Samstarfsnefnd um símenntun/starfsþróun kennara
Samstarfsnefnd um símenntun/starfsþróun kennara á öllum skólastigum neðan háskólastigs hefur tekið til starfa.
Guðfinna Harðardóttir frá sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigurjón Mýrdal frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Jón Torfi Jónasson frá Menntavísindasviði HÍ, Edda Kjartansdóttir, starfsmaður og Elna Katrín Jónsdóttir frá Kennarasambandi Íslands
-
Samstarfsnefnd um símenntun/starfsþróun kennara á öllum skólastigum neðan háskólastigs hefur tekið til starfa.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Kennarasamband Íslands, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa gert með sér samkomulag eða sérstaka viljayfirlýsingu um samstarf á sviði símenntunar. Stofnuð hefur verið samstarfsnefnd þessara aðila með það að markmiði að vinna að verkefnum á sviði símenntunar og starfsþróunar kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.
Helstu verkefnin verða þessi:
- Að samræma og flokka upplýsingar um símenntunartilboð fyrir kennara og koma á laggirnar upplýsingaveitu um framboð símenntunar fyrir kennara.
- Að setja fram sameiginlegan skilning aðila á því hvað felst í símenntun/starfsþróun kennara og vinna að því að auðvelda kennurum á mismunandi skólastigum að sækja sömu símenntun/starfsþróun, að sækja sameiginleg námskeið, ráðstefnur og þróunarverkefni
- Vinna við að greiða leið kennara til að nýta sér námsframboð háskólanna samhliða vinnu.
- Að ræða þróun samræmdra aðferða við skráningu starfsþróunar
Verkefnin byggja að verulegu leyti á tillögum nefndar á vegum mennta- og menningarmálaráðherra sem skilaði skýrslu um símenntunarmál í árslok 2010 en sömu aðilar og nú hafa gert með sér samkomulag áttu fulltrúa í þeirri nefnd. Skýrsluna má lesa á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins
Samstarfsnefndinni til fulltingis er stýrihópur sem í sitja 4 fulltrúar úr hópi þeirra sem sitja í samstarfsnefndinni og ennfremur hefur verið skipuð fjögurra manna ritstjórn upplýsingaveitu um símenntun.
Samkomulagið er um vinnu að fyrrgreindum málefnum í eitt ár 1. október 2011 – 30. september 2012 og ráðinn hefur verið starfsmaður í 50% starf til að vinna með stýrihópi og samstarfsnefnd. Allir aðilar samkomulagsins leggja fé af mörkum til starfsins.
- Nánari upplýsingar gefur starfsmaður samstarfsnefndar, Edda Kjartansdóttir, [email protected] ,sími 525 5983.
- Vefur um vinnu nefndarinnar verður opnaður á slóðinni https://skrif.hi.is/samstarfumsimenntun