Skýrsla starfshóps um kornrækt
Nr. 20/2011
Skýrsla starfshóps um kornrækt
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn skýrslu um eflingu kornræktar. Ráðherra lagði þar til að stuðningur hins opinbera við kornrækt hér á landi yrði sambærilegur því sem er í Danmörku.
Kornrækt á Íslandi nemur nú um 15 þúsund tonnum og hefur farið ört vaxandi síðustu ár. Miðað við núverandi rekstrarforsendur er þó talið að hægja muni á þessari aukningu. En það er mat skýrsluhöfunda að með þreföldun íslenskrar kornræktar megi spara þjóðarbúinu 200 milljónir í gjaldeyri og fullnægja byggþörf í íslenskum landbúnaði. Þar með má efla hagvarnir og fæðuöryggi þjóðarinnar, stuðla að stöðugra rekstrarumhverfi í landbúnaði og auka fjölbreytni í atvinnulífi hinna dreifðu byggða.
Styrkir til kornræktar á Íslandi eru í dag aðeins brot af því sem tíðkast í nágrannalöndunum. Þannig eru þeir þrefalt hærri í Danmörku en hér á landi og ef mið er tekið af Finnlandi er munurinn sexfaldur.
Í minnisblaði ráðherra kemur fram að á næstunni verði hafnar viðræður við Bændasamtök Íslands um mögulegar breytingar á búvörusamningi sem miði að auknum styrkjum til kornræktar. Sömuleiðis verður ráðist í úttekt á stöðu fæðuöryggis í landinu.
Meðfylgjandi er skýrsla starfshópsins sem var undir forystu Þorsteins Tómassonar.
Myndin var tekin þegar starfshópurinn skilaði af sér til ráðherra en á henni eru nefndar-menn ásamt ráðherra, ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanni ráðherra, f.v. talið Sveinn Ingvarsson, Torfi Jóhannesson, Jón Bjarnason, Þorsteinn Tómasson formaður hópsins, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, Eyjólfur Sigurðsson, Áslaug Helgadóttir, Sigurgeir Þorgeirsson og Hörður Harðarson. Á myndina vantar tvo nefndarmenn, þau Bergþóru Þorkelsdóttur og Ólaf Eggertsson.