Skýrsla um framkvæmd og fyrirkomulag íþróttakennslu í grunnskólum
Í febrúar sl. fól ráðuneytið Capacent Gallup að gera könnun á framkvæmd og fyrirkomulagi íþróttakennslu í grunnskólum. Könnunin er gerð í samræmi við þriggja ára áætlun ráðuneytisins um ytra mat í leik-, grunn- og framhaldsskólum auk þess að vera hluti af eftirliti ráðuneytisins sbr. 4. gr. og 38. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008.
Í febrúar sl. fól ráðuneytið Capacent Gallup að gera könnun á framkvæmd og fyrirkomulagi íþróttakennslu í grunnskólum.
Könnunin er gerð í samræmi við þriggja ára áætlun ráðuneytisins um ytra mat í leik-, grunn- og framhaldsskólum auk þess að vera hluti af eftirliti ráðuneytisins sbr. 4. gr. og 38. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008.
Í samantekt um niðurstöður könnunarinnar kemur fram að nánast jafn margir karlar og konur kenna íþróttir í grunnskólum. Flestir, eða 78%, eru grunnskólakennarar með íþróttir sem sérgrein. Rúmlega 80% þeirra sem kenna íþróttir hafa sótt endurmenntun á sviði íþrótta á síðustu tveimur árum og 41% hefur sótt endurmenntun á öðru sviði en íþróttasviði. Þeir sem ekki höfðu sótt endurmenntun voru meðal annars þeir sem nýlega höfðu lokið námi.
Í um 50% skóla eru allir árgangar í sundi eina stund í viku allt skólaárið. Í um 6% skóla er sund kennt tvær stundir á viku allt skólaárið í 1. og 2. bekk og í um 3% skóla er sund kennt tvær stundir á viku allt skólaárið í 3. til 5. bekk. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla í íþróttum skal ætla nemendum einn sundtíma á stundaskrá skóla í hverri viku skólaársins. Þar sem slíku skipulagi verður ekki komið við skal kenna skólasund á árlegum námskeiðum þar sem hver nemandi fær að lágmarki 20 kennslustundir. Þær stundir sem eftir standa skal nýta til skólaíþrótta. Um 40% skólastjóra segja sund kennt á námskeiðum eða með öðru fyrirkomulagi en námskeið hluta úr skólaári eru heldur algengari hjá yngri nemendum. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að í nálægt 40 skólum sé a.m.k. einn árgangur sem fær færri en 20 kennslustundir í sundi á skólaári.
Í aðalnámskrá grunnskóla um íþróttir, líkams- og heilsurækt, segir að skipulag sundkennslu skuli miðast við að 15 nemendur séu að jafnaði í hverjum sundtíma og til að tryggja öryggi nemenda í kennslustundum enn frekar sé æskilegt að nemendur séu færri en 15 þegar þeir eru ósyndir. Í 1. til 3. bekk fara um 4% skóla yfir 15 nemenda viðmiðið, um 6% í 4. bekk og um 10% í 5. bekk. Í 6. og 7. bekk eru nemendur á ábyrgð hvers kennara fleiri en 15 í um 15% skóla en á unglingastigi eru fleiri en 15 nemendur á ábyrgð hvers kennara í 20% til 24% skóla.
Áhugavert þótti að skoða hvort gerð væri krafa um að allir nemendur færu í sturtu að loknum kennslutíma í skólaíþróttum. Í ljós kom að í 39% skóla er alltaf gerð krafa um það, í 22% skóla er oftast gerð krafa um það en í 39% skóla er ekki gerð sú krafa. Árið 2004 voru skólastjórar spurðir hversu reglulega nemendur færu í sturtu að loknum skólaíþróttum. Þá sögðu 68% alltaf, um 21% sögðu yfirleitt og 11% sjaldan. Niðurstöðurnar benda því til þess að verulega hafi dregið úr því að nemendur fari í sturtu að loknum íþróttatímum.
Skólastjórar í 76% skólanna segja að lögð sé markviss áhersla á reglubundna hreyfingu í skólanum sem viðbót við lögbundna íþróttakennslu. Í skýrslunni má sjá dæmi um hvernig það er gert en dæmin sýna að það er mjög mismunandi hvaða hreyfingu skólastjórar líta á sem markvissa viðbót við lögbundna íþróttakennslu.
Ráðuneytið mun óska eftir skýringum frá þeim skólum þar sem nemendur virðast fá færri sundtíma en kveðið er á um í námskrá, nemendur á ábyrgð hvers kennara í sundtímum eru fleiri en 15 og/eða þar sem nemendur fá innan við 120 mínútur í íþróttum á viku.