Ráðherra heiðrar skáksveit Rimaskóla
Svandís Svavarsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, bauð skáksveit Rimaskóla, ásamt foreldrum og systkinum til móttöku í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Tilefnið var glæsilegur sigur sveitarinnar á Norðurlandamóti barnaskólasveita 2011 sem haldið var í bænum Hadsten í Danmörku.
Svandís Svavarsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, bauð skáksveit Rimaskóla, ásamt foreldrum og systkinum til móttöku í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Tilefnið var glæsilegur sigur sveitarinnar á Norðurlandamót barnaskólasveita 2011 sem haldið var í bænum Hadsten í Danmörku. Um titilvörn var að ræða því skólinn vann mótið einnig í fyrra en sveitin í ár er þó breytt. Í skáksveit Norðurlandameistaranna eru Oliver Aron Jóhannesson, Kristófer Jóel Jóhannesson, Jóhann Arnar Finnsson, Svandís Rós Ríkharðsdóttir og Nansý Davíðsdóttir, sem þrátt fyrir ungan aldur hlaut flesta vinninga sveitarinnar eða 4,5 af 5 mögulegum. Liðstjóri sveitarinnar er Hjörvar Steinn Grétarsson.
Ráðherra ávarpaði unga fólkið í upphafi móttökunnar og óskaði þeim og Rimaskóla hjartanlega til hamingju með frábæran árangur. Hún sagðist sem mennta- og menningarmálaráðherra vera stolt af þessum góða árangri fyrir Íslands hönd og minnti á hve góðar fyrirmyndir þau væru öðru ungu fólki. Helgi Árnason skólastjóri þakkaði í stuttri ræðu ráðherra fyrir boðið og þau hvatningarorð sem hún talaði til unga afreksfólksins.