Hoppa yfir valmynd
19. desember 2011 Matvælaráðuneytið

Skýrsla starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar

Orkumynd með skýrslu um húshitunarkostnað
Orkumynd með skýrslu um húshitunarkostnað

Í kjölfar ríkisstjórnarfundar sem haldinn var á Ísafirði í apríl var samþykkt að unnið yrði að því með Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að leita leiða til að lækka og jafna húshitunarkostnað. Starfshópur sem myndaður var í kjölfarið hefur skilað tillögum sínum.

Samkvæmt skipunarbréfi var hlutverk starfshópsins eftirfarandi:

  • Yfirfara lög nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, og koma með tillögur til úrbóta varðandi framkvæmd laganna.
  • Setja fram tillögur um framkvæmd og fjármögnun niðurgreiðslna til húshitunar.
  • Gera tillögur um viðmið fyrir húshitunarkostnað.
  • Yfirfara þær aðgerðir sem nú er beitt varðandi orkusparnað á köldum svæðum og koma fram með tillögur um frekari aðgerðir á því sviði.

Tillögu starfshópsins má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er lagt til að grundavallarbreyting verði gerð á niðurgreiðslukerfinu þannig að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu. Kerfið verður þá sjálfvirkt þar sem öllum breytingum á verði á raforkudreifingu yrði mætt með sjálfvirkum hætti án þess að sérstök ákvörðun þurfi að liggja þar að baki.

Í öðru lagi er gerð tillaga að breyttri fjármögnun niðurgreiðslna. Tillaga hópsins er að jöfnunargjald verði sett á hverja framleidda kWst sem næmi þeim kostnaði sem nauðsynlegur er á hverjum tíma til að niðurgreiða að fullu flutning og dreifingu raforku til upphitunar íbúðarhúsnæðis.

Í þriðja lagi gerir hópurinn nokkrar tillögur sem snúa að frekari jarðvarmaveituuppbyggingu og bættri orkunýtni, þar ber hæst að starfshópurinn leggur til að jöfnunargjald verði lagt á hitaveitur, svipað og á raforkuframleiðslu, sem geti ávallt tryggt viðgang og vöxt jarðvarmaveitna. Einnig er lagt til að heimilt verði að lengja stofnstyrkjaframlagið í allt að 12 ár ef þörf krefur.

Hugmyndir um breytingar á kerfinu og fjármögnun eru óháðar hver annarri þ.e.a.s. að hægt er að gera umræddar breytingar á kerfinu með núverandi fjármögnun og öfugt.

Að auki er lagt til að Orkustofnun skoði sérstaklega þann mikla mismun sem er á verði til neytenda hjá RO veitum og geri tillögur til úrbóta.

Starfshópinn skipa þau Arnbjörg Sveinsdóttir, Ása Ögmundsdóttir, Hjalti Þór Vignisson, Ingibjörg Sigmundsdóttir, Katrín Skúladóttir, Kristinn Jónasson, Ómar Már Jónsson og Sigurður Friðleifsson.

Skýrsla starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta