Tímamót í háskólastarfi
Opinberu háskólarnir fjórir, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli, Háskólinn á Hólum, hafa gert með sér samning um gagnkvæman aðgang nemenda að námskeiðum við skólana.
- Opinberu háskólarnir gera samning um gagnkvæman aðgang nemenda
- Gerir háskólanemum kleift að dreifa námi sínu á fleiri en einn skóla
- Fleiri valkostir fyrir nemendur
Opinberu háskólarnir fjórir, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli, Háskólinn á Hólum, hafa gert með sér samning um gagnkvæman aðgang nemenda að námskeiðum við skólana. Forsvarsmenn skólanna skrifuðu undir samninga þessa efnis að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, þann 5. desember.
Samningurinn tekur gildi í janúar 2012 og munu nemendur geta skráð sig í námskeið við annan opinberan háskóla án þess að greiða nein viðbótargjöld og án þess að móttökuskólinn setji almenn takmörk á fjölda eininga, sem gestanemandi tekur með þessum hætti. Nemendur þurfa þó að leita til síns heimaskóla áður en skráning í námskeið fer fram, til að tryggja að þau fáist metin til viðkomandi prófgráðu. Skólarnir munu hvetja nemendur til að nýta sér þennan valkost og námsnefndir munu skilgreina námskeið sem þær mæla með við aðra skóla. Skólarnir munu í fyllingu tímans geta nýtt þennan samning til að hagræða í námsframboði sínu, með því að sameina námskeið þvert á skóla og samkenna þau með hjálp fjarkennslutækni.
Samningur þessi mun leiða af sér hagræðingu, bætta nýtingu á mannauði og kennsluaðstöðu skólanna og síðast en ekki síst aukinn fjölbreytileika í valkostum fyrir nemendur.
Samstarf opinberu háskólanna byggir á stefnu þar að lútandi sem sett var af mennta- og menningarmálaráðherra í ágúst 2010 og gildir til 1. september 2012. Sérstök verkefnisstjórn var skipuð til að stýra verkefninu en í henni sitja rektorar skólanna ásamt fleirum.
- Sjá nánar á vef samstarfsins
SAMNINGUR OPINBERRA HÁSKÓLA
um gagnkvæman aðgang nemenda að námskeiðum
Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli - Háskólinn á Hólum gera með sér svo hljóðandi samning:
Háskólarnir eru sammála um að opna fyrir aukinn aðgang nemenda að námskeiðum á milli skóla og að hvetja nemendur til að gerast gestanemendur við aðra opinbera háskóla.
Markmiðið samningsins er að bæta nýtingu skólanna á námskeiðum og auðvelda þannig hagræðingu í hverjum skóla. Annað markmið er að auka val nemenda um námskeið og að víkka sjóndeildarhring nemenda við alla skólana.
Skilgreiningar hugtaka:
- Gestanemandi: Nemandi sem er skráður við háskóla A en tekur einstök námskeið við háskóla B er „gestanemandi“ við háskóla B.
- Heimaskóli: Háskólinn (A) þar sem nemandinn er skráður, þar sem hann greiðir skrásetningargjald og þar sem hann hyggst brautskrást.
- Móttökuskóli: Háskólinn (B) þar sem nemandinn tekur einstök námskeið, gagnvart kröfum til prófgráðu við háskóla A.
- Gestanám: Nám stundað utan heimaskóla.
Til að framfylgja samningnum munu skólarnir vinna samkvæmt eftirfarandi viðmiðum:
- Frá og með 1. janúar 2012 munu háskólarnir fjórir afnema takmarkanir á fjölda námskeiða eða eininga sem nemendur frá öðrum opinberum háskólum geta tekið við viðkomandi móttökuskóla, enda sé gætt að þeim ferlum og skilyrðum sem lýst er í þessum samningi. Einnig verður hætt innheimtu skrásetningargjalda gestanemenda frá öðrum opinberum háskólum, hvort sem þeir koma samkvæmt sérstökum samningi eða ekki. Óbreytt verður, að háskóladeildir og háskólar geta sett skilyrði um lágmarksfjölda eininga sem skuli hafa verið lokið við heimaskólann.
- Frá og með 1. janúar 2012 munu skólarnir kynna sérstaklega fyrir nemendum sínum möguleika gestanáms. Þessi kynning skal m.a. vera bæði í kennsluskrám og með almennum upplýsingum á kynningarvefjum skólanna. Skólarnir munu taka skýrt fram að ekki sé hægt að ábyrgjast framboð gestanáms í fjarnámi, og að nemandinn þurfi að uppfylla þær kröfur um viðveru sem gerðar eru í hverju námskeiði.
- Gestanemendur þurfa að uppfylla almenn skilyrði um inntöku í alla skólana, sérskilyrði viðkomandi deildar (ef við á) og skilyrði um undanfara einstakra námskeiða. Ef skólarnir þurfa að beita aðgangstakmörkunum í einstakar námsleiðir eða námskeið geta gestanemendur þurft að uppfylla viðbótarkröfur einnig. Almennt er miðað við að bakkalár-nemandi hafi lokið 1. ári við heimaskólann áður en hann gerist gestanemandi.
- Skólarnir skuldbinda sig til að tryggja að námsnefndir, eða aðrir til þess bærir aðilar á hverjum stað, kynni sér reglulega námsframboð hinna skólanna á tilteknum sviðum og upplýsi nemendur um námskeið sem þeir mæla sérstaklega með. Meðmæli með námskeiðum geta annars vegar byggst á því að námskeiðin séu sambærileg við einstök skyldunámskeið við heimaskólann og hins vegar á því að þau séu æskileg sem valnámskeið.
- Heimaskóli getur, að höfðu samráði við móttökuskólann, nýtt þennan samning til að fella niður fámenn val- eða skyldunámskeið sem kennd eru, og vísað nemendum þess í stað á sambærileg námskeið við móttökuskólann.
- Ferlið fyrir flæði gestanemenda milli skóla er sem hér segir:
- Nemandi sem óskar að verða gestanemandi við annan háskóla í samstarfinu skal leggja fram formlega beiðni um það hjá viðeigandi aðila (deild eða kennslusviði) við sinn heimaskóla innan tiltekinna tímamarka, sbr. 7. gr.
b. Heimaskóli nemandans ber ábyrgð á því að samþykkja fyrirfram einstök námskeið við hina skólana fyrir sína nemendur og ganga úr skugga um að þau skarist ekki um of við áður tekin námskeið á fræðasviðinu.
c. Heimaskóli sendir beiðni á móttökuskólann um skráningu í tiltekin námskeið, og greinir frá því hvernig þau munu nýtast í námi nemandans. Heimaskóli staðfestir jafnframt að nemandinn sé skráður við heimaskólann í áframhaldandi nám og hafi greitt þar skrásetningargjald. Heimaskólinn skal veita móttökuskólanum aðgang að námsferli nemandans, bæði á háskólastigi og framhaldsskólastigi (stúdentspróf).
d. Gestanemendur þurfa ekki að greiða skrásetningargjöld við móttökuháskólann, enda greiði þeir áfram árlegt skrásetningargjald við sinn heimaskóla.
e. Allir skólarnir auðkenna gestanemendur sérstaklega („flagga“), svo að unnt sé að fylgjast með fjölda gestanemenda. Einnig auðkenna þeir sérstaklega nemendur sem heimilað er að taki námskeið við móttökuskóla.
f. Heimaskóli ber ábyrgð á námsferli nemandans og miðlun upplýsinga um hann til LÍN.
- Skólarnir munu á næstu 6 mánuðum setja upp skýrt ferli fyrir skráningu gestanemenda, tímamörk beiðna og meðhöndlun þeirra. Ferlið verði kynnt á heimasíðum allra skólanna og kynnt fyrir öllum starfsmönnum við nemendaskrár og á skrifstofum fræðasviða og deilda.
- Hver háskóli fær greitt fyrir þær „þreyttu einingar“ sem þar eru teknar í samræmi við reglur um fjárveitingar til háskóla og samninga hans við ráðuneytið.
- Í nóvember á hverju ári skulu skólarnir taka saman yfirlit um fjölda, dreifingu og þreyttar einingar gestanemenda. Sameiginleg skýrsla með þessu yfirliti skal send ráðuneyti Mennta- og menningarmála fyrir 1. desember.
- Á árinu 2012 verður heimilt að nýta hluta af 150 m.kr. fjárveitingu til samstarfs opinberu háskólanna til að koma til móts við kostnað háskóla vegna nemendafjölda sem er tilkominn vegna þessa samnings og er umfram ársnemendafjölda sem lagður er til grundvallar framlagi til skólans í fjárlögum.
- Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun við endurskoðun reglna um framlög til háskóla líta til þess að reglurnar stuðli að samstarfi háskólanna almennt og sérstaklega að markmiði samnings þessa.
Ábyrgð á útfærslu og eftirfylgni vegna samnings þessa er falin stýrihópi um nemenda- og kennslumál sem starfar á vegum samstarfs opinberu háskólanna.
Samningur þessi er ótímabundin en hver skóli getur sagt honum upp með 18 mánaða fyrirvara.
Reykjavík, 5. desember 2011
Rektor Háskóla Íslands Rektor Háskólans á Akureyri
Rektor Landbúnaðarháskóla Íslands Rektor Hólaskóla-Háskólans á Hólum
Mennta- og menningarmálaráðherra