Greinagerð um veitingu Evrópumerkisins 2011
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og mennta- og menningarmálaráðuneytið veita Evrópumerkið, European Label, sem viðurkenningu fyrir nýbreytni í tungumálanámi og tungumálakennslu. Forgangsatriði viðurkenningarinnar í ár eru tungumál í samfélaginu og tungumálakunnátta og atvinnumöguleikar. Dómnefnd bárust 8 verkefni að þessu sinni og augljóst er að víða er verið að vinna mikið og gott starf á sviði tungumálanáms - og kennslu, í þessu tilviki í kennslu íslensku fyrir útlendinga til að auka færni þeirra til að aðlagast og komast af í íslensku samfélagi.
Umsjón með verkefninu Yrkja sem hlýtur Evrópumerkið 2011 höfðu Atli Lýðsson, fyrir hönd Eflingar stéttarfélags og Vala S. Valdimarsdóttir fyrir hönd Mímis - símenntunar.
Verkefnið felst í að þróa og kenna 200 stunda nám fyrir erlenda félagsmenn Eflingar stéttarfélags sem eru í atvinnuleit. Samþætting efnisþátta úr námskrám, sem hafa verið gefnar út af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og ráðuneytinu, var lögð til grundvallar. Einnig var stuðst við reynslu af þróunarverkefninu Kjölur og átaksverkefninu Ungt fólk til athafna sem unnið var hjá Mími – símenntun á vorönn 2010.
Markmið verkefnisins var að virkja þátttakendur, sem voru að þessu sinni pólskar konur sem höfðu litla sem enga íslenskukunnáttu og voru búnar að vera atvinnulausar lengur en í 12 mánuði, til íslenskunáms og aukinnar þátttöku í íslensku samfélagi. Yfirmarkmiðið var að auka hæfni þeirra og möguleika á íslenskum vinnumarkaði.
Nýbreytnin felst einkum í því að tvinna saman tungumálanám og félagsfærni. Einnig má telja til nýbreytni að hópurinn var einsleitur, bara pólskar konur, þær komu sjálfviljugar á námskeiðið og að margar námsgreinarnar voru kenndar á móðurmáli kvennanna, pólsku, sem auðveldar þeim aðgengi að námsefninu. Námið var líka verulega fjölbreytt, sem og kennsluaðferðir, og reynt var að hafa þær sem mest einstaklingsmiðaðar.
Ávinningurinn felst einkum í ánægju og þakklæti nemenda á námskeiðinu. Margar kvennanna héldu áfram í námi í íslensku hjá Mími – símenntun eða Landnemaskólanum og einhverjar hafa þegar fengið vinnu. Ávinningurinn virðist því töluverður.
Yfirfærslugildi verkefnisins felst augljóslega í því að unnt er að vinna slík námskeið með hvaða tungumálahópum sem er. Áætlað er að halda annað Yrkjunámskeið nú á haustönn 2011 með sömu hugmyndafræði að leiðarljósi. Umsjónarmenn verkefnisins segja að reynslan hafi kennt þeim að það hafi kosti í för með sér að vera með einsleita hópa, einkum ef íslenskukunnáttan er slök. Þá sé hæfileg blanda að fjölbreyttum námsþáttum vænleg til árangurs.
Það er ljóst að hér er um afar metnaðarfullt verkefni að ræða sem byggir á langri reynslu og mikilli fagmennsku. Á bak við verkefnið liggur heilmikil hugmyndafræði og kennslufræðileg ígrundun. Verkefnið er grundað á ítarlegri greiningu á markhópnum sem er minnihlutahópur, sem nauðsynlegt er að virkja, þannig að hann geti orðið virkur í samfélaginu. Í verkefninu er lögð áhersla á að tengja formlegt málanám við félagslegar athafnir og lifandi tjáskipti. Styrkur verkefnisins liggur ekki hvað síst í því að þátttakendum gefst tækifæri til að rjúfa félagslega einangrun sína og styrkja þannig sjálfsmynd sína og öðlast meira sjálfstraust. Verkefnið er því fyrirmyndarverkefni og uppfyllir vel þær kröfur sem gerðar eru til viðurkenningar Evrópumerkisins 2011.