Tillögur um endurreisn birkiskóga
Leita þarf leiða til að koma á betri beitarstýringu, auka þarf framlög til Hekluskóga og hvetja til víðtækra rannsókna á birkiskógum landsins. Þetta er mat höfunda skýrslu, sem inniheldur tillögur að leiðum til endurreisnar birkiskóga á Íslandi, og kynnt hefur verið umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ákvað í lok febrúar 2011 að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að auka útbreiðslu birkiskóga hér á landi. Í þeim tilgangi fól hún Skógrækt ríkisins að höfðu samráði við Landgræðslu ríkisins að skila tillögum um hvernig best væri að ná markmiðum sem sett voru fram í skýrslunni Vernd og endurheimt íslenskra birkiskóga en hún kom út árið 2007.
Tillögurnar hafa verið kynntar umhverfisráðherra en þær ganga m.a. út á að stofnaður verði sérstakur starfshópur til að leita leiða til að koma á betri beitarstýringu og meiri ábyrgð búfjáreigenda á sínu fé. Er lagt til að starfshópurinn vinni með sveitarfélögum að heppilegum lausnum með það að markmiði að létta beit af svæðum sem eru illa beitarhæf og jörðum þar sem landeigendur kæra sig ekki um að annarra manna fé sé þar á beit.
Þá er lagt til að framlög til Hekluskóga verði aukin en svæðið sem skógarnir hafa undir nær yfir rúmlega 90.000 hektara friðaðs lands. Verði það land að mestu klætt birki eins og stefnt er að, samsvarar það um tvöföldun á núverandi flatarmáli birkiskóglendis. Er einnig lagt til að fleiri svipuðum verkefnum verði komið á fót.
Í tillögunum er lögð áhersla á að hvatt verði til áframhaldandi víðtækra rannsókna á birkiskógum landsins, ekki síst þeirra sem snúa að aðferðum við að auka útbreiðslu skóglendis á skilvirkan hátt.
Loks er áhersla lögð á áframhaldandi stuðning við Landgræðsluskóga og að kannað verði hvernig bjóða megi upp á framlög sérstaklega til friðunar og endurheimtar birkiskóga á bújörðum á vegum Landshlutaverkefna í skógrækt.