Hoppa yfir valmynd
2. maí 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vel miðar við framkvæmd aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum

Aðgerðir í loftslagsmálum.
Aðgerðir í loftslagsmálum.

 

Vel hefur miðað við að koma af stað mörgum þeirra tíu lykilaðgerða sem er að finna í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þetta kemur fram í skýrslu sem starfshópur um framkvæmd áætlunarinnar hefur skilað umhverfisráðherra. Ráðgert er að hópurinn muni skila slíkum skýrslum árlega framvegis.

Í skýrslunni er að finna yfirlit yfir fjölmargar aðgerðir, sem stjórnvöld hafa gripið til í því skyni að framfylgja aðgerðaáætluninni. Einkum er staldrað við framkvæmd tíu svokallaðra lykilaðgerða, sem eiga að tryggja að Ísland geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum á næstu árum.

Meðal lykilaðgerða sem vel eru komnar á rekspöl má nefna tilkomu kolefnisskatts og breyttra skattareglna á ökutæki og eldsneyti, sem tekur mið af losun koldíoxíðs (CO2). Vísbendingar eru um að þessar aðgerðir hafi þegar haft áhrif, m.a. á þann hátt að metanbílum hefur fjölgað, þótt enn sé hlutfall bifreiða sem nýtir aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti lágt.

Viðskiptakerfi með losunarheimildir (e. Emissions Trading Scheme, ETS) hefur einnig verið innleitt á Íslandi samkvæmt ákvæðum EES-samningsins og tók gildi í ársbyrjun 2012 hvað flugstarfsemi varðar. Árið 2013 mun stóriðja einnig falla undir viðskiptakerfið, sem mun þá ná til um 40% losunar frá Íslandi.

Ýmis skref hafa verið stigin til að draga úr losun frá samgöngum og má þar nefna ákvörðun um 350 milljóna króna framlag ríkisins í rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og áhrifasvæði þess, sem á að hækka í  1.000 milljónir króna á ári frá 2013 til 2022.

Í skýrslunni er meðal annars yfirlit yfir þróun losunar miðað við markmið um samdrátt fram til 2020, bæði í heild og í einstökum atvinnugreinum og frá öðrum uppsprettum. Líkön, sem starfshópurinn hefur þróað í þessu skyni, eiga að gagnast við ákvarðanatöku og forgangsröðun aðgerða í framtíðinni.     

Losun gróðurhúsalofttegunda minnkaði um 5% frá 2008 til 2009. Ástæður þessa eru einkum tvær: Minnkun losunar frá samgöngum og byggingarstarfsemi vegna efnahagssamdráttar og minnkun losunar frá Fjarðaáli eftir að upphafsfasa starfsemi þar lauk. Samdráttur varð í losun í nær öllum geirum nema í sjávarútvegi.

Loks kemur fram að ýmis stefnumörkun ríkis og sveitarfélaga er til þess fallin að styðja aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og markmið hennar. Þar má nefna samgönguáætlun og stefnu um orkuskipti, auk nýsamþykktrar þingsályktunartillögu um eflingu græna hagkerfisins.

Aðgerðir í loftslagsmálum – skýrsla samstarfshóps til umhverfisráðherra 2012.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta