Skýrsla um strandsvæði og efnahagslögsögu
Skýrsla um strandsvæði og efnahagslögsögu
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti í dag í ríkisstjórn skýrslu um framkvæmdir með ströndum landsins og innan efnahagslög-sögunnar. Skýrslan er unnin af nefnd sem skipuð var af ráðherra 27. september 2010 undir forystu Ástu Einarsdóttur lögfræðings í ráðuneytinu.
Meginhlutverk nefndarinnar var að gera úttekt á þeim lögum og reglum sem gilda um framkvæmdir og athafnir með ströndum landsins og í efnahagslögsögunni. Jafnframt var óskað eftir því að nefndin myndi meta þörf fyrir skýrari reglur og hvort ástæða væri til að setja lögggjöf um skipulag strandsvæða.
Þá ber þess að geta að nefndin taldi nauðsynlegt að afla upplýsinga hjá þeim aðilum sem hefðu með málaflokk hafs og stranda að gera í daglegu starfi. Í því skyni var aðilum boðið að taka þátt í vinnuhópi. Hópnum var ætlað að finna út hverjir væru helstu vankantar við núverandi fyrirkomulag og koma með tillögur að því með hvaða hætti þessum málum yrði best fyrir komið. Niðurstaða vinnuhópsins er birt sem Fylgiskjal II við meðfylgjandi skýrslu.
Þá bendir nefndin á að helsti galli á regluverki um framkvæmdir og athafnir með ströndum landsins og í efnahagslögsögunni sé skortur á samráði stofnana og um leið skortur á heildarsýn yfir starfsemi á umræddu svæði. Þá sé óheppilegt að ekki skuli vera til staðar miðlæg gagnamiðlun og/eða upplýsingagátt um framkvæmdir og athafnir með ströndum landsins og í efnahagslögsögunni. Þessi skortur á samráði og upplýsingum kunni eftir atvikum einnig að torvelda eftirfylgni opinberra aðila til að framfylgja lögbundnum hlutverkum sínum.
Jafnframt bendir nefndin á að ljóst sé að haf- og strandsvæði séu takmörkuð auðlind eða gæði og eftir því sem eftirspurn eftir þeim aukist verði auðlindastjórnun mikilvægari, t.d. vegna mannfjölgunar, nýtingar og í almennu efnahagslegu samhengi. Þá hafi stjórnvöld í mörgum nágrannalöndum sett lög um skipulagsskyldu á hafinu og önnur ríki séu að undirbúa slíka löggjöf til þess að bregðast við vaxandi áhuga á nýjum framkvæmdum og athöfnum á hafinu utan netlaga. Því væri kostur að kynna sér hvernig t.d. Noregur hafi útfært sína strandsvæðastjórnun með nýjum skipulagslögum. Eins sé í gangi vinnuhópur á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem vinni að verkefni um hafskipulagningu og sé vert að kanna niðurstöður hópsins.
Af ofangreindu er ljóst að hér er um að ræða mikilvæga hagsmuni og mun skýrslan því verða kynnt fyrir hagsmunaaðilum og þeim gefið færi á að koma að sínum athugasemdum.