Education at a Glance 2011 skýrsla OECD um stöðu menntamála
Helstu atriði:
Menntunarstig Íslendinga hefur aukist á undanförnum áratugum.
Lægra hlutfall lýkur námi eftir grunnskóla á Íslandi en á Norðurlöndum.
Brottfall úr framhaldsskólum er yfir meðaltali OECD.
Ísland í ellefta sæti innan OECD yfir útgjöld á hvern nemanda á öllum skólastigum.
Helstu atriði:
- Menntunarstig Íslendinga hefur aukist á undanförnum áratugum.
- Lægra hlutfall lýkur námi eftir grunnskóla á Íslandi en á Norðurlöndum.
- Brottfall úr framhaldsskólum er yfir meðaltali OECD.
- Ísland í ellefta sæti innan OECD yfir útgjöld á hvern nemanda á öllum skólastigum.
Efnahags og framfarastofnunin (OECD) hefur gefið út árlega skýrslu um stöðu menntamála á Íslandi og öðrum aðildarlöndum, Svipmynd af menntun (e. Education at a Glance).
Menntunarstig
Í skýrslunni kemur fram að miklar breytingar urðu á menntunarstigi íslendinga á aldursbilinu 25-64 ára á árunum 1997 til 2009. Á árabilinu lækkaði hlutfall þeirra sem ekki höfðu lokið neinu prófi eftir grunnskóla jafnt og þétt, úr 44% árið 1997 niður í 34% árið 2009. Samt sem áður hefur stærri hluti fullorðinna ekki lokið prófi umfram grunnskóla en á hinum Norðurlöndunum og hlutfallið er þó nokkuð hærra en meðaltal OECD landanna, sem var 27% árið 2009. Hefur ríkisstjórn Íslands sett það markmið að hlutfallið lækki niður í 10% fyrir árið 2020 og er nú unnið markvisst að því, meðal annars með átaksverkefninu Nám er vinnandi vegur.
Háskólamenntuðum fjölgaði úr 21% árið 1997 í 33% árið 2009. Er hlutfall háskólamenntaðra því orðið hærra en meðaltalið innan OECD en er samt lægst á Íslandi af Norðurlöndunum. Í aldursflokknum 25-64 ára höfðu 36% lokið háskólaprófi árið 2009 og í skýrslunni er áætlað að eftir því sem hópurinn eldist þá bætist fleiri við með háskólamenntun þar til um 45% hópsins verði kominn með háskólamenntun við fimmtugsaldurinn.
Námsgengi og brottfall í framhaldsskólum
Í skýrslunni var námsgengi nemenda í framhaldsskólum skoðað sérstaklega. Fylgst var með nýnemum sem skráðu sig í framhaldsskóla skólaárið 2002-2003 og skoðað hversu stórt hlutfall þeirra hafði lokið framhaldsskólaprófi að fjórum árum liðum og svo aftur að sex árum liðnum.
Könnunin staðfestir hátt hlutfall brottfalls meðal íslenskra framhaldsskólanema. Eftir fjögur ár höfðu aðeins 45% nýnema lokið framhaldsskólaprófi, hlutfall karla var 38% og kvenna 51%. Eftir sex ár þá var hlutfallið komið upp í 58%. Af þessu sést að stór hluti íslenskra framhaldsskólanema hverfur frá námi án þess að ljúka prófi eða tekur sér námshlé til lengri eða skemmri tíma. Hlutfall þeirra sem ekki ljúka framhaldsskóla eftir sex ár er talsvert hærra en víðast hvar annars staðar í löndum OECD. Meðaltalið eftir dæmigerðan tíma í framhaldsskóla (3 ár í flestum löndum) er 68% og eftir tvö ár í viðbót þá er meðaltalshlutfallið komið upp í 81%. Sömuleiðis er talsverður munur á Íslandi og Norðurlöndum að þessu leyti; Noregur kemur næst Íslandi með 57% eftir dæmigerðan útskriftartíma og 71% eftir tvö ár í viðbót.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sett af stað verkefni í samvinnu við sérfræðingahóp á vegum OECD og sérfræðinga frá Noregi sem miðar að því að draga úr brottfalli. Stefnt er að víðtæku samstarfi við hagsmunaaðila um hvernig innleiðing nýrra laga um framhaldsskóla getur stuðlað að bættu námsgengi í framhaldsskólum.
Útgjöld til menntamála
Þegar heildarkostnaður menntastofnana er deilt niður á heildarfjölda nemenda þá voru útgjöld á hvern nemanda á Íslandi þau elleftu hæstu innan OECD árið 2008. Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð voru útgjöld á hvern nemanda hærri en hér á landi. Ísland sker sig úr öðrum löndum að því leyti að þegar útgjöld á hvern nemanda eru skoðuð eftir skólastigum þá er tiltölulega lítill munur á kostnaði miðað við önnur lönd þar sem útgjöld vegna háskólanema er yfirleitt mun hærri en á öðrum skólastigum. Á Íslandi eru nemendur á framhaldsskólastigi ódýrastir en nemendur á grunnskólastigi dýrastir. Útgjöld á hvern háskólanema er undir meðaltali OECD og mun lægri en á Norðurlöndunum. Á Íslandi kostaði hver háskólanemi 10.429 bandaríkjadali árið 2008 sem var undir meðaltali OECD (13.717 bandaríkjadalir). Á Norðurlöndum var háskólaneminn dýrastur í Svíþjóð 20.014 bandaríkjadali. Ef litið er á útgjöld á hvern háskólanema sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á mann þá voru þau lægst á Íslandi af öllum löndum OECD.
Útgjöld til háskóla jukust á Íslandi á tímabilinu 2000 til 2008 um 64%. Á sama tímabili fjölgaði nemendum um 62%. Hins vegar jukust útgjöld á hvern nemanda aðeins um 1%. Sú mikla útgjaldaaukning sem varð á þessu tímabili skýrist því að mestu leyti af fjölgun nemenda. Á lægri skólastigum samanlagt jukust útgjöld um 46% á sama tímabili og þegar þeim er deilt á hvern nemanda þá nam aukningin 36%.
Upplýsingar um skýrsluna og frekari gögn eru aðgengileg á vef OCED