Opnun íslenska skálans á bókasýningunni í Frankfurt
Svandís Svavarsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði í gær íslenska skálann á bókasýningunni í Frankfurt að viðstöddum forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, forsetafrú Dorrit Moussaieff , Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands og fleiri gestum.
Svandís Svavarsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði í gær íslenska skálann á bókasýningunni í Frankfurt að viðstöddum forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, forsetafrú Dorrit Moussaieff, Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands og fleiri gestum. Eftir ávarp ráðherra skoðuðu gestir skálann þar sem íslensk náttúra og risastórar veggmyndir frá heimilum íslenskra lesenda kallast á. Í ávarpi sínu greindi Svandís frá þýðingu íslenskra bókmennta og að þær væru menningargersemar okkar eins og kastalar og sérstök mannvirki eru fyrir aðra og sagði m.a. að „gull Íslendinga eru orðin“. Einnig kom fram í máli hennar hve mikilvægt væri fyrir Ísland og íslenskar bókmenntir að taka þátt í bókasýningunni sem heiðursgestir. Þá gerði hún ótrúlegar viðtökur Þjóðverja við bókmenntum okkar að umtalsefni og þakkaði þýðendum Íslendingasagnanna sérstaklega fyrir afrek þeirra.
Bókasýningunni lýkur nk. sunnudag en fjölmargar sýningar og viðburðir með íslenskum þátttakendum standa næstu vikur auk allra bókanna, sem þýddar hafa verið og gefnar út í Þýskalandi og víðar af þessu tilefni og munu lifa um ókomna tíð.