Skýrsla um lagaramma orkumála
Skýrsla starfshóps iðnaðarráðherra um lagaramma orkumála var kynnt í ríkisstjórn 17. janúar. Í skýrslunni er greining á þeim álitaefnum sem tengjast fyrirkomulagi á orkumarkaði og eignarhaldi orkuvinnslu.
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 27. júlí 2010 vegna orku- og auðlindamála, var kveðið á um stofnun starfshóps sem „undirbúi lagafrumvarp er tryggi opinbert eignarhald á mikilvægum orkufyrirtækjum og takmarki eignarhald einkaaðila.“
Hópurinn tók til starfa þá um haustið og skipuðu hann eftirtaldir:
Arnar Guðmundsson, fulltrúi iðnaðarráðherra, formaður
Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi þingflokks VG,
Indriði H. Þorláksson, fulltrúi fjármálaráðherra,
Jónína Rós Guðmundsdóttir, fulltrúi þingflokks Samfylkingarinnar,
Páll Þórhallsson, fulltrúi forsætisráðherra,
Salvör Jónsdóttir, fulltrúi umhverfisráðherra,
Kristrún Heimisdóttir, fulltrúi efnahags- og viðskiptaráðherra.
Vinna starfshópsins dróst nokkuð umfram það sem ráð var fyrir gert í yfirlýsingunni og skýrist það m.a. af því að umræða innan starfshópsins, og skoðun á orkumálunum, leiddi í ljós að nær ómögulegt er að einangra spurningar um eignarhald orkufyrirtækja frá skipulagi orkumarkaðarins að öðru leyti, né heldur frá umræðu um heildstæða auðlindastefnu. Því var áhersla lögð á greiningu á stöðunni og þeim úrlausnarefnum sem tengjast eignarhaldi auðlinda og orkufyrirtækja frekar en að freista þess að vinna lagafrumvarp.