurhúsalofttegunda frá árinu 1990 til 2009 og sent til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.